Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 20:57:49 (3100)


[20:57]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Fjárln. hefur lokið störfum fyrir 3. umr. um fjárlög ársins 1994. Nefndarálit meiri hluta fjárln. liggur fyrir og þær breytingartillögur sem gerðar eru við frv. eins og það var afgreitt við 2. umr. Gerð hefur verið grein fyrir tillögum nefndarinnar og þeim helstu forsendum sem varða tekjugrein frv.
    Við þessa umræðu eru fluttar tillögur við 4. gr. A-hluta ríkissjóðs til lækkunar að upphæð 243,9 millj. kr. Áætlaður halli ríkissjóðs er því 9 milljarðar 651 millj. kr. sem er lækkun um 170 millj. frá halla í frv. til fjárlaga.
    Þær heildarbreytingar sem tillögur meiri hluta fjárln. fela í sér eru í fyrsta lagi hækkun á rekstrarútgjöldum um 407 millj., í öðru lagi lækkun á rekstrartilfærslum um 7 millj., í þriðja lagi lækkun á vaxtagreiðslum um 250 millj., í fjórða lagi hækkun á stofnkostnaði og viðhaldi um 338 millj. Útgjöldin hækka því alls um 502 millj. kr.
    Breytingar á 3. gr. frv. eftir afgreiðslu þingsins fela í sér hækkun á tekjum um 675 millj. kr.
    Helstu breytingar á tekjum eru 300 millj. kr. hækkun vegna breyttra þjóðhagsforsenda, 190 millj. kr. lækkun vegna breytinga í skattamálum og 565 millj. kr. hækkun vegna annarra breytinga, svo sem aukinnar fjáröflunar til vegagerðar. Að vísu eru minni tekjur vegna lækkunar á bensíni á heimsmarkaði sem hefur umtalsverð áhrif á vörugjaldatekjur ríkissjóðs af bensíni.
    Á milli 2. og 3. umr. hefur fjárln. fengið til fundar forstjóra Þjóðhagsstofnunar þar sem hann gerði grein fyrir þróun helstu þjóðhagsstærða 1993 og horfur 1994. Horfur samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsáætlun eða drögum að henni gefa ákveðna vísbendingu um að við erum á réttri leið og árangur erfiðra aðgerða er farinn að skila sér. Til þess að draga athyglina frá þeim staðreyndum virðist stjórnarandstaðan hafa valið þann kostinn að þyrla upp pólitísku moldviðri kringum þær breytingar á skattalögum sem voru þegar afgreiddar og eiga að taka gildi um næstu áramót en hafa verið hér nokkuð til umfjöllunar í þinginu síðustu daga. Samkvæmt drögum að endurskoðaðri þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að í ár aukist útflutningur vöru og þjónustu um 3,7% að magni samanborið við 2% í þjóðhagsáætlun. Viðskiptahallinn verði í ár 3 milljarðar í stað 5 milljarða svo sem þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir á þessu ári.
    Þjóðhagsstofnun metur horfur vegna næsta árs, ársins 1994, þannig að landsframleiðslan verði 2% minni á næsta ári en á þessu. Það þýðir 0,6% minni samdráttur en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Þá er spáð meiri kaupmætti ráðstöfunartekna og minna atvinnuleysi en spáð var í þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár.
    Spáð er að verðbólga milli áranna 1993 og 1994 verði 2,5% sem er minna en í flestum aðildarríkjum OECD og minna en áður hefur mælst á Íslandi í næstum 30 ár. Öll eru þessi tákn jákvæð en vissulega ber að hafa í huga að sem fyrr er óvissa með afla og vegna minni veiðiheimilda og hinn mikli samdráttur í þorskveiðum á þessu fiskveiðiári mun hafa alvarleg áhrif á afkomu í þeim byggðum sem byggja mest á þorskveiðum. Þetta ber að hafa í huga þegar spár eru metnar og hin stóru meðaltöl eru sett fram.
    Þegar fjárlögin eru metin er eðlilegt að horfa mjög til þess hver hallinn er á ríkissjóði. Fjárln. hefur það erfiða hlutverk að fara yfir frv. og meta hvort með einhverjum hætti megi draga úr útgjöldum og minnka hallann. Eftir ítarlega skoðun liggja fyrir niðurstöður. Halla ársins sem hér er lagt upp með verður að skoða í því ljósi að með samkomulagi á vinnumarkaði fylgja skuldbindingar ríkissjóðs um að tefla fram fjármunum til opinberra framkvæmda svo að dregið verði úr atvinnuleysi sem mest má verða án þess að það herði að atvinnulífinu með auknum álögum. Sá gullni meðalvegur er vandrataður. Spá Þjóðhagsstofnunar sýnir því að við erum á réttri leið þegar spáð er minnkandi atvinnuleysi á næsta ári.
    Við 2. umr. gerði ég að umtalsefni nokkrar þær breytingartillögur sem fluttar voru. Þar á meðal þær sem kallaðar voru aftur til 3. umr. og eru endurfluttar nú. Mun ég því ekki tefja tímann með því að fjalla nánar um þær en ég gerði við 2. umr. Ég vil nefna eftirfarandi breytingartillögur sem nú eru fluttar og gera örstutta grein fyrir nokkrum þeirra.
    Gerð er tillaga um að biskupsembættið fái heimild til þess að ráða í stöðu prests er sinni sjúklingum sem þurfa að gangast undir aðgerðir á erlendum sjúkrahúsum. Talin er mikil þörf fyrir þessa stöðu, einkum vegna fjölda sjúklinga sem gangast undir aðgerðir, m.a. í Gautaborg, en fjárln. gerir ráð fyrir því að þessi staða sé ekki bundin sérstakri borg erlendis heldur sé það á valdi biskupsembættisins að staðsetja starfsvettvang þess prests í samráði við heilbrigðisyfirvöld.
    Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir verulegri lækkun til SÁÁ auk þess sem þeim var ætlað að innheimta sértekjur í meira mæli en áður hefur tíðkast. Eftir ítarlega skoðun komst meiri hluti fjárln. að þeirri niðurstöðu að ekki væri forsvaranlegt að draga svo mjög úr rekstri sem frv. gerði ráð fyrir. Því er lögð til hækkun um 13 millj. kr. Eftir sem áður er SÁÁ gert að innheimta sértekjur svo sem heilbrrh. hefur lagt til. Hefur komið fram hjá forsvarsmönnum SÁÁ að þeir hafa þegar hafið undirbúning þess að innheimta þessar aukatekjur. Er þess að vænta að með þeirri tillögu sem meiri hluti fjárln. hefur hér lagt fram um hækkun á framlagi til SÁÁ sé þessari starfsemi sköpuð bærileg eða viðunandi skilyrði til þess að reka þá mikilvægu starfsemi sem fer fram á vegum SÁÁ. En að sjálfsögðu verður að gera kröfu til þess að rekstur sé í föstum skorðum og alls sparnaðar gætt.
    Til þess að tryggja og treysta til frambúðar þá mikilvægu starfsemi sem fer fram á Staðarfelli á vegum SÁÁ gerir meiri hluti fjárln. tillögu um að í 6. gr. verði eftirfarandi heimild: Að fjmrh. verði heimilt ,,að semja við Samtök áhugafólks um áfengisvandamálið um yfirtöku og afnot eigna ríkissjóðs að Staðarfelli í Fellsstrandarhreppi, að höfðu samráði við menntmrh. og fjárln.``
    Á þessu ári hefur farið fram undirbúningur af hálfu menntmrh. við að koma á nýjum samningi við SÁÁ um yfirtöku og afnot af húseignum Staðarfellsskóla. Ég hef haft nokkur afskipti af þessu máli fyrir hönd menntmrh. og hefur komið fram í viðtölum við forsvarsmenn SÁÁ að þeir telji eðlilegt að gerður sé samningur þar sem tryggð séu yfirráð samtakanna yfir húsakosti á Staðarfelli og jafnframt ákveðið með hvaða hætti þeir taki

við og beri ábyrgð á þessum eignum. Hins vegar er nauðsynlegt að í slíkum samningi liggi fyrir með hvaða hætti eignunum verði komið fyrir ef breytingar verða á starfsemi þeirra þannig að heimaaðilar eigi möguleika á að hafa þar nokkur áhrif á svo og að sjálfsögðu menntmrh. fyrir hönd ríkisins sem er eigandi að öllum mannvirkjum.
    Í nokkur ár hefur verið unnið að gerð sjálfvirks kerfis fyrir tilkynningarskyldu skipa. Samgrn. hefur nú tekið við framkvæmd þessara mála og unnið að því að koma þeim í eðlilegan farveg og er gert ráð fyrir því að Póstur og sími komi þar að. Þetta merkilega mál hefur gegnum tíðina verið sérstakt áhugaefni fjárln., fyrrum fjárveitinganefndar, og er þess að vænta að þessi fjárveiting geti flýtt framkvæmd verksins svo að auka megi öryggi íslenskra sjómanna en hv. fjárln. gerir tillögur um 10 millj. kr. framlag til þessa viðfangsefnis.
    Málefni loðdýraræktar hefur verið til umfjöllunar og er gerð tillaga um að 14 millj. kr. gangi til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri. Með því er reynt að styðja við þessa grein sem hefur átt í miklum erfiðleikum á undanförnum árum.
    Gerð er tillaga um tveggja millj. kr. hækkun á rekstrarframlagi til Sólheima í Grímsnesi. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993 vék formaður fjárln. að fjárveitingu til Sólheima í Grímsnesi þar sem greint var frá því að fyrirhugað væri að gera sérstakan þjónustusamning við vistheimilið á þessu ári og enn fremur um þær breytingar sem fyrirhugaðar voru á rekstrarfyrirkomulagi heimilisins á árinu 1993. Í ræðu formanns fjárln. kom m.a. fram eftirfarandi:
    ,,Í samráði við félmrh. mun fjárln. taka málefni Sólheima til skoðunar þegar fyrir liggur endanleg gerð þjónustusamnings á milli stjórnvalda og Sólheima í byrjun næsta árs og meta þá hver fjárþörf heimilisins þyrfti að vera á árinu.``
    Á þessu ári hefur af hálfu félmrn. verið unnið að gerð þjónustusamnings við stjórnendur Sólheima sem ætlað var að tæki til þessa árs og næsta árs. Ekki hafa náðst samningar á milli félmrn. og forsvarsmanna Sólheima. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1993 var fjallað um málefni Sólheima og varð þá niðurstaðan sú að fjárveiting þessa árs skyldi standa óbreytt þrátt fyrir það að ekki hefðu náðst samningar. Það eru mikil vonbrigði að ekki skuli hafa náðst samningar á milli fulltrúa Sólheima og félmrn. Ekki skal neinn dómur á það lagður hér hverju það sætir en stofnun eins og Sólheimar og sú mikilvæga starfsemi sem þar fer fram getur að sjálfsögðu ekki búið við slíka óvissu. Gera verður kröfu til þess að aðilar leiti allra leiða til þess að ná samningum svo að óvissu um starfsemi Sólheima linni. Það verður að teljast eðlilegt að fjárln. fylgist áfram með framvindu þessara mála og félmrh. beiti áhrifum sínum til þess að lausn finnist og gerður verði þjónustusamningur við Sólheima í eðlilegu samræmi við þá starfsemi sem þar fer fram og að sjálfsögðu með sama hætti og gera þarf við aðrar sambærilegar stofnanir.
    Rekstur stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur verið til meðferðar í fjárln. og hafa stjórnendur sjúkrahúsanna gert nefndinni ítarlega og glögga grein fyrir aðstöðu og þeim vanda sem blasir við með þrengri fjárráðum þjóðarinnar sem hlýtur að endurspeglast gagnvart stærstu útgjaldaþáttum, svo sem sjúkrastofnunum, ekki síður en hinum smærri útgjaldaliðum á vegum ríkisins. Mikill niðurskurður á rekstrarframlagi Landakots, svo sem er í fjárlagafrv., hefur valdið miklum áhyggjum og hefur meiri hluti fjárln. m.a. komið á framfæri athugasemdum við heilbrrh. og ríkisstjórnina vegna þessa máls. Vegna þess vil ég taka fram að ég tel að hraða eigi sameiningu Borgarspítalans og Landakots. Á meðan verður að nýta óskipta liði sjúkrahúsa með fjölþætta starfsemi og liðinn Rekstrarhagræðingu til þess að tryggja að ekki verði kollsteypa í rekstri Landakots. Með sameiningu þessara sjúkrahúsa og með gleggri og betri verkaskiptingu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík hlýtur að geta náðst fram hagræðing og sparnaður þannig að ekki þurfi að koma til aukinna fjárframlaga til viðbótar við það sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Heilbrrh. þarf hins vegar tóm til þess að vinna að lausn þessa mikilvæga máls en að sjálfsögðu er ekki óeðlilegt að það taki nokkurn tíma að ná fram svo mikilvægum breytingum sem eru bæði flóknar og vandasamar og ég treysti hæstv. heilbrrh. vel til þess að ná fram ásættanlegri og skynsamlegri niðurstöðu í þessu máli. Þess er vænst að fjárln. fái tækifæri til þess að fylgjast með framvindu þessa máls sem skiptir svo miklu um hagræðingu og sparnað í sjúkrahúsarekstrinum. Það skiptir trúlega mun meira máli en hvort sjúkrahúsin úti á landi hafa einum starfsmanninum fleiri eða færri þó auðvitað þurfi að líta á hvert einasta viðfangsefni, hvar megi ná árangri í sparnaði og hagræðingu.
    Í breytingartillögum meiri hluta fjárln. er gerð tillaga um að sýslumannsembættin verði rekin með svipuðu sniði og verið hefur. Fallið var frá þeirri tillögu sem sett var fram í frv. til fjárlaga. Hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skipað nefnd sem ætlað er að gera tillögur um aukin verkefni embættanna. Á meðan á því starfi stendur er fallið frá þeim róttæku breytingum sem tillögur fjárlagafrv. gerðu ráð fyrir. Þess er þó að vænta að jafnhliða starfi nefndarinnar verði áfram unnið að skynsamlegri endurskipulagningu sýslumannsembættanna svo að ná megi fram hagræðingu og sparnaði og til þess að koma í veg fyrir að óskynsamleg umdæmaskipun torveldi löggæslu og þjónustu við íbúana. Eðlilegt er að þær breytingar sem kunna að verða gerðar tengist sameiningu sveitarfélaganna.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að hækka framlag til niðurgreiðslu á rafhitun um 50 millj. kr. Sá liður var í frv. 347 millj. og hækkar því í 397 millj. kr. Þessi hækkun er í samræmi við þá stefnu stjórnarflokkanna að draga úr þeim mikla mun sem er í húshitunarkostnaði eftir orkuveitusvæðum. Jafnhliða þessari fjárveitingu verður að gera kröfu til þess að orkufyrirtækin endurskipuleggi rekstur sinn svo að ná megi aukinni hagkvæmni. Þá liggur fyrir að ganga þarf til samninga við nokkrar hitaveitur, stórar og smáar, og leita leiða svo að þær megi verða hagkvæmari og geti lækkað orkuverð til notenda.
    Fjárln. hefur eins og áður komist að því hve erfitt er að ná fram lækkun útgjalda. Úr öllum áttum berast óskir um aukin útgjöld í rekstri og tillögur um byggingar. Kaup á tækjum og ekki síst fjárveitingar í hugbúnaði fyrir öll þau fjölmörgu tölvukerfi sem í gangi eru á vegum hins opinbera. Ég minnist þess ekki að nokkur einasti forstöðumaður stofnana af öllum þeim fjölmörgu sem gengið hafa á fund fjárln. hafi borið nefndinni erindi um lækkun útgjalda eða tillögur um samdrátt í rekstri vegna þess að verkefnin hafi dregist saman eða þeim hafi lokið. Þessi staðreynd ætti að vera nokkurt umhugsunarefni um það á hvaða leið við erum í opinberum rekstri og í hvaða vanda Alþingi og ríkisstjórn er þegar þjóðartekjur dragast saman og nauðsynlegt verður að hemja eða draga úr ríkisútgjöldunum.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þær tillögur sem hér eru lagðar fyrir þingið af meiri hluta fjárln. fái greiða og góða afgreiðslu og verði að lögum og forstöðumönnum hinna fjölmörgu mjög mikilvægu stofnana ríkisins takist á næsta ári að fylgja fjárlögum og þeim takist með hinu ágæta starfsfólki sinna stofnana að vinna vel að því að framfylgja rekstri þeirra stofnana sem þeim er trúað fyrir.
    Ég vil að lokum þakka starfsfólki fjárln. og ráðuneyta og meðnefndarmönnum mínum í fjárln. fyrir ánægjulegt samstarf við þá miklu vinnu sem fjárln. öll hefur lagt í að fara yfir fjárlagafrv. og þær fjölmörgu tillögur sem fyrir nefndina hafa verið lagðar. Eins og vænta má er ekki hægt að verða við öllum óskum, það verður að velja og hafna og það er á ábyrgð meiri hluta fjárln. að leggja fram tillögur í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna en að sjálfsögðu með eðlilegu samráði og í samvinnu við stjórnarandstöðuna. Ég vænti þess að umræðu um fjárlagafrv. megi ljúka sem fyrst og þingmenn geti tekið til á sínum borðum og gengið til jólahátíðar áður en langt um líður.