Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:48:20 (2935)


[15:48]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef skilningur framsóknarmanna á skattamálum er sambærilegur og þessa hv. þm. sem hér talaði, á minni ræðu, ef hann telur til að mynda að í henni hafi falist stuðningur við upptöku virðisaukaskatts á flugfargjöld, þá verður ekki mikið í þessu vandamáli gert. Þá er þetta bara svona. Þá er skilningur hv. þm. á hlutunum með þessum hætti og við því verður ekki gert. En að koma hér upp og gera mig að sérstökum talsmanni þess og ábyrgðarmanni þess að leggja virðisaukaskatt á innanlandsflugjöld, sem ég eyddi hér löngum tíma í að tala gegn, ég hélt af talsverðum þunga, það er harla sérkennilegt. Ef það er vitlausasta skattkerfi í heimi að hafa tvö þrep í virðisaukaskatti og lægra þrep fyrir matvæli, hvað var þá Framsfl. að samþykkja á landsfundi sínum fyrir ári síðan?