Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 21:14:31 (3208)


[21:14]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. 3. þm. Norðurl. v. varðandi Kvikmyndasjóð þar sem greinilega er um að ræða heildarniðurskurð á þeim framlögum sem eru lögbundin til Kvikmyndasjóðs upp á u.þ.b. 20 millj. kr. sýnist mér að meðtöldum þeim kostnaði sem sjóðurinn á að bera vegna rekstrar Kvikmyndasafnsins. Ég vil leggja á það áherslu, eins og hann, að fari svo að þessi tillaga sem hér liggur fyrir og hv. 4. þm. Reykn. mælti fyrir áðan verði samþykkt þá hljóta menn að beita sér fyrir því að þeir fjármunir sem vantar í Kvikmyndasjóð upp á a.m.k. 10 millj. kr. fáist á næsta ári með fjáraukalögum eða með öðrum sérstökum hætti sem viðunandi er fyrir Kvikmyndasjóð.
    Ég held að það sé sérstaklega nauðsynlegt að ítreka þetta einmitt nú á því ári þegar Ísland verður aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði og þátttaka í alþjóðlegu samstarfi af margvíslegu tagi mun fara vaxandi. Þá er það kannski nauðsynlegra en nokkru sinni fyrir að eiga öfluga kvikmyndastarfsemi, bæði frá menningarlegu sjónarmiði og einnig fjárhagslegu sjónarmiði eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. benti á í sínu innleggi áðan.
    Í öðru lagi vil ég, virðulegi forseti, víkja að 17. gr. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum eins og það lá fyrir í upphafi. Þar var gert ráð fyrir að ráðherra gæti með reglugerð ákveðið að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda. Ég tel að hér sé mjög gróflega vegið að sjálfstæði Atvinnuleysistryggingasjóðs, stjórn hans og verkalýðsfélaganna. Þetta er mál sem við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, greiddum atkvæði á móti við 2. umr. Ég átti einnig viðræður um þetta mál við hæstv. félmrh. og hæstv. félmrh. skýrði mér frá því að hún myndi framkvæma þessa grein þannig að hún hefði samráð við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Nú hafði hæstv. félmrh. hugsað sér að gefa þessa yfirlýsingu við 3. umr., þ.e. núna. Hæstv. ráðherra er hins vegar fjarverandi en ég er viss um að ég hef þetta rétt eftir henni. Auðvitað getur hún komið mótmælum á framfæri á öðrum vettvangi ef ég skýri ekki rétt frá því sem hún sagði við mig um þetta mál. En frá og með næstu áramótum mun félmrh. yfirtaka stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs úr hendi heilbr.- og trmrh.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, vil ég þakka fyrir þá till. sem hv. efh.- og viðskn. flytur varðandi 9. gr. frv. eins og það lítur út núna. Þar er gert ráð fyrir því að fella niður grein sem í upphafi var 11. gr. frv. og hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar.``
    Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að fella þessa tillögu niður og ég tel að það sé mikilvægur áfangi að það skuli hafa tekist samstaða um að ekki verði innheimt á ýmsum stofnunum, m.a. stofnunum SÁÁ og stöfnunum ríkisins, svokallað áfengismeðferðargjald frá og með næstu áramótum. Ég þakka fyrir þessa niðurstöðu vegna þess að ég tel að hún sýni vilja til samstöðu um eitt af mikilvægustu grundvallaratriðum laga um almannatryggingar eins og þau voru samþykkt 1971 og reyndar í upphafi 1946.
    Ég tel að ef þessi grein hefði farið óbreytt í gegn hefði það orðið stórkostlegt slys sem menn hafa bersýnilega sameinast um að koma í veg fyrir.
    Ég vil einnig taka það fram að ég tel að yfirlýsing hæstv. fjmrh. varðandi þetta mál og afleiðingar þessarar samþykktar sé mikilvæg og þar sé yfirlýsing sem við hljótum að taka á á næsta ári með þeim hætti sem hann benti á í sinni ræðu.