Heilbrigðisþjónusta

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 13:39:54 (2605)

[13:39]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umfjöllunar er flutt af hv. heilbr.- og trn. Í sjálfu sér er ekki margt um þetta mál að segja. Það er eiginlega árvisst atriði að frv. sé flutt og það yfirleitt af hálfu nefndarinnar, vegna þess að það er nú svo, hver svo sem er í ráðuneytinu hverju sinni, að þetta mál kemur upp á síðustu stundu, að menn átta sig á því að það þarf að framlengja starfsleyfi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur um eitt ár í senn. Auðvitað er mikilvægt að mínu viti að þessu máli fari nú að linna. Allt frá því er breyting varð á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þá hefur þessi aðferð verið notuð, að framlengja rekstrar- eða starfsleyfi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur um eitt ár í senn. Uppi eru og hafa verið ýmsar hugmyndir um það hvert yrði framtíðarhlutverk Heilsugæslustöðvar Reykjavíkur. Á síðasta þingi kom hér fram frv. sem gerði ráð fyrir því að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur skyldi fengið ákveðið hlutverk og henni markaður ákveðinn sess í heilbrigðisþjónustunni og það til framtíðar. Um það frv. náðist ekki nógu víðtækt samkomulag þannig að hægt væri að ganga frá því sem lögum héðan frá hinu háa Alþingi. Því er þetta frv. nú enn einu sinni fram komið.
    En við þessa umræðu vildi ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. fjögurra spurninga sem mér finnst vera mikilvægt að fá álit hans á áður en lengra er haldið.
    1. Hvað hyggst ráðherra gera með álit stjórnar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur frá 10. nóv. 1991 um framtíð þeirrar stöðvar? Það er raunverulega svo að menn hafa verið að fjalla um það allt frá þeim tíma og í sjálfu sér hefur ekki verið mikill pólitískur ágreiningur um það hvert hlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar eigi að vera. Fyrst og fremst hefur styrinn staðið um það hvernig stjórn þessarar ágætu stofnunar ætti að vera samansett.
    2. Hefur ráðherra hug á að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur verði einvörðungu þátttakandi í heilsugæslu í Reykjavík eða á landsvísu? Um þetta var reyndar ágreiningur í því frv. sem ég vitnaði til áðan á síðasta þingi.
    3. Hefur ráðherra hugleitt tilflutning á verkefnum Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur yfir til heilsugæslunnar eða einkaaðila og metið kosti þess og galla og kostnað við slíka breytingu?
    Nú veit ég að í heilbr.- og trmrn. hafa verið uppi vangaveltur um þessa hluti og ég hef þá trú að búið sé að vinna málið talsvert betur en það lá fyrir á síðasta þingi og þess vegna væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort svo væri.
    4. Telur ráðherra að leggja megi niður eitthvað af þeirri starfsemi sem sinnt er af Heilsuverndarstöð Reykjavíkur?
    Nú er það svo að það er alveg nauðsynlegt að þetta frv. verði samþykkt þannig að enginn vafi sé á því að Heilsuverndarstöðin hafi ákveðnu hlutverki að gegna næsta árið. Að síðustu vil ég því spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin sú af hálfu hæstv. ráðherra að koma með inn í þingið frv. sem tryggi það að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur verði skapaður framtíðarsess í heilsugæslu- og heilsuverndarstörfum hér í borginni?