Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:29:06 (2833)


[16:29]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka síðasta ræðumanni komu hans hingað í ræðustól. Það er augljóst af þeirri ræðu að honum hefur fundist eins og mér að ræðuhöld flokksbræðra hans tveggja hér áðan væru með þeim hætti að bændastéttinni væri lítill sómi að. Það var því góð viðleitni hjá þessum reynda alþingismanni að koma hér fram með þeim myndugleik að eftir því væri tekið að hann væri ekki sérstaklega ánægður með framgöngu sinna manna í þessari umræðu.
    Svo lengi skal manninn reyna. Það er mér efst í huga þegar ég heyri í fulltrúum framsóknarmanna í landbn. Alþingis. Annar þeirra, hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, talar um verkleysi í landbn. en hinn, hv. þm. Guðni Ágústsson, kvartar yfir miklu álagi, það sé verið að koma málum áfram síðustu daga fyrir jól og eftir öllum mögulegum leiðum. Hv. þm. notar það orðbragð að það að nefnd taki að sér að flytja mál, það að nefnd skuli vera falið að flytja mál, það sé smuguleið. Mér finnst satt að segja að það sé ekki mikill metnaður fyrir starfi sínu á Alþingi, í þessu tilviki í landbn., sem kemur fram í orðum hv. þm. Guðna Ágústssonar, að hann talar um smuguleið þegar nefnd er að vinna að störfum sínum með þessum hætti.
    Það er svo alveg sjálfsagt við áframhaldandi störf landbn. að ofbjóða ekki þreki framsóknarmanna með þeim hætti sem þeir kvarta svo sárlega yfir, að það skuli vera afgreidd mál fjórum dögum fyrir jól, eins og það hefur gjarnan verið orðað, og eru þá væntanlega jólin miðuð við morgundaginn. Ég hlakka til að njóta jólanna heima á Seljavöllum, en fyrir mér eru jóladagarnir frá því að við fengum þetta mál í hendur, dagarnir fram að jólum, miklu fleiri en fjórir.
    Ég er svolítið hissa á því hvað hv. þm. Framsfl. eru hvumpnir þó alþingismenn takist í hendur. Það er hárrétt að við tókumst í hendur í gær, ég og hæstv. viðskrh., og höfum gert það afskaplega oft því með okkur lifa góðar minningar og góður trúnaður frá því að við störfuðum saman í fjárln. Ég held að ég hafi tekið í hendur á fleiri mönnum á þessum degi og ég sé að hæstv. umhvrh. lyftir hendi. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér þykir afskaplega vænt um samstarf við marga alþingismenn og það gildir alveg einu í hvaða flokki þeir eru. Og að menn skuli standa hér á öskrunum í þessu ræðupúlti þótt við tökumst í hendur, ég og hæstv. viðskrh., sú afbrýðisemi er náttúrlega með eindæmum. Það er svo annað mál, og ég vil vekja athygli þingheims á því, að hér kvarta menn um tímaþröng, hér kvarta menn um leiðir með flutning á þessu máli og allir eru sammála. Allir vilja Lilju kveðið hafa. Hvað er eiginlega að? ( Gripið fram í: Er nokkuð að?) ( Gripið fram í: Þetta handaband.) Það skyldi þó aldrei vera að það sé einhver kvíði í fólki, að það sé einhver kvíði í hv. þm. Það gæti vel verið að það fælist dálítið mikil frásögn í þessu skýra frammíkalli áðan. Eitthvert hlýtur tilefnið að vera. Ég kannast ekki við að þetta geti leitt beint af þreytu manna við störf í landbn., þó reyndar hafi þar mikið verið unnið og að því eigum við sjálfsagt eftir að koma síðar í okkar störfum.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að orðlengja þetta frekar og í rauninni verð ég að biðja virðulegan forseta og reyndar þingheim allan afsökunar á því að ég skyldi fara að eltast við þennan sparðatíning sem hefur komið fram í umræðunni af hendi félaga minna í landbn. og því miður þá hafði ég ekkert tilefni til að upplýsa mál í þessari umræðu. Við þær aðstæður eiga menn náttúrlega að gæta hófs í tali sínu,

en ég mátti til með að vekja athygli á því afskaplega fátæklega innleggi sem tveir af þingmönnum Framsfl. hafa borið hingað inn í þessa umræðu.