Ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 22:37:49 (2736)


[22:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Var þetta hæstv. sjútvrh. Íslands sem var að tala hérna um yfirvofandi verkfall sjómanna? Voru þessar málfundaæfingar í verslunarskólastílnum, sem hefðu verið ágætar þegar ráðherrann var í Verslunarskólanum, innlegg sjútvrh. Íslands í þessar umræður? Ég nenni ekki að svara þessu með Alþb. og ályktun þess í sjávarútvegsmálum. Það var nú svo ómerkilegt. Það tekur því ekki.
    Alvara málsins er hins vegar sú að það er boðuð stöðvun flotans eftir tvær vikur. Á þeim tíma á að halda jól í landinu þannig að þetta eru ekki venjulegar vinnuvikur. Á ráðherranum mátti hins vegar skilja að þessar tvær vikur væri nokkuð langur tími. Það mundi gefast tími áður en þeim lyki til þess að ríkisstjórnin léti til sín taka í málinu. Það var þó hægt að lesa það aðeins í ummæli ráðherrans að hann viðurkenndi þó að á þessum tveimur vikum yrði hann að láta til sín taka í málinu. Það er þó kannski nokkur ávinningur þessara orðaskipta að sjútvrh. í ríkisstjórn Íslands hefur viðurkennt að á þeim tíma sem er fram að áramótum beri honum skylda til þess að láta svo til sín taka í þessu máli að hann og ríkisstjórnin geri allt sem hægt er að gera til þess að leysa þessa deilu en sitji ekki bara hjá. Það verður því mjög fylgst með því hér þá daga sem eftir eru af þinginu og áður en þetta frv. verður afgreitt hvað hæstv. sjútvrh. hyggst fyrir í málinu því þær tvær vikur sem eru til áramóta verða fljótar að líða.