Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:11:14 (2798)


[14:11]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson benti hér á, sem er staðreynd, að hjúkrunarfræðingar t.d. frá suðurríkjum Evrópu, sumum hverjum, hafa mjög litla menntun, þ.e. bóklega menntun. Í mörgum tilvikum gæti það samsvarað t.d. sjúkraliðum hér á landi oft á tíðum, þó það heiti hjúkrunarfræðingur eins og við viljum þýða það erlenda orð sem um þá er notað. Í mörgum löndum eru hjúkrunarfræðingar meira að segja flokkaðir niður eftir númerum 1, 2, 3, 4 eða eitthvað þess háttar og eru þá þeir sem eru með minnstu menntunina eða kannski einhverja miðmenntun, ég veit ekki nákvæmlega hvar, eins og sjúkraliðar. Þannig að þarna erum við í raun ekki að tala um sömu starfsstéttir og getum við auðvitað lent í vandræðum þess vegna.
    Það sem ég vildi hins vegar spyrja hv. þm. um er hvort hann telur eðlilegt að á sama tíma og við teljum að það sé alger óþarfi að krefjast t.d. íslenskukunnáttu eða ákveðinnar faglegrar kunnáttu til mjög stórs hóps, þarna er um að ræða mannfjölda upp á 300 millj., og hugsanlega kæmu einhverjir hingað (Gripið fram í.) á sama tíma . . .  Ég skal reyna að beina máli mínu ekki bara til hv. þm., en ég er að veita andsvar eða spyrja hann sérstaklega. Ég er að spyrja hvort hv. þm. telji ekki óeðlilegt að á sama tíma og verið er að gera engar kröfur á vissum sviðum t.d. um íslenskukunnáttu og annað til stórs hóps manna þá skuli

standa hérna að þeir sem búa fyrir utan hið Evrópska efnahagssvæði skuli, eins og segir í greininni, með leyfi forseta: ,, . . .  geta þurft að ganga undir próf í lögum og reglum að því er varðar störf lækna hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli.``
    Mér finnst þetta strangar kröfur sem verið er að gera til ákveðinna aðila, en engar kröfur til annarra á þessu sviði. Það er þetta ósamræmi sem ég var að velta fyrir mér hvort nefndin hefði ekkert tekið á.