Skattamál

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 10:58:24 (3118)


[10:58]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. A-liðurinn fjallar um skattlagningu, upptöku virðisaukaskatts á svokallaða milligöngu um ferðaþjónustu og átti að verða eða á að vera skattlagning á virðisaukann sem myndast í starfsemi ferðaskrifstofa og sölu á ferðum, ferðaheildsölu og pakkasölu og öðru slíku. Nú er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væntanlega ætlunin að skoða þetta milli 2. og 3. umr. og verður þessu þá vonandi breytt. En það er ljóst að þetta er sá angi þessara framkvæmda sem hvað torveldastur hefði nú orðið og þess vegna er það fagnaðarefni bæði vegna greinarinnar og eins hins að framkvæmdin hefði að líkindum orðið hreinasti óskapnaður. En þar sem efnisafstaða okkar er sú að vera á móti þessari skattlagningu þá greiðum við atkvæði gegn greininni við þessa umræðu.