Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 03:41:45 (2500)


[03:41]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt sem kemur fram hjá fjmrh. að sveitarfélögin eru nokkuð mismunandi og þessi lækkun til sveitarfélaganna --- hann talaði um að það væri lækkun upp á 80 millj. kr. yfir heildina --- þessi breyting sem nú er verið að gera kemur auðvitað mjög mismunandi út eins og ráðherra benti á vegna þess að þó að ríkisvaldið sé ,,homogen`` þá eru sveitarfélögin ekki ,,homogen``, þau eru mjög mismunandi. Þess vegna er það að þetta kemur verr út fyrir Reykjavíkurborg heldur en ýmis sveitarfélög önnur úti á landi. ( Fjmrh.: Þetta vissu allir þegar niðurstaðan var fengin.) Þetta vissu allir, segir fjmrh., þegar niðurstaða var fengin í sumar, en það er náttúrlega ekki nóg að skoða bara frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga, það sem við þurfum að skoða líka í þessu samhengi er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, þ.e. hvaða breytingar á að gera á honum og það er náttúrlega eins og annað þegar kemur að þessum skattamálum að í desember, eftir að sveitarfélögin eiga að vera búin að ákveða útsvar hjá sér, þá er hent inn í þingið frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga og við erum ekki enn farin að sjá tangur eða tetur af þeim breytingum sem eiga að gerast á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þetta verður auðvitað að hanga saman og ég vil benda á það að eftir því sem fram kemur í því áliti sem ráðherra vitnaði til áðan sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson skrifaði m.a. undir, þá lá þetta fyrir og var sent til ríkisstjórnarinnar í sumar. Samt kemur frv. inn í þingið í desember eftir að sveitarfélögin eiga að vera búin að ákveða útsvarið. Það er dálítið seint í rassinn gripið og ætlast svo til þess að hér séu bara allir tilbúnir til þess að flýta fyrir þessu máli eftir föngum þegar heildarmyndin liggur ekki einu sinni fyrir, hún liggur ekkert fyrir fyrr en Jöfnunarsjóðurinn kemur inn í myndina.