Tekjustofnar sveitarfélaga

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 01:59:21 (3011)


[01:59]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Nú er auðvitað rétti tíminn, virðulegur forseti, til að hefja nokkuð ítarleg skoðanaskipti um þetta mál um tekjustofna sveitarfélaga og sérstök ástæða til að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það sem hann telur vera kennslustundir fyrir stjórnarandstöðuna. En mér sýndist hann nú fara með mjög skarðan hlut frá viðskiptum sínum við hv. 2. þm. Austurl. og hef ég sjaldan séð aðra eins útreið hér á næturfundum, það verð ég að segja, og hef ég þó setið hér býsna lengi. Ég sé að hæstv. umhvrh. kannast við það. Það er auðvitað dapurlegt miðað við öll þau gögn og alla þá sérfræðinga sem hæstv. fjmrh. hefur á sínum snærum hvernig hann lætur óbreytta hv. þm. úr félmn. vinda sig í málum af því tagi sem hér eru uppi þannig að ekki stendur steinn yfir steini.
    Virðulegur forseti. Það sem ég hafði hugsað mér að nefna aðallega í þessari umræðu var tvennt. Það er annars vegar staða Reykjavíkur sérstaklega í þessu dæmi og hins vegar skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Að því er Reykjavík varðar þá snýr dæmið þannig að okkur þingmönnum Reykvíkinga að borgarstjórn Reykjavíkur og borgarstjórinn í Reykjavík skrifuðu félmn. Alþingis bréf, sem er dags. 6. des. 1993. Þar er farið fram á að ríkisstjórnin hætti við þær breytingar sem menn eru hér að tala um. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir að verði lögfestar, munu staðfesta og auka yfirfærslu á skattbyrði félaga og fyrirtækja á einstaklinga. [ . . .  ] Með setningu þeirra laga og ákvæðum frv. nú er slitið að mestu á skattaleg tengsl sveitarfélaga við atvinnurekstur og þar með á nauðsynlegan og eðlilegan hvata fyrir sveitarfélögin að búa atvinnurekstri aðstöðu og laða hann til sín.``
    Síðan segir hér enn, með leyfi forseta:
    ,,Lög um tekjustofna sveitarfélaga, sem tóku gildi í ársbyrjun 1990, hafa orðið til verulegra hagsbóta fyrir sveitarfélögin á landsbyggðinni. Ákvæði laganna um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og um hækkun fasteignaskatts vegna viðmiðunar við matsverð eigna í Reykjavík hafa fært þeim umtalsverðar tekjur. Úr upplýsingum í Árbók sveitarfélaga 1993 má lesa að miðað við vísitölu framfærslukostnaðar hafa skatttekjur Reykjavíkur lækkað á gildistíma laganna að raungildi um 7% á sama tíma og skatttekjur kaupstaða utan höfuðborgarsvæðisins hafa hækkað um 4,6%.``
    Ég vek athygli á þessum tölum úr bréfi borgarstjóra Reykjavíkur sem mér finnst satt að segja nokkuð merkilegar. Því er haldið fram að rauntekjur Reykvíkinga af sköttum hafi lækkað um 7% frá árinu 1990 þegar lögin um tekjustofna sveitarfélaga tóku gildi til ársins 1993 en skatttekjur kaupstaða utan höfuðborgarsvæðisins hafi hins vegar hækkað á sama tíma um 4,6%. ,,Skatttekjur annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni hafa einnig aukist``, segir hér.
    Að lokum segir í bréfinu, með leyfi forseta:
    ,,Nú eru uppi ráðagerðir um stórfelldan verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga og tímasett að grunnskólinn verði alfarið verkefni sveitarfélaganna frá 1. ágúst 1995. Þetta hlýtur aftur að kalla á mikla uppstokkun á tekjustofnum sveitarfélaga og tilfærslu skatta til þeirra frá ríkinu. Því er skynsamlegt að láta aðgerðir í skattamálum bíða en halda a.m.k. á næsta ári óbreyttu fyrirkomulagi frá því sem í gildi hefur verið í ár.``
    Þannig lýkur þessu bréfi. Mér þætti auðvitað vænt um ef hæstv. fjmrh. gæfi sér tíma frá kennslustörfum til að hlýða á það sem hér er verið að segja. Nema hann sé að meðtaka kennslu frá hv. 2. þm. Austurl. sem mér heyrist nú ekki veita af, að hv. þm. Jón Kristjánsson kenni fjmrh. eitthvað pínulítið í þessu máli.
    En niðurstaða Reykjavíkurborgar er sú að hér sé um að ræða þannig lagaðar breytingar að þessu máli eigi öllu saman að fresta. Og þannig háttar til með þetta mál að það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan að Reykvíkingar höfðu verulega miklar tekjur af aðstöðugjöldum umfram aðra íbúa í landinu. Þegar menn töluðu því annars vegar um 27.500 kr. í Reykjavík töluðu menn um 18.550 kr. á mann á Akureyri á sama tíma. Og í skjóli þessara gríðarlegu tekna af aðstöðugjöldum hafði Reykjavík ákveðið forskot. Hún notaði þessa fjármuni því miður mjög illa. Þeir voru notaðir til að byggja Perlu og ráðhús en þetta var ekki notað til félagslegrar uppbyggingar hjá borginni. Auðvitað sáu menn ofsjónum yfir þessum miklu tekjum Reykvíkinga og sveitarfélagsins Reykjavík. Það var oft talað mikið um þetta m.a. úr þessum ræðustól af mönnum úr öllum flokkum og það var allt eðlilegt með það.
    Síðan gerist það á árinu 1992 þegar menn horfa fram á verulegan vanda hjá atvinnuvegunum í landinu að farið er að ræða um hvernig best sé að koma til móts við þennan vanda atvinnuveganna. Niðurstaðan varð sú að það upphófst, mér liggur við að segja, kór manna úr öllum flokkum, m.a. mínum flokki, um að það sé skynsamlegt og nauðsynlegt að leggja niður þetta aðstöðugjald. ( Umhvrh.: Hverjir úr þínum flokki?) Allir í raun og veru. Það má segja að það hafi verið stefna míns flokks eins og hygg ég annarra flokka. ( Gripið fram í: Var hann ekki í flokknum þá?) Nei, það var einmitt eftir að hann fór úr flokknum. En ,,hann``, bara fyrir þingtíðindin, er hæstv. umhvrh. Niðurstaðan varð því sú eftir að þessi kór hafði upphafist að menn felldu niður aðstöðugjöldin án þess að vita neitt hvað ætti að koma í staðinn. Hvað kom í staðinn? Jú, skattur á fólkið í landinu, á einstaklingana með tilteknum hætti eins og menn þekkja.
    Nú er fyrirliggjandi eftir nokkurt nefndarstarf ákvörðun um að halda þessari skattlagningu á einstaklingana áfram. Og það er ekki hægt að neita því að gert er ráð fyrir stórfelldri hækkun skatta af tekjum einstaklinga frá því sem var þegar aðstöðugjaldskerfið var í gildi. Og ég segi fyrir mitt leyti að ég held að þessi ákvörðun um að fella niður aðstöðugjaldið með þessum hætti hafi verið stórkostlega hæpin. Af því að menn ákváðu ekki um leið hvaða gjöld önnur ætti að taka til að vega upp niðurfellingu aðstöðugjaldsins.
    Út af fyrir sig kom þetta út með býsna skynsamlegum hætti víða, t.d. yfirleitt á landsbyggðinni. En þegar aftur á móti kemur að Reykjavík er alveg ljóst að hér er um afar ranglátan tilflutning á peningum að ræða. Flutningur skatta . . .   (Forseti hringir.)
    Niðurstaðan er sú að það er verið að færa til skatta af fyrirtækjum í Reykjavík aðallega, gífurlega fjármuni, og þetta lendir allt á einstaklingunum, á launamönnunum, í þessu byggðarlagi. Ég er sannfærður um að þó menn geti hafa fundið ýmsar félagslegar, pólitískar og atvinnulegar ástæður fyrir niðurfellingu aðstöðugjaldsins annars staðar þá sneri þetta allt öðruvísi í Reykjavík. Staðreyndin er sú að hér voru menn oft að fella niður aðstöðugjöld t.d. af ýmsum verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem eiga auðvitað að borga eitthvað til samfélagsins. Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. sagði oft á meðan hann var borgarstjóri og jafnvel eftir það að það er nauðsynlegt að halda einhverjum þannig löguðum tengslum á milli sveitarfélags og atvinnulífs eins og þarna var um að ræða. Það sjónarmið er reyndar ítrekað í því bréfi sem borgarstjórn Reykjavíkur skrifaði félmn. Alþingis þann 6. des. sl.
    Ég held þess vegna að það sé alveg augljóst mál að hérna hafi ekki að öllu leyti verið stigið heilladrjúgt spor. Hér hafi menn verið að lækka skatta af fyrirtækjum að ófyrirsynju og flytja það yfir á launamenn í landinu. Og ég held að það hafi verið mistök að ganga fram í því með þeim hætti sem gert var án þess að tryggja um leið aðild fyrirtækjanna að samneyslunni með einhverjum öðrum hætti. Ég endurtek það að í rauninni kemur þetta langverst við Reykvíkinga.
    Þegar þessir hlutir fara að þróast þá ákveða menn að í framhaldinu skuli í staðinn fyrir aðstöðugjaldið koma stórfelld hækkun á útsvari. Og þá er komið við hjartað í íhaldinu í Reykjavík vegna þess að það er það sem alltaf hefur verið sagt einkennismerki íhaldsins hér í Reykjavík að útsvörin hafi ekki breyst svo lengi sem elstu menn muna og a.m.k. jafnlengi og núv. hæstv. forsrh. var í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann er búinn að hæla sér af því hundrað og fimmtíu sinnum. En viti menn. Nú hefur hann tekið ákvörðun um að láta sveitarfélögin og þar á meðal sérstaklega Reykjavík og sérstaklega láglaunafólkið í

Reykjavík þola það að útsvarið muni hækka hér á kosningaárinu 1994 mjög verulega. Það eina sem eftir stendur af fyrirheitum Sjálfstfl. t.d. fyrir kosningarnar 1986, sem þáv. borgarstjóri hældi sér mjög af, er þess vegna hrunið af því að núna á að hækka útsvarið stórkostlega í þessu sveitarfélagi. Þetta er auðvitað með þeim hætti að það er ástæða til að mótmæla því mjög harðlega.
    Síðan gerist svo hitt að borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík er í vissum vandræðum með málið. Þá gerist það að hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. bregðast við og leyfa hæstv. félmrh. að vera með og skrifa þetta ótrúlega bréf þar sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., formaður og varaformaður Sjálfstfl., segja að þeir ákveði að útsvarið megi alls ekki vera lægra en 8,4%. Það er bannað. Undir lás og slá. Það er ótrúlegt. Þetta eru frelsisleiðtogarnir miklu. Hvað ætli þeir hafi oft talað um frelsi sveitarfélaganna, þessir menn? Nú er allt í einu búið að taka um það miðstýrða ákvörðun í sovéskum fornum stíl að útsvarið megi undir engum kringumstæðum fara niður fyrir 8,4% ( Fjmrh.: Er ekki ræðumaður ánægður með það?) og stendur í þessu bréfi . . .  Er hæstv. fjmrh. búinn að biðja um orðið, hæstv. forseti, ef ég má spyrja?
    ( Forseti (VS) : Ekki hefur hann nú gert það enn.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar. Þessi frammíköll ráðherrans eru svolítið þreytandi. Hann er mjög ókyrr. En í bréfi ráðherranna, sem ég ætla að lesa í heild, með leyfi forseta, stendur:
    ,,14. desember 1993.
    Forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra leggja til við hv. félmn. Alþingis að heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar í tekjustofnalögum þeirra verði bundin við 8,4% lágmark. Ríkisstjórnin hefur samþykkt þessa málsmeðferð fyrir sitt leyti. Hjálagt fylgir afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við þessa málsmeðferð.``
    Undir þetta rita þessir þrír hæstv. ráðherrar.
    Málið liggur því þannig að borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík getur sagt: Við getum ómögulega hækkað þetta upp í minna en 8,4% af því að það er bannað að hafa þetta 8,3% og enn þá meira bannað að hafa það 8,2%. Borgarstjórn Reykjavíkur getur því sagt: Við erum lögbrjótar ef við hækkum þetta ekki upp í a.m.k. 8,4%. Það er niðurstaðan.
    Hér er því uppi alveg ótrúlegur pólitískur hráskinnaleikur sem dugir þó ekki til að breiða yfir þá mikilvægu efnislegu staðreynd málsins að það er verið að taka ákvörðun um stórfellda hækkun á útsvari af Reykvíkingum á sama tíma og atvinnufyrirtæki í Reykjavík, sem auðvitað eiga að geta borgað eitthvað og eiga að borga eitthvað, sleppa við að borga hér verulega skatta. Þetta er það fyrsta.
    Hitt málið, hæstv. forseti, sem ég ætlaði að vekja athygli á er þessi ótrúlega lending í sambandi við skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það var 1978 á því sæla sumri að ákveðið var að fella niður söluskatt á mat. Það var gert með bráðabirgðalögum 1. sept. 1978. Í þeim bráðabirgðalögum var líka ákvæði um að það skyldi leggja sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þessi skattur var lagður á tímabundið og ég man alveg af hverju það var. Mér leist strax mjög vel á þennan skatt og fannst þetta sniðugur skattur. Krötunum leist illa á þennan skatt og vildu ekki leggja hann á nema í stuttan tíma í einu. Alþfl. var alveg á móti því að leggja skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á nema í eitt ár í senn. Síðan hefur þessi skattur verið framlengdur ár eftir ár og það hefur farið tiltölulega lítill tími í það í þessari virðulegu stofnun að ræða málin nema þegar Sjálfstfl. hefur verið í stjórnarandstöðu. Þá hafa verið haldnar alveg svakalega langar ræður um þessi mál og methafi í þeim efnum er hv. 2. þm. Reykv., hæstv. fjmrh. Það var búið að sverja það mikið ekki alls fyrir löngu, fyrir tveimur árum eða svo, að hann yrði aldrei lagður á nema eitt ár í viðbót og strikaður út úr sögunni vonandi hið allra fyrsta. En hvað gerist þá? (Gripið fram í.) Góður skattur? ( Forsrh.: Nú er maður spenntur.) Það er nefnilega það. Nú er maður spenntur. Ég er eiginlega alveg viss um það að hæstv. forsrh. hefur hugsað sem svo og hæstv. fjmrh.: Hvað á að gera við þennan skatt? Sjálfstfl. er búinn að lofa því að leggja þennan skatt af en við höfum ekki efni á því að sleppa honum. Hvað eigum við að gera? Það er verið að taka aðstöðugjaldið af fyrirtækjum þannig að það er sjálfsagt að láta þau borga einhvern skatt áfram. Hvað eigum við að gera? Og þá var það örugglega alveg eins með hæstv. forsrh. og nú að hann hefur beðið spenntur og fylgst með glaðhlakkalegum svipnum á fjmrh. sínum þegar hann kom með þessi tíðindi: Látum sveitarfélögin hirða hann. ( Fjmrh.: Hver fann upp þennan skatt?) Það hugsa ég að hafi verið Alþb. Ég óska því hæstv. fjmrh. til hamingju með það að hafa haldið svona vel til haga þessu stefnumáli Alþb. Mér þykir vænt um það. Það má segja að það sé Sjálfstfl. til sóma um þessar mundir þegar fátt er orðið eftir af rósum í hnappagötum hans að hann skuli framfylgja stefnumálum Alþb. með þessum hætti.
    Nú er Sjálfstfl. að lækka virðisaukaskatt á mat þannig að það má segja að Sjálfstfl. sé alveg á handahlaupum að framkvæma stefnu Alþb. og auðvitað þykir okkur vænt um það. ( Umhvrh.: Er nokkur þörf fyrir Alþb.?) Við hljótum að fara að velta fyrir okkur sömu vandamálum og Kvennalistinn að þegar menn eru að ná markmiðum sínum hér og þar sem óðast þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort nokkur ástæða er til þess að menn haldi áfram uppteknum hætti. Þó eru nokkur mál eftir á vegum Alþb. sem Sjálfstfl. á eftir að taka upp en honum er velkomið að taka. Velkomið. Og það er skörulega að verki staðið í sambandi við skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hvað er gert? Rúllað til sveitarfélaganna. ( Forsrh.: Er þetta ekki bundið útvötnunarleiðinni?) Útflutningsleiðinni? ( Forsrh.: Já.) Sagði hæstv. forsrh. útvötnunarleiðinni? ( Forsrh.: Já.) Það er leið sem Sjálfstfl. er alveg einn um. Ég er alveg sammála því að það er full ástæða til að útvatna sumt sem Sjálfstfl. er með en hæstv. forsrh. átti bersýnilega við útflutningsleið og á þá við að nú sé ríkið að flytja skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði út til sveitarfélaganna. Hef ég satt að segja aldrei séð málið í þeim vinkli að það sé kannski fyrsta skrefið í þá átt að framkvæma útflutningsleið Alþb. að flytja skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði út til sveitarfélaganna. ( Gripið fram í: Svo úr landi næst.) Hver veit um það. Hér er því bent á afar athyglisverða leið í þessu efni af hæstv. forsrh. eins og hans er von og vísa.
    Sveitarfélögin eiga að hirða þennan skatt. Borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík fær þennan skatt sendan svo að segja gratís frá ríkisstjórninni og situr uppi með hann. Þannig að tvennt gerist í senn: Í fyrsta lagi lætur forusta Sjálfstfl. borgarstjórn Reykjavíkur hækka útsvarið mjög verulega á láglaunafólki, einstaklingum og launamönnum hér. Í öðru lagi er borgarstjórn Reykjavíkur látin hirða í sinn kassa skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Innilegar heillaóskir hæstv. ráðherrar og leiðtogar Sjálfstfl. Ótrúleg frammistaða miðað við allar aðstæður.
    Ég tel óhjákvæmilegt að mótmæla almennt þeim vinnubrögðum sem höfð eru uppi gagnvart Reykjavík í þessari málsmeðferð af hálfu þeirra þingmanna Sjálfstfl. sem þessu máli ráða. Ég tel mér skylt að koma þessum athugasemdum á framfæri sem þingmaður Reykvíkinga og ég vil að lokum leyfa mér að beina einni fyrirspurn til hæstv. félmrh. sem er flm. málsins. Það er þessi spurning: Hvaða rök eru fyrir því að sveitarfélag megi ekki leggja á útsvar undir 8,4% og hvaða refsingar mundu liggja við því ef sveitarfélag legði á 8,3% útsvar en ekki 8,4%?
    Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra sæi sér kleift að svara þessum einföldu spurningum.