Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 18:36:17 (2446)


[18:36]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki hægt á þessum skamma tíma að fara að deila um það hvar árangur hafi orðið og á hvaða tíma í því að draga úr útgjöldum í heilbrigðisþjónustunni. Staðreyndin er bara sú að báðum þessum ríkisstjórnum hefur tekist, bæði fyrri ríkisstjórn og þeirri sem nú er, að draga úr útgjöldum til heilbrigðismála en með gjörólíkum hætti. Fyrri hæstv. ríkisstjórn lagði höfuðáherslu á það að taka á ýmsum skipulagsvandamálum er uppi voru í heilbrigðis- og tryggingamálum. Taka þannig á kerfinu innan frá. En núv. hæstv. ríkisstjórn hefur fyrst og fremst tekist það að velta útgjaldaauka ríkissjóðs sem greiddur var úr ríkissjóði inn í heilbrigðiskerfið yfir á sjúklingana, yfir á elli- og örorkulífeyrisþegana, þá sem síst geta staðið undir þeim útgjöldum sem þarna um ræðir.
    En út af orðum hæstv. heilbrrh. um að það sem í fjárlagafrv. hafi staðið eigi allt saman enn við rök að styðjast þá er það nú komið eina ferðina enn svo að menn hafa farið hringinn í kringum sjálfan sig. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það svo að menn ætli að eignatengja lífeyrisgreiðslurnar sem ríkisstjórnin hafði lýst yfir að ætti ekki að gera? Er það svo að menn ætli að leggja á heilsukortin upp á 400 millj. kr. eins og ríkisstjórnin hafði lýst yfir að hún ætlaði ekki að gera? Bara þessi tvö atriði fyrir utan eingreiðslurnar eru hlutir upp á 800 millj. kr. sem ríkisstjórnin hefur fallið frá af 2,4 milljörðum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig í ósköpunum getur ráðherrann haldið því fram að það standist allt sem stóð upphaflega í fjárlagafrv.? Þetta er þar inni og ríkisstjórnin hefur ákveðið að framkvæma ekki nema ef það er nú að koma upp hjá hæstv. ráðherra að menn ætli aftur að halda við heilsukortin og eigna- og tekjutengja.