Skuldastaða heimilanna

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 13:54:25 (2538)


[13:54]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir góðar undirtektir og ég vil aðeins segja við hæstv. forsrh. að ég geri mér grein fyrir því hvernig þessi þróun hefur verið undanfarin ár en ég held að það sé kominn tími til að í stað þess að vera að velta sér endalaust upp úr einhverjum fortíðarvanda að reyna að gera sér grein fyrir því hver framtíðin er og reyna að horfa meira til framtíðar heldur en gert hefur verið. Það er hins vegar öllum ljóst ef þessar tölur eru skoðaðar að þá hefur þróunin samt orðið sú að skuldastaða heimilanna hefur vaxið hvorki meira né minna en um 60--70 milljarða kr. frá því að núv. ríkisstjórn kom til valda.
    Af hverju ég beini þessari umræðu til hæstv. forsrh.? Hæstv. forsrh. fannst að það hefði verið eðlilegra að ég hefði talað við hæstv. félmrh. Málið er klárt frá minni hálfu. Ástæðan er einfaldlega sú að fyrir ári síðan fluttu hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Sigbjörn Gunnarsson þáltill. um hliðstætt mál. Málið var aldrei tekið á dagskrá þingsins þrátt fyrir það að við margítrekuðum það þingmenn stjórnarandstöðunnar að draga mál okkar til hlés þannig að það skapaðist ráðrúm til þess að þingmenn gætu fengið það mál á dagskrá svo merkilegt sem það var. Nú hafa þessir menn báðir verið hækkaðir í metorðastiga Alþfl., annar er nú orðinn hæstv. umhvrh. og hinn orðinn formaður fjárln. og ekkert bólar á viðbrögðum til þess að rétta hlut fjölskyldnanna í landinu þannig að mér fannst vita vonlaust verk að tala meira við Alþfl. í þessum efnum. Ég bar þó það mikið traust til hæstv. forsrh. að ég bað hann að verða við þeirri eindregnu ósk að settur yrði á fót starfshópur til að vinna að lausn þessa máls.
    Ég hef aðeins rætt þetta mál við Sólrúnu Halldórsdóttur hagfræðing sem hefur kynnt sér þessi mál erlendis og hvernig við þeim hefur þar verið brugðist. Hún hefur sagt mér það að á Íslandi sé svo sannarlega ástæða til þess í dag að kryfja þessi mál til mergjar. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. En rétt að lokum, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., Páli Péturssyni, mun

nefndin ekki leysa þetta mál. En til þess að við þekkjum vandann og greinum hann rétt þá þurfum við að setja upp þennan starfshóp til að við getum á vitrænan hátt tekið á þessu máli og reynt að leysa það. Því endurtek ég þá ósk mína til hæstv. forsrh. að hann komi þessum starfshópi á, og ég minni á að ár fjölskyldunnar fer í hönd.