Skuldastaða heimilanna

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 13:49:41 (2536)


[13:49]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég sakna þess að hæstv. félmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. Hún vill

væntanlega vera stikkfrí og ekki þurfa að leggja orð í belg. Hún er hins vegar fús að taka mikið upp í sig fyrir kjósendur og jafnvel að vera með hótanir en guggnar svo náttúrlega á því að framkvæma þær þegar til kastanna kemur. Mér fannst fátt um svör hjá hæstv. forsrh. Það var kannski eðlilegt. Þessi þróun er afleiðing af þeirri stjórnarstefnu sem við höfum búið við, hún er bara rökrétt afleiðing af þeirri stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Þessi ríkisstjórn hefur starfað að því að færa þjóðarauðinn til, gera þá ríku ríkari og þar með hafa þeir fátæku orðið fátækari. Svo einfalt er þetta.
    Fjármagnstekjurnar eru skattfrjálsar og ríkisstjórnin kemur sér undan því ár eftir ár að skattleggja þær. Hátekjuskatturinn er lítið annað en nafnið. Atvinnulífið var lamað með vaxtahækkun strax í upphafi stjórnarferilsins. Skattabyrðin er færð af gróðafyrirtækjunum yfir á einstaklingana og skattahækkanirnar koma einkum fram í hækkun þjónustugjalda sem svo lenda fyrst og fremst á þeim sem lasburða eru og illa settir og hafa ekki peninga til að greiða þessar skattahækkanir. Það er góðra gjalda vert að stofna samstarfshóp en ég held að það leysi þó tæplega vandann. Þessi umræða er góðra gjalda verð sem upphaf að öðru stærra og meira. Þingmenn Framsfl. hafa óskað eftir skýrslu um þetta mál, um skuldastöðu heimilanna, og hún verður að takast til ítarlegrar umræðu eftir jólin. En það sem þarf að gera er að breyta stjórnarstefnunni. Við þurfum nýja stjórnarstefnu, afskrifa frjálshyggjuna og fá nýja ríkisstjórn í landið.