Prestssetur

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 21:50:46 (2877)


[21:50]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég get nú ekki orða bundist út af ummælum hv. síðasta ræðumanns, þeim svigurmælum sem hann beinir að forseta þingsins sem hefur hvað eftir annað tekið það fram að það stendur ekki á forsetanum að taka þetta mál fyrir með þeim hætti sem lýst hefur verið. Og að ætla að gera því skóna að hæstv. forseti Alþingis sem stjórnar fundi sé að reyna að bregða fæti fyrir þetta mál er auðvitað ekki sæmandi, hv. þm., ekki sæmandi.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að það verði kallað til fundar formanna þingflokka til þess að fara yfir dagskrá kvöldsins, með hvaða hætti er hægt að greiða úr þeim ágreiningi sem upp er kominn. Ef þarf að gera fundarhlé þá er það út af fyrir sig að mínum dómi ásættanlegt en ég tel að það sé nauðsynlegt að menn ráði ráðum sínum úr því að svona er komið og greiði úr þeirri flækju sem málin eru komin í. En ég hlýt að vekja athygli á því að ræðuhöld á borð við þau sem hér hafa verið í kvöld greiða auðvitað ekki fyrir því að þau mál komist að sem á eftir þeim ræðum eru.