Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 21:54:59 (2722)


[21:54]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef síður en svo á móti því að sjávarútvegsmál komi til umræðu. En ég þarf ekki endilega að blanda því við þetta eina mál. Ég endurtek að þetta er vinnudeila og henni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Og það er ekki fyrr en ríkissáttasemjari gefst upp á þessari vinnudeilu ef til þess kemur eða deiluaðilar verða sammála um að vísa tilteknum atriðum sem um er að ræða til Alþingis. Ég sé heldur enga ástæðu til þess ef menn komast að þeirri niðurstöðu undir forustu ríkissáttasemjara að Alþingi taki þá málið upp ef það fer á þann veg og þá er engin ástæða til þess að rembast við að fara í verkfall endilega á áramótum því að það er ekki einu sinni full samstaða um það hjá öllum sjómönnum. Vestfirðingar eru t.d. ekki á því. Ástæðan fyrir því er sú að þeir byrja haustvertíð í byrjun október og eru á miðri vertíð þegar aðrir eru ekki byrjaðir svo að þeir eru ekkert að svíkjast undan merkjum gagnvart félögum sínum. En svona verður gangurinn að vera hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.