Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:34:03 (2549)


[14:34]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að víkja að nokkrum atriðum sem snerta sérstaklega hæstv. heilbr.- og trmrh. og birtast í 11. gr. frv. sem hér er til umræðu og síðan 12.--18. gr. frv. Ég byrja fyrst á 11. gr.
    Samkvæmt greinargerðinni felur 11. gr. í sér eða á að fela í sér heimild til að innheimta svokallað áfengismeðferðargjald. Ég tel að það sé stórkostlega alvarlegt prinsippatriði að taka upp þetta áfengismeðferðargjald vegna þess að þar með séu menn að innleiða sjúklingaskatta og það verði mjög erfitt að stöðva sig eftir að þetta áfengismeðferðargjald hefur verið tekið upp. Ég óttast það að á komandi árum muni stjórnvöld við þrengingar í efnahagsmálum, ríkisfjármálum heillast til þess í vaxandi mæli að taka meðferðargjald. Ja, úr því að það er komið á áfengismeðferð þá af einhverri annarri meðferð, endurhæfingarmeðferð af ýmsu tagi o.s.frv. Ég óttast að núv. ríkisstjórn, þar sem Alþfl. á heilbrrh. og félmrh., sé að þessu leytinu til að brjóta í blað, hún sé að hverfa aftur um marga áratugi og að þegar fólk leggst inn til áfengismeðferðar þá verði bersýnilega spurt: Áttu fyrir henni? áður en spurt er: Hversu mikið þarftu á henni að halda?
    Þetta er auðvitað hróplegt félagslega séð en líka heilsufræðilega og læknisfræðilega vegna þess að það vill einu sinni þannig til að þeir sem þurfa brýnast á meðferð að halda frá læknisfræðilegu sjónarmiði eru ekki endilega þeir sem eiga mest af peningum. Það vill nú svo sérkennilega til, eins og t.d. hv. 2. þm. Vesturl. þekkir, sem hefur stundað sjúklinga, að það er ekki spurt að því hvað er í buddunni þeirra áður en meðferðin hefst vegna þess að buddan segir ekkert um heilsufarið að öðru leyti nema á buddunni sjálfri.
    Í greininni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar.``
    Þetta er breyting á 41. gr. laganna. Nú ætla ég að lesa hana, með leyfi forseta:
    ,,Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 40. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið á fæðingarstofnunum. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.`` --- Við þessa grein bætist þessi nýja málsgrein:
    ,,Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar.``
    Hér stendur ekki að þetta sé bundið við áfengismeðferð. Eins og greinin hljóðar í frv. er hægt á grundvelli hennar að setja reglugerð um meðferðargjald vegna hvaða sjúkdóms sem er og hvar sem er í heilbrigðiskerfinu. Ég bið hæstv. ráðherra í fullri vinsemd að athuga þetta mjög alvarlega vegna þess að ég held að málið sé svona að þarna séu menn að opna fyrir miklu víðara sjúkdómasvið heldur en áfengismeðferðina eina sem menn þó í orði kveðnu og í greinargerðinni eru að skírskota til. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi segi ég: Ég er á móti þessu áfengismeðferðargjaldi. En í öðru lagi segi ég: Ef þetta á að eiga við áfengismeðferðargjaldið eitt þá verður að orða greinina nákvæmar vegna þess að eins og hún hljóðar hér þá nær hún í raun og veru til allra heilbrigðisstofnana í landinu af því að þó að orðið sjúkratryggður sé notað hér þá þýðir það auðvitað ekkert annað en alla þá sem fara inn á heilbrigðisstofnanir. Þetta er það fyrsta.
    Annað snertir svo atvinnuleysistryggingarnar. Ég vil segja í sambandi við þær að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur ekki verið spurð. Hún hefur aldrei séð þessa tillögu með formlegum hætti. Mér er kunnugt um það. Mér er kunnugt um það að einstakir stjórnarmenn í Atvinnuleysistryggingasjóði fengu fyrst að sjá þessar tillögur þegar undirritaður, sá sem hér stendur, ljósritaði þær og sendi á faxi daginn sem

frv. var dreift hér í þinginu. Þetta tel ég grafalvarlegt mál að fara svona með atvinnuleysistryggingalögin af því að þau eru í kjarasamningum. Þau eru kjarasamningur frá 1955 milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnin er auðvitað aðili að því máli þannig að þessu á að breyta í samráði við þessa aðila. Ég gagnrýni vinnubrögð númer eitt.
    Ég gagnrýni það númer tvö hvernig farið er með stjórnkerfi atvinnuleysistrygginganna. Auðvitað er þetta nefndafargan alveg voðalegt eins og er, allar þessar úthlutunarnefndir. Það er engin spurning. Við tókum smárispu á því í fyrra, ég og hæstv. heilbr.- og trmrh., því að við alþýðubandalagsmenn fluttum þá frv. um að einfalda þetta kerfi. En við sögðum: Það er hægt að einfalda samkvæmt ákvörðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs enda verði um það samhljóða niðurstaða í stjórn sjóðsins. Hvað er gert hér? Hér er ráðherranum heimilað að ryðja öllu úthlutunarnefndakerfinu eins og það leggur sig, hann getur það, ég veit að hann ætlar ekkert að gera það, en það er fræðilega hægt samkvæmt textanum eins og hann lítur út, en þar stendur:
    ,,Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda.``
    Þetta er allt of rúmt. Það er alveg vonlaust, finnst mér, fyrir ráðherrann að fara fram á heimildir af þessu tagi og enn þá vitlausara finnst mér fyrir Alþingi að veita honum þetta og ég efast stórlega um að hæstv. heilbr.- og trmrh., sá sem það embætti skipar nú, vilji fá inn á borð hjá sér það vald og þau vandamál sem fylgja því valdi sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Ég vil sem sagt í öðru lagi spyrja: Telur hæstv. ráðherra ekki rétt að endurskoða þetta orðalag þannig að þetta vald verði hjá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs en ekki einhliða í höndum ráðherrans eins og frumvarpstextinn gerir ráð fyrir?
    Í þriðja lagi vil ég í þessu sambandi víkja að 18. gr. frv. sem er hliðstæð, þar sem segir:
    ,,Úthlutunarnefndir annast greiðslu bóta til einstakra bótaþega, nema ráðherra ákveði annað.`` --- Hann getur sem sagt ákveðið að láta aðra annast afgreiðslu bóta.
    Þetta er ómögulegt. Það getur vel verið að ráðherrann geti fundið fínt kerfi, en það þýðir ekkert annað en hafa sátt um svona hluti hverjir eiga að borga út þessar atvinnuleysisbætur og þess vegna tel ég að um þetta eigi einnig að ríkja sátt og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn að til þess að stuðla að því.
    Í fjórða lagi vil ég sérstaklega nefna 16. gr. frv. Þannig háttar til að á undanförnum árum hefur fólk getað fengið atvinnuleysisbætur á móti hluta af launum. Þetta hefur verið t.d. þannig þegar það hefur vantað hráefni í frystihúsum eða fiskvinnsluhúsum, þá hefur fólk dregið við sig vinnuna, haldið kannski 1 / 3 eða helmingi launanna í viðkomandi frystihúsi en fengið atvinnuleysisbætur á móti. Með þessu móti helst vinnuréttarsamband launamannsins og viðkomandi atvinnurekanda jafnvel þó að atvinnuleysisbætur séu greiddar um skeið og þetta er gamalt samningsatriði milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda og þótti mikil réttarbót á sinni tíð.
    Ég vil nefna eitt sérstakt dæmi þar sem þetta mál hefur komið sér vel. Það er í iðnaðinum. Við höfum gengið í gegnum alveg hroðalega erfiðleika oft í iðnaðinum, t.d. í Sambandsverksmiðjunum fyrir norðan. Og þar hefur það komið fyrir að menn hafa dregið niður vinnuna í smátíma meðan framleiðslutoppurinn er runninn niður og svo hafa menn borgað atvinnuleysisbætur á móti þannig að þetta kerfi hefur gengið nokkuð vel. En hérna er gert ráð fyrir því að fella þetta alveg niður eins og þetta lítur út hér. Ég ætla að nefna annað dæmi, reyndar úr kjördæmi hæstv. ráðherra. Það er Álafoss. Ég veit um það að langtímum saman var fólkið á Álafossi í tiltölulega lítilli vinnu með tiltölulega litlar tekjur hjá Álafossi en hafði síðan einhverja aura í viðbót í gegnum atvinnuleysistryggingakerfið þannig að ég held að þetta sé sniðugt kerfi eins og það hefur verið og stuðli að því að fólk haldi sambandi við sinn atvinnurekanda meðan fyrirtækið á í vissum erfiðleikum. Síðan þegar þeim erfiðleikum lýkur þá gengur fólkið aftur til starfa hjá viðkomandi fyrirtæki. Og ég er viss um að ekki aðeins hjá launamönnum hefur þetta verið heldur þakklátt kerfi heldur hafa atvinnurekendur líka talið þetta gott kerfi af því að þeir hafa getað haldið áfram tengslum við viðkomandi fólk. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ekki koma til greina að fella þessa grein niður, 16. gr.? Af því að ég tel að hún brjóti viðkvæmt prinsippatriði sem er það sem mér liggur við að kalla friðsamleg sambúð milli launakerfisins í landinu annars vegar og atvinnuleysistryggingakerfisins hins vegar.
    Með hliðsjón af því að við höfum rætt þetta mál nokkuð áður, þá ætlaði ég að láta máli mínu lokið hér. Ég rifja það aðeins upp að ég á ósvarað hér inni spurningum hjá hæstv. umhvrh. en ég tek bara rispu á því við annað tækifæri af því að hann hefur enn þá ekki látið sjá sig hér, því miður, en mér þætti mikilvægt með hliðsjón af framvindu umræðunnar ef hæstv. heilbr.- og trmrh. treystir sér til að svara þeim atriðum sem ég hef hér nefnt og beint til hans sérstaklega.