Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:49:07 (3034)


[10:49]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa það að lækkun á aðstöðugjaldi sé komin til skila út í verðlagið. Ég veit raunar að það liggur inni fsp. frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um að kannað verði hvaða áhrif það hafi haft og kannski er það svar komið. Ég hef ekki séð það en það er ekki með öllu marktækt þar sem miklar annir hafa verið í þinginu og það getur hafa borist á borð okkar þingmanna án þess að ég hafi veitt því athygli.

    Hvað varðar það að Kvennalistinn sé ekki með sömu skoðun á þessu máli þá vil ég minna á að í þjóðfélaginu eru margar skoðanir um þetta mál. Ég hygg að það séu margar skoðanir um þetta innan allra flokka. Það má kannski minna á það hversu m.a. Sjálfstfl. hefur margar skoðanir í mörgum málaflokkum og þarf ég ekki að rekja það. Það nægir að nefna t.d. sjávarútvegsmálin. Mér hefur sýnst að þar geti þeir ekki talað einum rómi.
    Við kvennalistakonur búum heldur ekki við neitt formannsægivald þannig að við höfum nokkuð frjálsar hendur um hvort við styðjum einhver einstök mál sérstaklega. Það breytir því samt ekki að það er skoðun Kvennalistans og hefur alltaf verið að afnema eigi matarskattinn. Um það eru allar kvennalistakonur sammála. Nánari útfærsla á því getur síðan verið deiluefni og hvernig menn halda að það skili sér best. Eins og ég gat um áðan þá eru mjög margar skoðanir á þessu máli innan allra flokka, innan allra hagsmunasamtaka og alls staðar í þjóðfélaginu.