Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:23:55 (2950)


[18:23]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir góðar undirtektir og ég veit að hugur fylgir máli og trúi því að hann hugleiði þetta mál. Þetta er ekkert í sjálfu sér einfalt, mér er það ljóst, í þetta þarf að leggja mikla vinnu og það þarf að ná um þetta víðtækri samstöðu. Ég tek líka undir þá möguleika sem hann gat um og mér er það einnig ljóst og ég veit að það er hv. þm. einnig, að auðvitað þarf að gera ákveðnar skipulagsbreytingar innan greinarinnar sjálfrar til þess að bæta samkeppnisstöðuna. Það held ég að sé öllum ljóst og ég er viss um að það er þeim einnig ljóst sem í þessari atvinnugrein starfa.
    En ég endurtek að ég vil brýna iðnn. til þess að halda vöku sinni. Auðvitað veit ég að nefndin hefur verið að skrifa bréf, ég hef haft fréttir af því, til ráðherra. Við höfum líka vitneskju um það að fyrir örfáum dögum síðan var hér fjölmennur fundur úti á Austurvelli þar sem hæstv. forsrh. voru afhentar tillögur til lausnar þessa máls. Við vitum líka að það var haldinn fjölmennur fundur starfsmanna Slippstöðvarinnar á Akureyri og þeir fjölmenntu á fund bæjarstjórnar Akureyrar. Síðan fjallaði bæjarstjórnin um þessi mál og eftir því sem ég hef skilið fréttir þá munu tillögur frá þeim bæjarstjórnarfundi hafa borist ríkisstjórninni. En það er alltaf sama sagan þaðan að málið er tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi og málinu er síðan frestað. Þannig hefur þetta gengið undanfarin ár, því miður. Það er eins og ríkisstjórnin skilji það ekki að klukkan er að verða hálftólf í þessu máli. Hún er að verða það. (Forseti hringir.) Það eru 1.500 störf sem hafa glatast á skömmum tíma.
    Ég sé og heyri að hæstv. forseti hefur tekið við sér þegar ég nefndi klukkuna og hún tifar auðvitað, en það á líka við um iðnaðinn, klukkan gengur á hann líka.