Prestssetur

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 23:16:18 (2892)


[23:16]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Hæstv. dómsrmh. fékk leyfi hæstv. forseta til að tala fyrir tveimur málum samtímis. Formaður allshn. lagði á það áherslu að sami háttur yrði hafður á að málin færu saman í nál. inn til þingsins á þeirri forsendu að það yrði talað fyrir þeim saman. Þau væru í eðli sínu náskyld þó þau væru tvö frv. og nefndarálitið sem gefið er út bæði af meiri hluta og minni hluta gerir ráð fyrir að málin séu bæði rædd samtímis. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson var búin að biðja um orðið þegar bæði málin voru á dagskrá. Þegar svo kemur að því að hv. þm. fer í ræðustól þá er annað málið horfið af dagskránni. Ég vil nú biðja hæstv. forseta að hugleiða hvort sá háttur sem hafður var á í upphafi, að hafa bæði málin undir í einu, sé ekki eðlilegur þar sem hæstv. dómsmrh. fékk að tala þannig fyrir málunum. Verði það upptekið að ráðherrar tali fyrir tveimur málum í einu lagi en þegar komi að því að þau fari í umræðu inn í þingið er náttúrlega gjörsamlega vonlaust að óbreyttir nefndarmenn geti staðið þannig að málum að fallast á að það sé eitt nefndarálit og að því sé treyst yfir höfuð að þannig verði staðið að málum í þinginu að þau séu rædd saman. Ég bið forseta að hugleiða þetta því að ég held að það sé fátítt að þetta gerist.