Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:33:18 (2734)


[22:33]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Þessi stutta tveggja mínútna ræða hæstv. sjútvrh., sem er eina innlegg hans í þessar umræður frá því hann flutti sína stuttu framsöguræðu, var mjög afhjúpandi um það hvar ráðherrann er staddur í þessu máli. Áður en ég kem að því sem er merkilegast í hans ræðu þá vil ég geta þess að sá er munurinn á landsfundi Sjálfstfl. og Alþb. að landsfundur Alþb. ályktaði mjög ítarlega um sjávarútvegsmál. Sú ályktun hefur verið birt í heild sinni í Morgunblaðinu en landsfundur Sjálfstfl. ályktaði ekkert marktækt í sjávarútvegsmálum og sú ályktun hefur ekki verið birt. Ráðherrann og landsfundarfulltrúar voru komnir í harðar deilur strax í vikunni á eftir landsfundinn um hvað það hefði þýtt að vísa ályktuninni frá á fundinum. Ég held því að enginn maður ætti að tala minna um ályktanir flokka í sjávarútvegsmálum en hæstv. sjútvrh.
     Hann fór hins vegar algjörlega rangt með það hvað hv. 1. þm. Vestf. sagði og það er það merkilegasta í þessu máli. Hv. 1. þm. Vestf., sá maður sem lengst hefur verið sjútvrh. Sjálfstfl. um langt langt árabil, fyrirrennari hv. þm. Þorsteins Pálssonar í Sjálfstfl. í stóli sjútvrh., sagði að það væri skylda ríkisstjórnar að leita lausnar í þessu máli en flytja hér ekki einhverja hártogunarræðu að samkvæmt lögum væri málið hjá ríkissáttasemjara sem væri sjálfstæður embættismaður. Menn fengu nefnilega í hnotskurn muninn á hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni sem sjútvrh. og Þorsteini Pálssyni hæstv. núv. sjútvrh. Matthías Bjarnason sagði að það væri skylda ríkisstjórnar að leita lausnar í þessu máli en hæstv. sjútvrh. fór með satt að segja frekar þunnan lögfræðilegan fyrirlestur um eðli laganna um embætti ríkissáttasemjara.