Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:46:40 (3246)


[00:46]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er furðulegur málflutningur sem á sér hér stað þegar hv. þm. leyfir sér að segja að tillögur Framsfl. snúi að því að hækka matarverð um 50%. Þvílíkur útúrsnúningur. Það er öllum ljóst sem hafa fylgst með umræðum frá Alþingi að hér er einn vilji í þinginu fyrir því að matvæli og mikilvægustu nauðsynjar heimilanna verði í lægra skattþrepi. Hér er einungis deilt um aðferðir og við framsóknarmenn teljum hiklaust að miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir þá beri að fresta þessu máli. Lífið liggur ekki á, sagði hv. þm. og ég tel svo ekki vera, þannig að það væri fróðlegt að fara enn ítarlegar yfir þetta mál og gera það jafnframt með verkalýðshreyfingunni að aðilum vinnumarkaðarins. Framsfl. er ekki það ábyrgðarlaus að hann ætli hér eins og Alþb. að ganga í bandalag með skattsvikurunum og fylgja Sjálfstfl. í þeim efnum.