Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 14:36:41 (2405)


[14:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það munu vera 14 á mælendaskrá þannig að ég kýs að koma hér og veita andsvar við þessari ræðu.
    Í fyrsta lagi vil ég segja það að sá milljarður sem margnefndur hefur verið og ríkisstjórnin lofaði að leggja í fjárfestingar og viðhald á þessu ári hefur að vísu ekki allur verið notaður á þessu ári en hann verður allur notaður. Upptalninguna er að finna í fjáraukalagafrv., sérstöku þingskjali. Það sem út af stendur verður ekki sett á fjárlög næsta árs en verður fært á milli ára með fjáraukalögum ef þau verða samþykkt með þeim hætti. Þannig að það loforð stendur og því mun verða fylgt eftir og hefur ekkert með önnur loforð ríkisstjórnarinnar að gera á næsta ári eða fyrr eða síðar.
    Í öðru lagi vegna sýslumannsembætta og héraðsdómaraembættisins í Norðurl. v. skal það segja að hvort tveggja málið er til sérstakrar skoðunar og niðurstaðan verður ljós fyrir 3. umr.
    Í þriðja lagi held ég að það sé rétt að það komi hér fram að fjmrn. á nú í viðræðum og bréfaskriftum við bæjarstjórnina á Húsavík um lausn á skattaþjónustu Húsvíkinga og annarra Þingeyinga og ég vænti þess að lausn finnist á því máli. Það er ekki verið að draga úr byggðastefnu. Þvert á móti hefur núv. ríkisstjórn lagt sig fram um að auka fjármuni til vegagerðar til þess að tryggja það að fært sé á milli staða innan hvers þjónustusvæðis úti á landi. Á það höfum við lagt mjög ríka áherslu og það verður að sjálfsögðu gætt þeirra sjónarmiða þegar breytingar verða gerðar, ef gerðar verða, á þessum þjónustusviðum eins og öðrum.