Lánsfjárlög 1994

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 12:46:15 (3135)


[12:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki tefja mjög lengi þessar umræður og rétt aðeins að skjóta inn örfáum orðum í tilefni umræðna sem hér hafa orðið. Ég vil í fyrsta lagi leggja mikla áherslu á að þetta frv. fáist afgreitt núna, sem allra fyrst. Að öðrum kosti þurfum við á sérstökum heimildum að halda, því innlenda fjáröflunin þarf að byrja strax eftir áramótin. Ríkissjóður er með mikið af útistandandi skammtímalánum og þetta þarf að endurnýja og það þarf að gerast strax eftir áramót eða áður en þing kemur saman. Þess vegna tel ég hreinlegast að þetta frv. verði afgreitt.
    Í öðru lagi vil ég segja frá því að það er rétt sem á hefur verið bent að það er ekki gerður munur á innlendri og erlendri lántöku í þessu frv. Ég hef reyndar gert ítarlega grein fyrir því hvers vegna það er, þegar frv. var til 1. umr. Ég vil þó til viðbótar við það sem þá var sagt segja frá því að innlendur sparnaður hefur nokkuð aukist og í raun hefur viðskiptahallinn dregist það mikið saman að jafnvel má gera ráð fyrir að hann verði enginn á yfirstandandi ári. Enginn viðskiptahalli, sem þýðir í raun að Íslendingar sem heild, íslenska þjóðin, þjóðarbúið, er að greiða niður erlendar skuldir sínar. Það er hins vegar rétt sem á hefur verið bent að það gildir ekki sama máli með ríkið sjálft. Ríkið er að auka skuldir sínar, ekki síst

erlendar skuldir, en aðrir aðilar eru hins vegar að greiða það mikið til baka að það gerir meira en að mæta nýrri lánsfjárþörf ríkisins erlendis.
    Þá vil ég segja að það kann auðvitað að gerast að ríkisstjórnin þurfi að leita aftur til þingsins á næsta ári með lánsfjáraukalögum. Það hefur gerst á hverju ári og auðvitað eru þessar tölur sem eru í fjárlögum og lánsfjárlögum ekki alnákvæmar, því hver einasta hreyfing í þjóðfélaginu, þ.e. í efnahagslífinu, hefur áhrif á tölur fjárlaganna, t.d. tekjutölur fjárlaganna, og lánsfjárlögin eða lánsfjárheimild ríkisstjórnarinnar í lánsfjárlögum er fyrst og fremst munurinn eða hallinn, auk sérstakrar lántöku. Þannig að það er augljóst að þessar tölur hljóta að færast til, enda held ég að það hafi ávallt gerst frá upphafi vega. Ég held að það hafi aldrei gerst frá upphafi að fjárlagatölur eða lánsfjárlagatölur hafi staðist upp á krónu, enda væri eitthvað að ef það gerðist.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson ræddi um sölu ríkisfyrirtækja. Ég endurtek það sem reyndar kom fram í hans ræðu að það stendur til að selja SR-mjöl. Einnig Lyfjaverslun ríkisins. Og aðeins þessi tvö fyrirtæki, þótt ekki séu fleiri nefnd, sala þeirra ætti að gefa tekjur sem eru meiri heldur en þær tekjur sem gert er ráð fyrir í frv. vegna sölu ríkisfyrirtækja. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að það er ekki alveg ljóst hvernig sölutekjurnar færast í bókhaldi ríkisins, hvort þær koma fram teknamegin eða hvort þær eru færðar beint á höfuðstól, sem svo er kallað. Það fer eftir því hvort um hlutafé er að ræða eða ekki og er mál sem nú er til skoðunar hjá svokallaðri ríkisreikningsnefnd.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir ræddi hér um nokkur almenn atriði sem ég ætla um sum hver að ræða frekar. Hv. þm. sagði að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við fjármagnstekjuskattinn sem aðilum vinnumarkaðarins hefði verið gefið loforð um. Ég vil einungis segja að því tilefni að ég taldi að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefði verið gefin í þessu máli til þess að binda stuðning aðila vinnumarkaðarins við málið en ekki til þess að lofa því að það væri hluti af aðgerðunum. Þetta vil ég að komi skýrt frá minni hálfu. Ég hef ávallt skilið þetta með þessum hætti, því hefur ekki verið mótmælt á sameiginlegum fundum en ég veit hins vegar að sumir úr hópi verkalýðsforustunnar hafa talið að ríkisstjórnin væri skuldbundin til þess að fylgja þessu fram.
    Ég ætla ekki að ræða um þær aðferðir sem eru til skoðunar í þessum efnum, einungis endurtaka það sem sagt hefur verið að málið er áfram til skoðunar.
    Hv. þm. ræddi síðan, sem eðlilegt er og menn ættu kannski að ræða meira í þingsölum, um hagvöxt á Íslandi í evrópsku samhengi. Þannig er að sá sem hér stendur hefur haft tækifæri til þess tvisvar á þessu ári að hitta fjármálaráðherra EFTA-landanna og EB-landanna og búast má við öðrum slíkum fundum og fleiri á næstunni í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið. Þessir fundir hafa fyrst og fremst snúist um hagvöxt, um atvinnuleysi og umræður hafa byggst verulega upp á síðkastið á hvítbók Delors, eða hvítbók Evrópubandalagsins, auk skýrslu sem EFTA hefur gefið út um sama mál. Séu íslensku efnahagsmálin borin saman við þau í okkar nágranna- og viðskiptalöndum, kemur í ljós að Íslendingar standa sig tiltölulega vel. Við höfum að vísu átt við meiri erfiðleika að etja, einkum vegna fiskveiðanna, en þegar litið er á tölur um atvinnuleysi og tölur í ríkisfjármálum þá kemur í ljós að Íslendingar geta sæmilega við unað í samanburði við þessar þjóðir. Það þýðir hins vegar ekki að það gangi til frambúðar að reka íslenskan ríkissjóð með halla því fyrr eða síðar kemur að því að greiða þarf þær skuldir sem ríkissjóður skuldar.
    Hv. þm. minntist á það að ríkisstjórnin hefði létt sköttum af atvinnulífinu og fært þá yfir á almenning í landinu sem er rétt. En því er til að svara að með þessu viljum við hvetja fyrirtæki til nýfjárfestinga en hv. þm. benti einmitt á það í sinni ræðu jafnframt hversu nauðsynlegt það væri og þá verður maður að skoða málið í einu lagi og viðurkenna að eitt af því sem hefur áhrif á fyrirtækin til þess að þau fjárfesti er einmitt tekjuskattur fyrirtækjanna og ég vænti þess að það hafi þýðingu hér á landi eins og annars staðar.
    Ég ætla ekki hér og nú, virðulegi forseti, að flytja langt mál um áherslubreytingar í ríkisfjármálum en mér þótti afar athyglivert sem hv. þm. sagði og það er ekki langt frá þeirri hugsun sem kemur fram alþjóðlega, sérstaklega hjá Evrópubúum, að það eigi að leggja nýjar áherslur í ríkisfjármálunum einmitt með því að færa opinberar greiðslur úr heilbrigðismálum --- ég endurtek --- úr heilbirgðismálum, úr tryggingamálum, yfir í menntamál og rannsóknamál. Það þýðir á mæltu máli að ætlast sé til að neytendur taki meiri þátt í greiðslum í heilbrigðis- og tryggingakerfinu annars vegar og, sem við skulum tala hreint út um hérna, að það séu gerðar þær breytingar á atvinnuleysistryggingabótum og öðrum slíkum bótum sem hvetja fólk til aukinnar vinnuþátttöku fremur en að stunda svarta vinnustarfsemi sem öllum er ljóst að gerist í stórum stíl. Ég er ekki með þessum orðum að lýsa yfir einhverjum stefnubreytingum hér en ég vek athygli á þessu sem kom fram hjá hv. þm. því umræða um hinar breiðu línur þarf auðvitað að fara fram hjá okkur og það mun gerast á næstunni.
    Vegna fyrirspurnar hv. þm. um Byggðastofnun skal þess getið að Atvinnutryggingasjóður er hættur útlánum þannig að hann hefur ekkert með starfsemi Byggðastofnunar að gera í því viðfangi. Hins vegar skuldar þessi sjóður mjög mikla fjármuni umfram eignir, líklega á þriðja milljarð núna. Hugmyndin í þróunarsjóðnum er að skipta þessum skuldum umfram eignir milli ríkissjóðs og hins nýja þróunarsjóðs og láta síðan greiðslur sem koma af afla, sem koma af svokölluðu krónugjaldi, ganga til þróunarsjóðsins og standa skil á þessum skuldum sem þarna er um að ræða auk annarra viðfangsefna sjóðsins.

    Í sambandi við byggingarsjóðina þá var hugmyndin í upphafi hjá þessari ríkisstjórn að stöðva skuldasöfnun sjóðanna þannig að þeir töpuðu ekki meira af eigin fé. Það hefur tekist og öll framlög til Byggingarsjóðs verkamanna miðast við það. Ég er sammála hv. þm. um húsbréfin og að því er unnið að hverfa frá ríkisábyrgðinni eða a.m.k. til að byrja með að láta ríkisábyrgðargjald koma í staðinn þannig að það sé hægt að færa þessa starfsemi frá ríkinu og yfir til annarra aðila, t.d. banka.
    Það er hárrétt hjá hv. þm. að hér er verið að lækka skatta á lokadögum þingsins. Við gerum það m.a. vegna þess að við vitum að Íslendingar eru að sigla inn í eitt erfiðasta ár í sögu íslenska lýðveldisins. Ég bendi á í þessu sambandi að kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst saman á árunum 1988 til 1990 um 10%. Þá drógust þjóðartekjur saman á því tímabili um 2,5%. Á árunum 1991, 1992 og 1993 hafa þjóðartekjur dregist saman um 10% en okkur hefur tekist að halda kaupmætti ráðstöfunartekna og samdrættinum nákvæmlega jafnmiklum en ekki fjórfalt meira eins og gerðist á árunum þar á undan. Vegna fullrar sanngirni skal það þó tekið fram að það er auðvitað ekki sama hvert upphafsárið er því öllum er ljóst að árið 1987 var það ár sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hér á landi fór langt umfram það sem eðlilegt var, m.a. vegna þess að ég held að almennt sé álitið að gengið hafi verið rangt skráð á þeim tíma en það hefur breyst mjög á síðustu missirum.