Prestssetur

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 00:13:43 (2997)


[00:13]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefði þessari umræðu að öllu jöfnu átt að vera að ljúka og það í nokkurri sátt og fullkomnu samkomulagi milli allra. En þar sem hv. 5. þm. Austurl. kaus að hleypa hér umræðunni upp, þá er það að sjálfsögðu á hans ábyrgð að hér verður ekki hjá því komist að halda svolítið áfram. Hv. þm. kaus að vega ómaklega að okkur í allshn. sem höfum verið að vinna við mjög erfið skilyrði að þessu mikilvæga máli, reynt að gera það eftir bestu samvisku og bestu vitund og þetta starf verðskuldar ekki að vera hleypt upp vegna einhvers æsings algerlega á seinustu stundu. Mér fannst þetta ómakleg umræða sem fór hér fram áðan og á algerlega röngum forsendum og bera vott um þekkingarleysi hv. þm. á vinnslu þessa máls.
    Hv. þm. veit það sjálfsagt jafn vel og ég að hér er verið að stíga ákveðin skref í átt til aukins sjálfstæðis kirkjunnar og um það var fjallað mjög ítarlega og mjög vel innan allshn. Það voru skoðanaskipti sem þar fóru fram sem sýndu fram á að málið var ekki þannig statt að það væri hægt að ganga lengra heldur en gert er nú með þeim breytingum sem hæstv. kirkjumrh. hefur lagt til að verði á þessu máli. Það gætti ákveðins misræmis milli þeirra væntinga sem ákveðnir aðilar, sem komu á fund nefndarinnar, höfðu um breytingar sem málið hefði í för með sér og þeirra skilaboða sem við fengum frá ríkisvaldinu. Og fyrr en úr þeirri deilu er leyst, þá munum við ekki geta farið lengra. Þetta þarf allt að hafa sinn tíma.
    Það sem er að gerast hér er það að engu að síður töldum við sem störfuðum að málinu innan allshn., flest hver, ekki bara ég sem fulltrúi Kvennalistans heldur flestir innan allshn., ástæðu og af hinu góða að auka valddreifingu. Og ég verð nú að segja það að ég held að við höfum verið tiltölulega einlægari í því heldur en margir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar sem hefur ekki staðið sig sem skyldi í slíkum málum. En okkur sem komum að slíkum málum eru skorður settar, bæði með tímaleysi og eins með fullbúið samkomulag meira og minna utan úr bæ. Okkur eru skorður settar ef engu má breyta, jafnvel þótt augljóst sé að ekki ber saman hvernig túlkunin er af hálfu ríkisvaldsins annars vegar og prestastéttarinnar hins vegar.
    Ég held að það sé full ástæða til þess, eftir að hv. síðasti ræðumaður talaði hér, að taka málið upp enn á nýjan leik þar sem greinilegt er að hér er verið að reyna á síðustu stundu að breyta málinu og gefa í skyn nýja túlkun á samkomulagi sem varð og er í takt við þær breytingar sem við hv. þm. Ólafur Þ.

Þórðarson vildum að gerðar yrðu á málinu á meðan það er í þeirri stöðu sem það er í nú. Það er verið að reyna að túlka það þannig að þetta samkomulag sé í rauninni ekki til staðar og það sé verið að segja allt annað heldur en klárlega ætti að vera hægt að lesa úr þessu.
    Mér þykir afskaplega leitt að umræðan skuli hafa farið aftur í þennan farveg þegar flestir töldu að það væri kominn sameiginlegur skilningur og mér sýnist að á vegum stjórnarliða hafi ekki verið gengið frá málinu með þeim hætti sem æskilegt væri og öllum verið gerð nákvæmlega grein fyrir upp á hvað þetta samkomulag bauð. Þetta er náttúrlega gersamlega óviðunandi þar sem sú umræða sem verið hefur hér hefur sýnt það mjög glöggt að það þurfti að höggva á þennan hnút, fólk þurfti að vera reiðubúið til þess að viðurkenna að við vorum ekki komin lengra í þessari umræðu, hvað svo sem við kjósum að gera í framhaldi. Því ég held að það sé býsna góð sátt um það, alla vega meðal þeirra sem hafa unnið að þessu máli og talað í þessu máli og unnið að málinu í nefnd, að það beri að gera hvern aðila fyrir sig í samfélaginu, kirkju sem aðra, sem sjálfstæðastan í sínum málum og ábyrgastan fyrir sínum málum. Okkur kann að greina á um það hvernig það verður best gert, en engu að síður held ég að á meðan, jafnvel innan sömu hópa, og þá er ég að tala um t.d. hópa eins og prestastéttina, að menn eru ekki tilbúnir að sjá sama skilning á því hversu langt eigi að fara og hversu langt sé farið nú þegar, þá sé ekki hollt að halda áfram með málið. Ég held að það sé líka orðið fyllilega tímabært að taka fyrir þá grundvallarumræðu sem er samskipti ríkis og kirkju, og þá meina ég þjóðkirkjunnar, og síðan stöðu annarra trúarhópa hér á landi og er það raunar annað af því sem ég gerði hér að umtalsefni í örstuttri ræðu minni fyrr í þessari 2. umr.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að eftir að hafa hlustað hér á umræðu og tekið þátt í störfum allshn. um þetta mál þá sýnist mér að það sé orðið mjög brýnt að vinna að þessu máli. En það gerum við ekki undir formerkjum þess að gera skipan á prestssetrum og við gerum það ekki undir þeim formerkjum að við séum að vinna að stofnun kirkjumálasjóðs. Við einfaldlega þurfum að taka þá umræðu á réttum tíma og ekki í einhverjum æsingi eða taugatitringi einstakra aðila.
    Það eru ekki vönduð vinnubrögð að vera að hleypa málum upp sem samkomulag er orðið um og það er ekki maklegt að vera, án þess að hafa nokkuð kynnt sér vinnu að málum, að vega að ákveðnum einstaklingum sem unnið hafa að þessum málum. Það er ekki sæmandi nokkrum manni, ekki einu sinni prestum.