Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 20:32:40 (2457)

[20:32]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það undrar mig satt að segja ekki þó að stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar séu órólegir í kvöld, margir þeirra voru að enda við að hlusta á fréttir fjölmiðlanna þar sem megininntak þeirra var aukin ásókn í aðstoð Mæðrastyrksnefndar, kvíði fólks vegna fyrirhugaðrar jólahátíðar og almennar yfirlýsingar um að fólk hafi lítið handa á milli. Það var satt að segja raunalegt að þurfa að hlusta á þetta eins og að einhverjar náttúruhamfarir hafi geisað hér í landi á síðustu mánuðum.
    Þessi fundur hefur staðið allmarga klukkutíma og margt af því sem ég hefði viljað segja hér þegar komið fram, bæði í framsögu hv. 4. þm. Suðurl. fyrir nál. minni hlutans í hv. fjárln., svo og í löngum ræðum félaga minna þar, hv. 1. þm. Norðurl. e. og 2. þm. Austurl. svo ég ætla ekki, hæstv. forseti, að taka tíma okkar í kvöld í að endurtaka það sem þar var sagt. Ég mun hins vegar víkja aðeins að störfum nefndarinnar sem ég hygg að sé töluvert á annan veg en verið hefur. Það hefur löngum þótt sómi hvers þjóðþings að standa vel að gerð fjárlaga og til þeirra starfa hafa valist mætustu menn þinganna með mikla reynslu vegna starfa sinna innan þings og utan. Menn hafa talið það skyldu sína að bera ábyrgð á fjárlögum þó að vitaskuld sé viðurkennt, eins og hér hefur margkomið fram í dag, að þegar til afgreiðslu kemur ræður að sjálfsögðu kjörinn meiri hluti. Við því er ekkert að segja og því sætir minni hluti. Hitt er annað mál að það flýtir mjög fyrir verkum nefndarinnar ef menn vinna saman að gerð fjárlaga en því fer svo fjarri að það hafi verið gert. Menn hafa haldið linnulausa meirihlutafundi og kallað síðan minni hlutann til þess að hlýða á boðskapinn og ekki haft axlastærð til að taka minnsta tillit til einnar einustu tillögu sem frá minni hluta hefur komið og það hygg ég að sé afar óvenjulegt. Nú hefur svo keyrt um þverbak að áragamall siður þegar þingmenn hinna einstöku kjördæma koma saman og ráða ráðum sínum um hvernig skiptingu fjármuna skuli varið sem alla jafna hefur farið fram með nokkru samkomulagi, er í einu ákveðnu kjördæmi svo komið að fjögurra manna meiri hluti varð að lúta í minni hluta fyrir einum þingmanna kjördæmisins og það hygg ég að sé sögulegur atburður hér á hinu háa Alþingi. En hv. 2. þm. Austurl. hefur nú þegar komið þessu máli á framfæri og ég hygg að þingheimi hafi svo ofboðið að úr því verði raunar bætt.
    En þetta eru vinnubrögð sem eru engum til gagns en öllum til skaða. Við í minni hluta fjárln. höfum reynt að vinna verk okkar af sæmilegri samviskusemi en flestar tillögur okkar hafa verið hunsaðar og er það mjög miður. En nóg um það. Annað hefur borið við sem er jafnóvenjulegt í störfum nefndarinnar og það er það að um árabil hefur hv. 1. þm. Reykv. kallað saman þingmenn Reykjavíkur vegna þess að það vill svo til að höfuðborgin er líka kjördæmi og raunar fjölmennasta kjördæmi landsins. Hv. fyrrv. þm. Albert Guðmundsson taldi þetta skyldu sína og gerði þetta alltaf með miklum myndarskap í samráði við borgaryfirvöld. En nú bar svo við að þangað til í gær höfðu engar fréttir borist af slíkum fundi. Sú sem hér stendur ákvað þá að boða til þessa fundar sem þingmaður Reykvíkinga og hringingar voru hafnar til þess að safna saman þingmönnum kjördæmisins. Fyrstu boð bárust um að virðulegur borgarstjóri gæti ekki mætt á slíkan fund og þegar auglýst var eftir staðgengli fannst hann ekki enda mun hann vera að fylgjast með kosningum í Rússlandi þessa dagana ef ég heyrði rétt. Síðan hlaut þetta ekki miklar undirtektir en þá brá svo við að einhver sagði mér að Sigrún Magnúsdóttir borgarfulltrúi hefði raunar talið ástæðu til að bera fram tillögu í borgarráði um að þingmenn Reykjavíkur yrðu kallaðir saman og borgarráð samþykkti það. Um þetta vissi ég ekki. Ekki hafði verið mikið lífsmark með borgaryfirvöldum að fara að senda út bréf að þeirri tillögu samþykktri en það voru hafðar hraðar hendur þegar hv. 14. þm. Reykv. fór að boða fund því að hálftími leið þar til boðað var til fundarins og þá þurfti ég auðvitað ekki að halda mínu fundarboði til streitu. En það sem þetta sýnir auðvitað er að nú vill svo til að hv. 1. þm. Reykv. er hvorki meira né minna en hæstv. forsrh. og hann þarf ekkert við þingmenn Reykv. að tala. Ekkert. En nú hygg ég að hann sé neyddur til þess á mánudaginn klukkan fjögur og við hlökkum auðvitað öll til þess að fá að ræða um skiptingu fjármagns í þessu stærsta kjördæmi landsins. Valdhroki af þessu tagi er harla nýr á

hinu háa Alþingi. Og ég vil biðja hæstv. forseta lengstra orða að ráða bót á þessu. Þetta er engu þjóðþingi til góðs og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir traust þjóðarinnar á þinginu að reynt verði að bæta úr þessum samskiptum. Það er enginn sómi að því fyrir hæstv. forsrh. að ætla sér að hunsa það að kalla saman hina 18 þingmenn Reykv. til skrafs og ráðagerða um hvernig best skuli skipt fjármunum. Þetta taldi ég mér rétt að upplýsa hv. þingheim um svo að menn geri sér grein fyrir hvað er hér á ferðinni. Gagnrýni okkar minnihlutamanna er ekki komin til að ófyrirsynju, það er aldrei skemmtilegt að þurfa að gagnrýna samnefndarmenn sína en svo var okkur minnihlutamönnum nóg boðið að hjá því varð ekki komist.
    En varðandi það fjárlagafrv. sem nú er til 2. umræðu vil ég gera að umræðuefni fyrst og fremst kafla í nál. okkar sem fjallar um mennt og menningu. En það er sá þáttur í íslensku þjóðfélagi sem ekki skiptir hvað minnstu máli. Það vill nefnilega svo til að menningarlaus þjóð er lítils megnug þó svo jafnvel að nægir fjármunir væru til staðar. Við höfum löngum talið það okkur til ágætis og raunar talið það undirstöðu tilvistar okkar í þessu erfiða landi að við stæðum sterkum rótum í fornri menningu, ekki síst bókmenningu. Það fer ekki á milli mála að ýmislegt bendir til þess að þessar stoðir gætu farið að veikjast. Nýleg skýrsla um stöðu læsis í Evrópulöndum sýnir okkur að íslensk börn og unglingar eru sýnu verr og lakar læs en jafnaldrar þeirra í Evrópu. Ég hygg að fæstir Íslendingar hefðu trúað þessu en þetta liggur auðvitað í því að kennslumagn hér á landi er miklu minna en annars staðar og þrátt fyrir þessar skelfilegu staðreyndir er enn hert að grunnskólanum, fleiri og fleiri nemendur eru í bekkjum, laun kennara eru fyrir neðan allar hellur, aðbúnaður barnanna í skólanum á þann veg að ekki er sæmandi. Ég vil benda hv. þingmönnum á það að sá vinnustaður finnst varla í landinu lengur sem ekki hefur á boðstólum einhvers konar hádegisverð en það er einn hópur Íslendinga sem ekkert slíkt býðst á sínum vinnustað og það eru skólabörnin. Það eru þeir Íslendingar, 1 / 4 þjóðarinnar sem hraðast vex og mest þarf á hollri og góðri fæðu að halda. Við teljum ekki ástæðu, við teljum okkur ekki hafa efni á að láta þessi börn hafa mat í hádeginu eins og ég hygg að við vildum síst af öllu án vera hér t.d. á hinu háa Alþingi. Þetta er auðvitað okkur til vansa og er alveg óskiljanlegt að menn skuli ekki setja slíkt í forgang og reyna að bæta úr aðstöðu barnanna í skólunum.
    Á sama tíma og þetta er að gerast er æ meiri hluti uppeldisins lagður á herðar skólans. Foreldrar flestra barna, báðir foreldrar, ég tala nú ekki um þar sem einungis annað foreldrið sér fyrir barninu eða börnunum, vinna úti allt of langan vinnudag, óhóflega langan og miklu lengri en gerist í öðrum löndum þannig að skólinn er í raun og veru eina skjól barnanna yfir daginn. En hvernig er það skjól? Löngu áður, mörgum klukkustundum áður en foreldrarnir koma heim er vinnudegi barnanna lokið og við tekur tómt hús og afþreying barnanna er því það sem þau geta fundið til, oftast vídeómyndir, sjónvarpsprógrömm ef þau eru í gangi. Allt er þetta kannski af vafasömum gæðum og fullkomlega eftirlitslaust og börnunum látið það eftir einum að greiða úr því sem þau þar sjá.
    Ég vil spyrja hæstv. menntrmh. sem eflaust finnst ég draga upp dökka mynd, en ég er því miður hrædd um að hún sé ekki mjög ósönn, ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta virkilega það sem við viljum, þau skilyrði sem við viljum búa börnunum okkar í landinu? Þetta er fólkið sem á að taka við þessari þjóð og þessu landi og gæðum þess og kostum og ég vil spyrja: Er þetta mótuð stefna? Hefur einhver ákveðið að þetta skuli vera svona? Ég held ekki. Ég held aldeilis ekki. En það vill svo til að hlutir gerast ekki, þeir eru gerðir. Hvort það er gert vísvitandi eða af klaufaskap og fákunnáttu, það veit ég ekki. Ég vona að það sé af síðari ástæðunum.
    Nú vill svo til að í tíð síðustu ríkisstjórnar var lögð í það mikil vinna að móta stefnu, menntastefnu í landinu. Ríkisstjórnin lét vinna mikið verk þar sem að komu allir lærðustu og reyndustu skólamenn landsins. Um þetta var sátt og friður og menn ætluðu að reyna að bæta úr þessu í áföngum. Ríkisstjórnin var ekki fyrr búin að koma sér fyrir í ráðuneytunum en þessu verki var kastað undir stól og hefur ekki sést síðan. Hvers vegna það var verður auðvitað hver að svara fyrir sig en ég hygg að skynsamlegra hefði verið að nýta það mikla verk sem unnið hafði verið í samráði við reyndustu og lærðustu skólamenn landsins og sérfræðinga á öllum sviðum og halda því verki áfram. En þetta er auðvitað ein veilan í stjórnkerfi okkar að það er eins og engin ríkisstjórn geti nýtt sér þá vinnu sem fráfarandi ríkisstjórn hefur lagt af mörkum. Allir þurfa að reisa sér bautasteina, hvort sem í þeim er eitthvað efni sem varanlegt er eða ekki.
    Ég vil minna á að síðasta Alþingi samþykkti einróma, samhljóða, bæði grunnskólalög og leikskólalög. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Var ekkert á bak við þetta? Af hverju voru menn að greiða þessu atkvæði ef ekkert á að gera með þetta?
    Allir kannast við meðferðina á Lánasjóði ísl. námsmanna og er satt að segja skelfilegt að hlusta á það sem menn láta frá sér fara úr þeim herbúðum. Menn hreykja sér af því að þeir hafa sparað milljarð eða meira í Lánasjóði ísl. námsmanna. Hvernig hafa þeir gert það? Þeir hafa gert það með því að draga svo úr námslánum að fjöldinn allur af námsmönnum hefur hrökklast frá námi. Hverjir skyldu helst hrökklast frá námi? Það skyldu þó aldrei vera konurnar? Konur með börn á framfæri? Eða með börn í sinni umsjá, hvort sem það er í hjónabandi eða utan. Sá hópur námsmanna stendur alltaf veikast þegar að herðir. Í viðtali við hv. fjárln. upplýsti skólastjóri Tækniskóla Íslands þá staðreynd að á sl. ári næstum tæmdist

skólinn. Öll kennsluáætlun fór úr böndunum vegna þess að það vantaði nemendur í skólann. Menn gáfust upp þegar þeir sáu hvernig kjör þeim voru búin í lánasjóðnum. Síðan kemur fólk heim frá námi og á þá að bera slíkar byrðar að það er sennilega rétt það sem vitnað er í nál. frá minni hluta hv. menntmn., setning sem höfðu er eftir stjórnarformanni lánasjóðsins, að menn sem taki mikil námslán hafi svo þunga skuldabyrði að þeir muni aldrei lifa mannsæmandi lífi. Þetta er hreinskilni verð ég að segja. En mér þykir þetta allkaldranaleg yfirlýsing til þess menntafólks sem er að koma heim eða út úr háskólanum frá löngu námi. Ef menn halda að þetta sé sparnaður þá er það mikill misskilningur, eða a.m.k. væri gaman að heyra fyrir hvern sá sparnaður er. Ekki fyrir þjóðfélagið, svo mikið er víst.
    Við minnihlutamenn höldum að hér sé verið að feta hættulegar slóðir og ófyrirséð sé hvert þetta leiðir okkur. Í því umhverfi sem við erum að fara inn í á nýrri öld í Evrópusamvinnu og öllu þessu sem menn hafa lagt mikla áherslu á er ég hrædd um að við komumst ekkert upp með að haga okkur svona. Það verða gerðar til okkar kröfur sem ég held að menn verði fyrr eða síðar að horfast í augu við. Og ég held að við ættum að fara að undirbúa okkur undir þær kröfur sem það samstarf mun gera til okkar. Og kannski ættum við að halda upp á 50 ára afmæli lýðveldisins með því að reyna að snúa við þeirri meðferð sem skólakerfið og uppeldisskilyrði barnanna okkar eru að verða fyrir.
    Ef við lítum til Háskóla Íslands þá er ástandið þar orðið svo að á síðasta ári var ekki hægt að kenna, það var ekki hægt að halda kúrsum sem kallaðir eru úti sem þó var krafist til prófs. Og það þýddi að vegna þess að nemendurnir gátu ekki fengið kennsluna þá misstu þeir líka námslánin, ekki af því að þessir nemendur vildu ekki stunda námið heldur stóð það ekki til boða. Það varð að fækka kennslugreinum um tugi greina og þetta er auðvitað engu líkt. Síðan vitum við öll að háskólabókasafnið hefur á engan hátt yfir að ráða þeim bókakosti sem háskólabókasöfn í löndum í kringum okkur hafa yfir að ráða. Nú skal bæta við erfiðleikana og háskólarektor hefur tjáð mér að virðisaukaskattur á bækur muni auka kostnað við innkaup bóka í háskólabókasafn um 5 millj. kr. á næsta ári og er þá miðað við óbreytt bókakaup.
    Ég ætla ekki að segja mikið um fjármögnun háskólans á byggingunum sínum. Ég hef aldrei leynt því að mér finnst harmsefni að Háskóli Íslands skuli þurfa að grípa til spilakassa til að fá fé til uppbyggingar háskólans en það má segja háskólanum til afsökunar að einhvers staðar frá verður þetta að koma því ekki koma fjárframlögin frá ríkissjóði. Síðan rjúka menn til og stofna háskóla norður á Akureyri og ekkert er nema gott um það að segja, einkum þegar hugmyndin var að byggja þar upp sjávarútvegsdeild og bar að fagna því. En hvernig er síðan búið að þessari deild sem á að einbeita sér að grunni þess sem við lifum á, sjávarútveginum? Þar er skorið niður eins og hægt er og síðan farið að dreifa fé til annarra staða á meðan allt vantar norður á Akureyri en að þessu mun ég koma síðar.
    Ég hef talað oftlega um hvernig komið er fyrir handmenntakennslu í öllu skólakerfinu frá grunnskóla og upp úr. Á sama tíma belgja menn sig út og ætla að efla íslenskan iðnað. Hvenær ætla þeir að byrja? Hver á að fara í iðnmenntun sem aldrei hefur fengið neina handmennt alla sína skólagöngu? Þetta er auðvitað barnaskapur sem nær ekki nokkurri átt. Eftir þessa lýsingu vil ég spyrja hæstv. menntmrh. sem hefur margsinnis talað um að þessi ríkisstjórn leggi höfuðáherslu á auknar rannsóknir og vísindastörf. Er þetta nú ekki þversögn að ætla að setja sér slík markmið sem vissulega eru góðra gjalda verð á sama tíma og skólakerfið er skorið niður eins og gert er? Ég held að þetta geti ekki verið neitt nema orðin tóm og held að ríkisstjórninni væri sæmra að setjast niður og reyna að átta sig á hvað er að gerast í þessum efnum. Ég held að enginn Íslendingur vilji hlusta á það að íslenskum börnum og unglingum fari hrakandi í lestri. Læsi er merkilegur hlutur. Það þýðir ekki það að börn séu hætt að geta raðað saman stöfum. En það sem er auðvitað að gerast er að börnin eru að tapa tungumálinu og börnin skilja ekki þau orð sem þau raða saman og hætta að lesa. Það er of erfitt. Og þetta eru fyrirbæri sem við höfum kynnst í öðrum löndum, meðal lágstéttarfólks í Bretlandi t.d. sem er ólæst að stórum hluta og getur ekki hugsanlega brotist í gegnum dagblöð sem millistéttin og ég tala nú ekki um hástéttirnar lesa. Og ég vona að menn láti ekki þessa þróun fara út í þá sálma því að þá held ég að við séum illa komin.
    Hæstv. forseti. Menn fara nú inn í ár fjölskyldunnar og hæstv. félmrh. hefur auðvitað margsinnis talað um það í hástemmdum vendingum að á því ári verði lögð mikil áhersla á fjölskylduna, málefni fjölskyldunnar. Það gladdi mig þess vegna óendanlega að heyra það að hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur kvatt sér hljóðs utan dagskrár á morgun um skuldastöðu hinnar íslensku fjölskyldu. Ég held að það sé mál til komið að hið háa Alþingi taki þau mál til athugunar. Sannleikurinn er sá að ég þori að fullyrða að fólk með ung börn á erfiðar uppdráttar nú á Íslandi en um langt skeið og það þýðir ekkert að segja okkur að fyrir því séu gildar ástæður. Svo mikil kreppa er ekki á Íslandi. Við höfum oft orðið að herða ólina, en ég hygg að það sé langt síðan ungt barnafólk hafi átt eins erfitt uppdráttar og það á nú.
    Eins og ég sagði áðan vinna flestir foreldrar úti langan vinnudag og umhirða barnanna er því miður langt frá því að vera eins og æskileg væri þar sem leikskóla skortir og skólavera barnanna er í engu samræmi við vinnudag foreldranna. Þessar vandræðalegu geymsludeildir sem komið hefur verið upp hér í Reykjavík af engum efnum í engu húsrými er ekki nema sýndarmennskan ein og það hef ég séð af eigin raun. Þar er hvorki starfslið né húsnæðisaðstaða til þess að sinna börnunum sem skyldi og úr þessu verður ekkert nema svona heldur leiðinlegir geymslustaðir þrátt fyrir besta vilja fólksins sem þar vinnur. Þar

eru allt of mörg börn í hverri deild og ófullkomin aðstaða á allan máta. Og það er satt að segja hráslagalegt að það fólk sem fæst við umönnun barna, hvort sem það er í leikskólum eða í skólakerfinu alla leið upp til háskóla, er fólk sem hefur laun sem eru í engu samræmi við mikilvægi þessara starfa auk þess sem einmitt þetta fólk er oft skuldum hlaðið vegna fyrra náms. Og ég held að það sé ástæða til þess að vara við að hér kunni að verða umtalsverður atgervisflótti úr landinu. Það er einfaldlega þannig að það getur verið sæmilega auðvelt fyrir margt vel menntað fólk að fá svo miklu betri bæði vinnuaðstöðu til rannsókna og svo miklu betri laun í öðrum löndum að því fólki verður tæplega láð þó að það kjósi þann kostinn. Og ef við höfum ekki efni á einhverju þá er það einmitt að missa þetta fólk úr landinu.
    Ef menn lesa dagblöðin erlendu, sem eru hér í hliðarherbergi, þá mátti lesa á forsíðu danska blaðsins Politiken fyrir nokkrum dögum hvernig komið er fyrir dönsku fjölskyldunni eftir að Danmörk gerðist háþróað iðnríki. Þar sagði að 60% fólks, fullvaxta fólks í Danmörku býr eitt, þ.e. annaðhvort eitt eða með börnum sínum, einungis 40% búa í kjarnafjölskyldu. Og þessi þróun er að eiga sér stað út um alla Evrópu. Konur eru nú fjárhagslega sjálfstæðari en áður var og álagið á þessari litlu kjarnafjölskyldu þar sem allt annað fólk en hjónin og börnin er horfið út af heimilunum, vandamál þessara heimila verður svo mikið áreiti að þessar fjölskyldur gliðna í sundur. Það er nú einu sinni þannig og ég vil segja það hér frá þessum stóli að ég held að það sé röng stefna að enginn eigi að koma nálægt uppeldi barna aðrir en foreldrarnir. Ég held að uppeldi barna sé svo erfiður og vandasamur hlutur að þar eigi að koma til skyldmenni, ömmur, afar og fjölskylda allt í kring. Öll vandamál verða svo yfirþyrmandi þegar einungis tvær manneskjur sem vinna langan vinnudag eiga að axla þau öll og ég hygg að við sem ólumst upp í þriggja kynslóða fjölskyldum þekkjum það að vandamál leystust stundum í þetta skiptið hjá ömmu, í annað skiptið hjá mömmu. Og ég held að þessi þróun sem hefur átt sér stað sé mjög hættuleg. Hvað sjáum við svo fyrir okkur, jafnvel hér uppi á Íslandi? Við sjáum ofbeldi sem er ólíkt öllu því sem við höfum áður séð. Við sjáum drykkjuskap unglinga allt niður í 11, 12 og 13 ára gamalla barna. Það er eitthvað að. Þetta er ekki eðlilegt. Þessum börnum líður ekki vel og við hljótum að verða að spyrja okkur hvað sé að gerast hérna hjá okkur. Við verðum einfaldlega að snúa þessari þróun við og sjá til þess að hinir fullorðnu hafi tíma til að vera með börnum sínum og geti borið ábyrgð á hvernig einstaklingar þau verða.
    Það má kannski benda á það líka að svo gæti farið ef herðir áfram að íslensku fjölskyldunni að fólk hugsi sig í meira mæli um áður en það eignast mörg börn. Við höfum notið þeirrar gæfu hingað til að Íslendingar hafa verið óhræddari við að eiga börn en margar nágrannaþjóðir okkar. Fari svo að menn gerist svo varkárir í efnahagsmálum sínum að mjög dragi úr barnsfæðingum þá er ég hrædd um að það komi til með að bitna illilega á aldursskiptingunni í þessu litla samfélagi. Ég hygg að menn ættu að reyna að horfa svolítið til framtíðar og hugsa sér hvernig þjóðin okkar kemur til með að líta út ef barnsfæðingum fækkar mjög, meðan þjóðin lifir sem betur fer lengur og lengur, þá er ég ansi hrædd um að það sé orðinn ærið lítill hópur eftir nokkra áratugi sem vinnur fyrir ansi stórum hóp. Og þetta eru auðvitað hlutir sem við hv. þingmenn verðum að huga að. Þetta er ekkert sem hægt er að afgreiða sem einhver kvennamál eða mjúk mál eða hvað þetta er allt saman kallað. Þetta eru einfaldlega staðreyndir sem við berum ábyrgð á og þessari þróun er ekki hægt að loka augunum fyrir.
    Ég hef áður minnst á hvernig hefur verið farið með aldraða fólkið. Þegar byggingariðnaðurinn fór að skreppa saman datt einhverjum snjöllum mönnum í hug að fara að bjóða hinum öldruðu kostaboð, íbúðir fyrir aldraða, sérhannaðar og með einhverri sérstakri þjónustu. Úr þessu hefur svo orðið að það byggðarlag finnst varla lengur í landinu sem er ekki búið að byggja blokkir handa gamla fólkinu. Sjaldnast fylgir nokkur þjónusta og hafi gamla fólkið verið einmana í húsinu sínu eða gömlu íbúðinni sinni, þá er það enn þá meira einmana í nýju blokkinni. Og ofan á allt annað hafa þessar íbúðir reynst svo ótrúlega dýrar að gömul og gróin hús, gömul einbýlishús, hafa varla dugað fyrir tveggja til þriggja herbergja íbúð. Þetta hefur verið látið viðgangast og menn hafa þannig losað sig við það sem þeir mega ekki vera að því að sinna, þ.e. aldraða foreldra sína. Ég held ekki að neinn hafi mótað þessa stefnu. Ekki hef ég gert það og ég hugsa að enginn hér inni hafi gert það. Þessi þróun og þessir atburðir hafa einfaldlega verið látnir reka á reiðanum og það er einmitt það sem Alþingi og þjóðþing aldrei eiga að gera. Og efist einhver um að þessi umræða eigi við í umræðum um fjárlög ríkisins þá á hún einmitt heima þar vegna þess að með þeim er mótuð sú stefna sem ég er að tala um. Í þessum fjárlögum er því miður ekki að sjá neinar vísbendingar um að frá þessari þróun eigi að víkja, því miður. Og ég vildi nú gera það að minni meginósk og harma nú að hæstv. félmrh. skuli ekki vera hér að á margumræddu ári fjölskyldunnar 1994 og raunar 50 ára afmæli hins íslenska lýðveldis verði virkilega gert átak í því að styrkja barnafjölskyldurnar og það unga fólk sem er að ala upp nýjar kynslóðir. Ég held að það sé algjör undirstaða þess að þetta samfélag okkar eigi sér einhverja framtíð.
    Hæstv. forseti. Af einstökum málum ætla ég ekki að tína margt til. Það hefur að mörgu leyti þegar verið gert. Við minnihlutamenn sem skiluðum sameiginlegu nefndaráliti höfum kosið að bera ekki fram neinar brtt. Við teljum að þessi fjárlög séu svo pólitískt mál að smávægilegar breytingar til eða frá þjóni ekki miklum tilgangi. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði tillögu eins og hér liggur fyrir á þskj. 344 sem er tillaga um að virðisaukaskattur af bókum verði felldur niður eins og fyrrv. ríkisstjórn hafði gert. Ég held

að þjóðin mundi þola þær 280 millj. sem það gefur ríkissjóði því að ég held að það sé svo mikilvægt að allur þorri manna eigi aðgang að bókum að það sé ekki sparnaður að gera það erfiðara, svo sannarlega ekki.
    Að lokum, frú forseti, ( Gripið fram í: Passa að kyngreiningin sé rétt.) Maður verður að snúa sér við til að sjá hver er í forsetastól þó að hv. 2. þm. Vestf. geri lítið með það hvort kynið situr í stólnum. ( Gripið fram í: Það er málfræðin sem ræður hjá honum.) En varðandi frv. sem hér liggur fyrir, þá er það gömul og ný saga þó að hún sé kannski áþreifanlegri nú en oft áður að þingmenn hinna ýmsu kjördæma sem í fjárln. sitja eru misýtnir við að nálgast fjármuni til eigin byggðarlags og verður oft skynsemin að víkja þar svo að menn geti komið heim í hérað og bent á hversu duglegir þeir hafi verið að afla fjár. Við því er auðvitað ekkert að segja. Vitaskuld eiga þingmenn hinna ýmsu kjördæma að vera með mesta þekkingu á því hvar skórinn kreppir. En ég hlýt að gera eins og hv. 6. þm. Vestf. gerði hér í dag, ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh. hvort það hafi verið stefna Háskóla Íslands og hæstv. menntmrh. að hlúa svo vel sem þessar brtt. sýna að samstarfsverkefni Vestmannaeyjabæjar og Háskóla Íslands um sjávarútvegsrannsóknir í Vestmannaeyjum. Hér fást 13,8 millj. eða allt sem um var beðið og vissulega á hv. 3. þm. Suðurl. heiður skilið fyrir að hafa barist mikið fyrir þessu máli, en þar á móti koma 8 millj. frá Vestmannaeyjabæ og það er sannarlega óvenjulegt að nýtt verkefni sem ekki er fullmótað að mér sýnist hljóti svo vinsamlegar móttökur í hv. fjárln. Telja mætti upp tugi verkefna sem Háskóli Íslands hér úti á Grímsstaðaholti verður að láta bíða vegna fjárskorts, svo og hinn ungi háskóli á Akureyri.
    Að mínu viti hefur það aldrei verið skynsamlegt þegar lítið er um fjármuni að dreifa þeim þannig að hvergi sé mikið hægt að gera. En vera má að þetta samstarfsverkefni geti gengið. Ég hygg að hús það sem kaupa á undir einn starfsmann kosti ekki undir 20 millj. og við skulum þá vona að frá því starfi komi umtalsverður árangur. En auðvitað vil ég ekkert hafa á móti þessu máli og ég vildi að nógir peningar væru til svo hægt væri að efla sjávarútvegsrannsóknir í Vestmannaeyjum. En ég hlýt að spyrja hvort ekki hefði verið nær að efla starfsemina á Akureyri í nokkur ár áður en þetta verkefni væri sett af stað þannig að við værum ekki að dreifa fé út um allar grundir eins og mörg dæmi eru um í fjárfestingum á Íslandi þar sem hver grunnurinn hefur verið við hliðina á öðrum árum og áratugum saman út um allt land fremur en að einhverju verkefni væri lokið svo það gæti orðið arðbært og einhverjum til góðs.
    Virðulegur forseti. Vera má að ég gleymi einhverju sem ég ætlaði að gera að umtalsefni. Við minnihlutamenn uppgötvuðum það seint í gærkvöldi að tvö voru þau ráðuneyti sem okkur hafði eiginlega sést yfir. Annað var iðnrn. og eftir nokkrar umræður komumst við að því að þaðan væri ósköp lítið að frétta og tæplega tæki að gera því ítarleg skil. Hitt var utanrrn. og við komumst einmitt einnig að því að þar væri erfitt að fóta sig. Dæmi væru um að stórir fjármunir væru í bönkum erlendis, sendiráð eru lögð niður fyrirvaralaust og önnur stofnuð, því að eins og kunnugt er hefur hæstv. utanrrh. eða hafði a.m.k. í upphafi ferils síns mestu ímugust á starfsemi sendiráðanna. Þar held ég að hafi komið til vanþekking á vinnu þeirra manna sem þeim störfum gegna rétt eins og hefur komið fram í mörgum öðrum aðgerðum þessarar ríkisstjórnar. Við kusum því að athuga það mál til 3. umr. ef hægt væri að fá einhvern botn í fjármál þess virðulega ráðuneytis, utanrrn.
    Að endingu. Það er raunalegt að standa hér í þessu ríka landi, því að þessi þjóð er rík og landið er auðugt. Að við skulum ekki hafa burði til þess að gera tilveru þessara 260 þús. íbúa á þann veg að öllum geti liðið sæmilega vel er sorglegt. Það er engin ástæða til þess, ég skal ekkert létta af okkur hinum, minnihlutamönnum, að við höfum ekki einhvers staðar brugðist á undanförnum árum en við reyndum þó að vinna betur en þessi hæstv. ríkisstjórn gerir. Ég hygg að við höfum ekki fyrr séð kuldalegt andlit þeirrar neyðar sem við sjáum í dag. Bankarnir eru að sligast undan íbúðum fólks sem þeir neyðast til að taka upp í skuldir og fátt vilja bankarnir síður. En þeir eiga enga aðra kosti. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstjórn: Hvað ætla menn að gera þegar bankar landsins, sem margir hverjir eru ekkert of sterkir, fara að sligast undan húsnæði íslensku fjölskyldunnar? Hvað ætla menn að gera við íbúana? Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti, þegar hún er búin að borða sig vel sadda um jólin, að setjast niður og hugsa sinn gang þar til þing kemur saman aftur. Sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir nú gengur ekki. Þetta er helferð og hana verður að stöðva, því fyrr því betra.