Tekjustofnar sveitarfélaga

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 17:01:55 (3181)


[17:01]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Formaður félmn. hefur kynnt hér brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur við frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga og gerir ráð fyrir ákveðinni breytingu á ákvæði til bráðabirgða, þ.e. um það hvernig skuli lagt á útsvar á næsta ári. Ég sé eins og aðrir sem hér hafa talað að þetta er óhjákvæmilegt ákvæði sem þarf að koma inn í lögin með einum eða öðrum hætti. Við kvennalistaþingkonur erum því ekki á móti því eins og það kemur þarna fyrir. Hins vegar munum við ekki greiða þessu atkvæði okkar og ekki standa að þessu og við stöndum ekki að þessari tillögu vegna þess m.a. að þarna er inni ákvæði um lágmarksútsvar, að það skuli vera 8,4%, eins og þrír ráðherrar lögðu til að kæmi inn í þetta frv. hér á allra síðustu dögum þess í nefnd eða reyndar á síðasta degi þegar verið var að vinna með þetta inni í nefnd. Og við teljum að það sé stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar að bera ábyrgð á þessu, auk þess sem þarna er bara þetta skattamix sem búið er að vera inni í þinginu bæði í frv. til laga í skattamálum og þessu, sem ríkisstjórnin verður auðvitað að bera ábyrgð á. Þetta er vafasöm grautargerð sem hér er á ferðinni og mér sýnist að menn hafi orðið litla yfirsýn eða heildarsýn í þessum málum og auðvitað algerlega óviðunandi að verið sé að fúska svona með málin hér á allar síðustu dögum þingsins, skattamál ekki síst.
    Hér hefur aðeins spunnist umræða um það hvernig þetta ákvæði sé tilkomið, um 8,4% lágmarksútsvar. Það er auðvitað opinbert leyndarmál að þó svo að þessir þrír ráðherrar hafi sent tilmæli um þetta inn í félmn. þingsins þá er það samkvæmt beiðni og ósk frá Reykjavíkurborg. Það er opinbert leyndarmál sem allir vita og það þarf ekkert að fara í neinn feluleik með það eða fara í kringum þá hluti eins og köttur í kringum heitan graut. Þetta er auðvitað gert til að losa sveitarfélögin, ekki síst Reykjavíkurborg og ýmis önnur sveitarfélög reyndar líka, við ákveðin pólitísk óþægindi. Og það er auðvitað dálítið mikill tvískinnungur í því hjá sveitarfélögunum, það verður að segjast eins og er, að annan daginn skuli þau koma og biðja um þetta, hinn daginn koma þau svo eins og Reykjavíkurborg og biðja um að hér sé gerð breyting með mikilli hraðferð í þinginu á lögum um málefni aldraðra og þá er vitnað til sjálfstæðis sveitarfélaganna. Það sé svo mikilvægt að sveitarfélögin hafi sjálfstæði um það hvernig þau hagi þessum málum hjá sér. Þá er á ferðinni mál sem þau meta sem svo að sé til pólitískra vinsælda fallið. Þá er veifað þessu flaggi, að sjálfstæði sveitarfélaga sé í húfi og við þingmenn eigum bara helst að blessa það einn, tveir og þrír. En svo er farið í felur með það og beðið um að sett sé á ákveðið lágmarksútsvar til að firra þau pólitískum óþægindum í óvinsælu máli. Þessi vinnubrögð eru auðvitað alveg óþolandi og ég vil segja það við sveitarstjórnarmenn, ekki síst hér í Reykjavík eins og annars staðar, að menn verða auðvitað að borða bæði súru og sætu berin ef þeir eru að tala um sjálfstæði sveitarfélaga.
    En við munum sem sagt sitja hjá við þessa tillögu.