Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 03:36:51 (2498)


[03:36]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vissulega er það rétt hjá fjmrh. að kjarasamningurinn var bæði gerður við ASÍ og VSÍ, þ.e. það var samið um þessi mál við ASÍ og VSÍ og Kaupmannasamtökin eru innan VSÍ. Hins vegar hefur ríkisstjórnin og ráðherrarnir talað þannig allt fram í desembermánuð að það mátti næstum því búast við að það yrði ekkert af þessari lækkun á virðisaukaskattinn og a.m.k. var lagt ofurkapp á það að reyna að fá það fram og knýja á um það bæði gagnvart ASÍ og VSÍ að lækkun á virðisaukaskattinum yrði ekki að veruleika. Þegar margir stjórnarþingmenn trúðu því sjálfir að þetta mundi ekki ganga eftir þá er kannski ekki nema vorkunn þeim sem trúa því úti í bæ að þetta verði ekki að veruleika og þar með kannski ýmsum í Kaupmannasamtökunum. Ég hygg að þar hafi margir treyst á það og trúað því að þessi breyting yrði ekki um áramót og spurningin er sú, ætla menn að fara að vinna einhverja hluti, eyða tíma í það og svo verður kannski aldrei neitt úr neinu? Þannig held ég að þeir standi núna talsvert vanbúnir að taka þetta kerfi upp og náttúrlega ekki síst vegna þess að það hafa ekki sést nein drög að reglugerð frá fjmrn.
    Ráðherra samþykkti þessa útreikninga mína áðan, þ.e. að það væri 0,35% hækkun á tekjuskattinum í staðgreiðslu. Hann sagði hins vegar að það hefði komið í staðinn fyrir 0,5% atvinnuleysistryggingagjald sem átti að leggja á og það væri kristalklárt að um skattalækkun væri að ræða. Ég skil ekki hvernig hægt er að segja að það sé kristalklárt að það sé um skattalækkun að ræða þó þeir hafi hætt við 0,5% áform og ákveðið að hafa þau 0,35%. Hækkunin er samt sem áður þessi, 0,35% í tekjuskattinum og úr 1,5 í 1,7% í útsvarinu, og nota bene það skilar meiru, það eykur skattbyrðina þegar það fer yfir í útsvarið vegna þess að þar kemur ekki persónufrádrátturinn inn. Þannig að bara 1,5% í útsvari ef það hefði verið látið þar við sitja hefði skilað talsvert meiru heldur en 1,5% í tekjuskattinum.