Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:31:21 (2852)


[17:31]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að þessar umræður hafi verið gagnlegar og hv. þm., ekki síst Norðurl. e., hafi varpað glöggu ljósi á stöðu mála þar. Ég vil ítreka það sem ég sagði, þannig að það verði ekki misskilið, að ég tel að jöfnunartollur hljóti að vera einn af þeim kostum sem menn eiga að skoða sem raunhæfan kost, án þess að ég sé á þessari stundu að taka afstöðu til þess hvort hann skuli á lagður eða ekki.
    Það er hárrétt hjá hv. málshefjanda að þetta mál hefur verið að þróast, ekki á undanförnum 2--3 árum, eins og einn hv. þm. gaf hérna í skyn, svona í pólitísku ábataskyni, heldur á lengri tíma og það er atriði sem við þekkjum öll. Ég vil líka vegna orða hans hér áðan segja að þau voru ekki algerlega makleg, vegna þess að ríkisvaldið hefur komið inn í fyrirtækið, Slippstöðina fyrir norðan, með fjármagn, til að mynda í tíð þessarar ríkisstjórnar og reyndar þar á undan. Reyndar hafa þær raddir heyrst að þar hafi ríkið mismunað fyrirtækjum, vegna þess að á sama tíma hafi önnur fyrirtæki í sömu grein átt í erfiðleikum. Engu að síður hefur ríkið tekið þátt í þessari starfsemi og ég held að það hafi verið réttlætanlegt.
    Hinu er ekki að leyna að það hafa verið vonbrigði að sá stuðningur skilaði ekki þeim árangri sem menn töldu að hann mundi gera og fyrirtækið sjálft náði ekki þeim árangri í endurskipulagningu sem menn voru að vona að mundi nást. En ég heyri að það er góður hugur í þingmönnum hér til þessa fyrirtækis og reyndar atvinnuástandsins á Akureyri, þannig að ég vona að það fái farsæla lausn.