Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:32:15 (2804)


[14:32]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. spyrji að því, hvað breytist núna. Af hverju óttast sú sem hér stendur að það verði aukið útstreymi á þessum heilbrigðisstéttum? Ég óttast það vegna þess að kaup og kjör eru betri víðast hvar í Evrópu heldur en hér á Íslandi sérstaklega hvað varðar hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða o.s.frv.
    Hvað breytist með þessum samningi? Varðandi gagnkvæma aðild þá tel ég að það verði enn auðveldara fyrir Íslendinga að fá vinnu og það verði frekar gengið fram hjá öðrum heilbrigðisstéttum í viðkomandi landi og Íslendingar gangi þar fyrir vegna þess að þeir eru einfaldlega betri. Og það er líka annað með Íslendinga að þeir kunna yfirleitt eitt til tvö tungumál en aftur á móti þegar Dani kemur hingað eða Englendingur þá talar hann ekki íslensku. Þetta fullnægir eflaust ekki spurningu fyrirspyrjanda en þetta er mitt svar við henni.