Fjárlög 1994

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 13:37:35 (2665)


[13:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það mátti skilja orð hv. formanns fjárln. þannig að það stæði á vinnu hjá efh.- og viðskn. til þess að 3. umr. fjárlaga gæti farið fram. Efh.- og viðskn. væri ekki búin að fjalla um tekjuhlið fjárlaganna. Það er alveg rétt. Efh.- og viðskn. er ekki búin að fjalla um tekjuhlið fjárlaganna og hefur reyndar ekki hafið þá umfjöllun enn af þeirri einföldu ástæðu að það eru engar forsendur til enn þá til þess að fjalla um tekjuhliðina. Meðan skattabandormurinn er óafgreiddur, meðan meiri hluti efh.- og viðskn., stjórnarmeirihlutinn, leggur ekki fram sínar brtt. og leggur spilin á borðið um það hvernig hann ætlar að afgreiða skattamálin, eru engar forsendur til þess að efh.- og viðskn. geti fjallað um tekjuhliðina. Þannig að ég hlýt að lýsa ábyrgð á því að efh.- og viðskn. hefur ekki fjallað um tekjuhliðina enn þá alfarið á ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta hér á Alþingi.