Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:14:21 (3169)


[16:14]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru að koma jól og þess vegna kannski ekki við hæfi að þingið sé neitt að stríða hæstv. utanrrh. á því að taka hann upp í sinni eigin uppgjöf, sérstaklega þegar ráðherrann hefur haft

þá karlmennsku til þess að koma hér og lýsa yfir ánægju með sína eigin uppgjöf, því að auðvitað er það öllum ljóst að í ljósi yfirlýsinga hæstv. utanrrh. í sumar er þetta frv. alger innsiglun á uppgjöf utanrrh. í þessari deilu. Það sem hann tínir hér til sem einhvern árangur er að skipuð var vinnunefnd innan ríkisstjórnarinnar til að undirbúa að leggja GATT-samkomulagið fyrir þingið. Það eru bara venjuleg vinnubrögð í ríkisstjórn. Að það sé árangur að það hafi átt að standa við alþjóðasamninga. Hefur einhver haldið því fram að það ætti ekki að standa við þá? Ekki nokkur maður. Og halda því svo fram í þriðja lagi að það sé árangur að það séu lögð á jöfnunargjöld, það hefur ekki nokkur maður verið á móti því að það verði lögð á jöfnunargjöld. Það hefur enginn maður verið á móti þessum þremur atriðum sem ráðherrann er að nefna hér; að ríkisstjórn myndi vinnuhóp um GATT, sjálfsagt mál, standa við alþjóðasamninga, sjálfsagt mál, leggja á jöfnunargjöld, sjálfsagt mál. Þetta hefur aldrei verið ágreiningsatriði, hæstv. utanrrh. Ágreiningsatriðið var bara eitt. Hvar forræðið í því að leggja á jöfnunargjöldin lægju í Stjórnarráði Íslands samkvæmt stjórnskipuninni. Og í þessu frv. er tekið af skarið algerlega með það að forræðið liggur hjá hæstv. landbrh. Hæstv. utanrrh. má svo leika sér að því að nota orðið vistun hér til þess að milda sína eigin uppgjöf. En staðreyndin er auðvitað sú að meðan hann gisti þá í Slóveníu gafst Alþfl. upp í þessum málum.