Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 21:52:32 (2463)


[21:52]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var alveg ástæðulaust af hv. þm., síðasta ræðumanni, að tala um að menn hefðu verið að tala um þetta verkefni í Vestmannaeyjum af einhverri léttúð. Ég held að það hafi enginn talað um það hér öðruvísi en af fullri alvöru og út af fyrir sig held ég að það hafi enginn út á verkefnið sem slíkt að setja. Það sem hins vegar vekur athygli er að fyrsta nýja fjárveiting til rannsókna á sviði fiskveiða og vinnslu og skyldra greina eftir að Alþingi samþykkti á síðasta vori þáltill. þess efnis að slík miðstöð skyldi byggð upp á Akureyri í tengslum við háskólann þar skuli vera til Vestmannaeyja en ekki til Akureyrar. Þetta vekur spurningar um það hvers virði ályktanir Alþingis séu yfir höfuð. Og það væri gaman að varpa þeirri spurningu til fjárlaganefndarmanna hvort þeir fari yfir slíka hluti þegar þeir eru að vinna að sínum tillögum.
    Ég vil benda á að það er ekki eingöngu hér í Reykjavík, þar sem aðalstöðvar Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins eru, sem stundaðar eru rannsóknir tengdar fiskveiðum og vinnslu. Hv. þm. nefndi bæði Sandgerði og Grindavík og að mínu mati, meðan við erum að spila úr eins litlu fjármagni og við höfum, eins og þingmaðurinn benti réttilega á í upphafi sinnar ræðu, þá held ég að á þessum stöðum höfum við ærin verkefni og það er á þessum grunni sem það kom mér afskaplega mikið á óvart að sjá þessa fjárveitingu þar sem hún var komin.