Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:36:46 (2715)


[21:36]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mér þykir ætla að verða snautlegur endir á þessari umræðu. Hér hafa hæstv. sjútvrh. og fleiri verið spurðir spurninga og beðnir að gera þjóðinni grein fyrir því hvað sé í vændum í sjávarútvegsmálum. Það vofir yfir allsherjarverkfall sjómanna, það vofir yfir allherjarvinnustöðvun í fiskvinnslu á Íslandi eftir nokkra daga og hæstv. sjútvrh. lætur ekki svo lítið við umræðu um það eina frv. sem hann hefur getað dregið inn á Alþingi til umræðu í allt haust að segja þjóðinni frá því hvað sé fram undan og hvað sé verið að reyna að gera til þess að koma í veg fyrir að það myndist sá voði í atvinnumálum sem er fram undan. Og hv. 1. þm. Vestf., hv. formaður sjútvn., hefur ekki látið sjá sig í ræðustól til að segja þinginu og þjóðinni frá því hvaða hlutverki hann telur sig hafa að gegna í þessum málum. Það er búið að leggja fram frumvörp sjútvrh. sem eru í fullri andstöðu við þá sem tekist er á við í þessu verkfalli, þ.e. sjómennina. Það er yfirlýsing um að það eigi að brjóta sjómennina niður í verkfalli og það er á ábyrgð Alþingis hvernig þessi mál eru í dag. Ég vil spyrja hv. 1. þm. Vestf.: Telur hann ekki að hv. Alþingi beri ábyrgð á þessu máli? Það er í skjóli laga sem Alþingi hefur sett að þessir hlutir viðgangast sem sjómenn eru að reyna að brjóta af sér og það er búið að leggja fram frumvörp í þinginu sem ganga út á það að festa í sessi þennan ófögnuð. Ég tel að það hljóti að verða að líta þannig á að nú sé málið í höndum Alþingis. Ríkisstjórnin hefur greinilega tekið sína afstöðu, hún er sú að brjóta sjómenn niður í verkfalli. Það hefur ekkert annað komið hér fram.
    Ég held að það sé ástæða til þess, hæstv. forseti, að menn íhugi alvöru þessa máls. Ég segi alveg eins og er að það vekur furðu mína að hlusta á hv. 4. þm. Norðurl. v. halda hér ræðu án þess að ræða það að nokkru marki hve alvarlega stefnir eftir að búið er að stjórna sjávarútvegi þjóðarinnar eftir forskrift framsóknar öll þessi ár. Nú vofir yfir sjómannaverkfall og við erum að fara í jólafrí. Það er þung ábyrgð þeirra framsóknarmanna í þessu og ég held að hann ætti að hæla sér minna af því að það sé samstaða í þeim flokki um sjávarútvegsmálin og hann ætti kannski líka að hæla sér svolítið minna af því að þeir hafi öðruvísi afstöðu og ábyrgari til sjávarútvegsins heldur en aðrir. Hverjir eru að borga auðlindaskatt í sjávarútveginum í dag? Það eru fjölmörg fyrirtæki og sjómenn í sjávarútveginum sem eru að borga stórkostlegan auðlindaskatt til þeirra sem hafa komist yfir veiðiheimildir. Þannig að það er bara fyrir hendi.     Ég segi eins og er, ég veit ekki hvaðan hann hefur þær upplýsingar að Alþb. sé búið að taka afstöðu með því að það verði lagður einhvers konar auðlindaskattur á útgerðina. Eina tillagan sem hefur komið fram til umræðu á þinginu frá hendi Alþb. um þessi efni fylgdi þáltill. sem við lögðum fram á sl. vori og þar var um að ræða tillögu um aflagjald sem átti að nýtast alfarið fyrir útgerðina sjálfa. Ef hv. þm. er að tala um samþykkt Alþb. frá síðasta landsfundi þá stendur í þeirri samþykkt klausa um það að kanna megi með öðrum kostum að taka upp einhvers konar afgjald af auðlindinni og það er vegna þess að í þeim flokki eru til menn sem segja sem svo: Við sjáum að það er verið að taka auðlindaskatt af sjávarútveginum og við teljum að það eigi þá að skoða það, ef ekki er hægt að stöðva það, að sá auðlindaskattur fari til sameiginlegra þarfa en ekki til einhverra sægreifa eða einhverra sem finna leiðir til þess að braska í sjávarútveginum. En aðalatriði málsins núna er þetta: Ætla menn að fara hér í jólafrí? Ætlar hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórn að fara heim að éta jólasteikurnar án þess að menn viti neitt hvað á að gerast hér í kringum verkfall sjómanna og hvort það verður hægt að ná samstöðu í þinginu? Og ég segi það í fullri alvöru, ég trúi því bara ekki, hæstv. forseti, að það sé ekki hægt að finna leið til þess að þeir þingmenn sem vilja bera ábyrgð á breytingum á þessu kerfi fái tækifæri til þess að ræða saman, að ríkisstjórnarflokkarnir skulu reyna að halda þessum þráðum í höndum sínum þannig að málin leysist ekki með neinu móti. Það er ekki til einhver meiri hluti í þingum sem er á höndum ríkisstjórnarflokkanna. Það er ekki heldur til meiri hluti á höndum minnihlutaflokkanna í Alþingi, það er ekki til neinn meiri hluti í þessu þingi nema hann sé fundinn í öllum flokkum og ég segi það alveg eins og er að mér finnst að það sé ástæða til að gera þá kröfu til Alþingis að það sýni þá ábyrgð að fara ekki í jólafrí öðruvísi en þessu máli verði komið í þann farveg að það verði í alvöru farið að reyna að leysa það með samráði við sjómenn og þá sem þeir eru að reyna að takast á við í samningum.