Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:04:02 (3030)


[10:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var athyglivert að hlusta á fulltrúa Framsfl. ræða um tvö skattþrep í virðisaukaskatti, annars vegar með tilliti til þess hver er afstaða bænda og hins vegar með tilliti til þess hver er hin opinbera stefna Framsfl. í málinu, eins og komið hefur fram í þessum umræðum.
    Hv. þm. spurðist síðan fyrir um það hvaða hagsmunaaðilar hefðu ráðið því að þrír ráðherrar beittu sér fyrir breytingu á tekjustofnalögunum, sem reyndar er ekki til umræðu. Því er auðvitað auðsvarað og það veit hv. þm. Það barst bréf frá hagsmunasamtökum sem heita Samband íslenskra sveitarfélaga og í því bréfi er farið fram á að samræmi sé gert nokkurn veginn með þeim hætti sem um getur í viðkomandi bréfi frá þremur ráðherrum til hv. félmn.