Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:05:39 (2705)


[21:05]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):
    Hæstv. forseti. Það er mér ekkert feimnismál að viðurkenna að ég hef ekki haft langan tíma til að skoða þetta frv. af þeirri einföldu ástæðu að það er nýframkomið og ég hef verið nokkurn veginn samfellt á fundum í efh.- og viðskn. síðan það birtist hér á borðum þingmanna. En ég spyr hæstv. sjútvrh. og bið hann að útskýra þá fyrir mér, í hvaða efnismun í þessu frv. er það fólgið að loðnuskip komi ekki til greina við úthlutunina? Eru að ekki aðrar ástæður sem hafa komið þar til sögunnar, þ.e. úthlutun á meiri veiðiheimildum til loðnuskipanna? Ég hef ekki séð í fljótu bragði að það komi fram í efnismun á milli þessara tveggja tillagna, því mér virðist fljótt á litið að hér sé í raun lögð til nákvæmlega sams konar meðferð á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs og gerð var með bráðabirgðalögum á síðasta fiskveiðiári og sams konar meðferð og við lögðum til. Hins vegar hafa forsendur e.t.v. breyst úti í þjóðfélaginu þannig að áhrifin af afgreiðslu frv. eru önnur. En ef hér er á ferðinni efnismunur, sem kemur fram í frumvarpstextanum, þá óska ég eftir því að hæstv. sjútvrh. verði mér hjálplegur og bendi mér á hann.