Frestun á fundum Alþingis

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:50:06 (3287)


[02:50]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég er dálítið undrandi á þeirri afstöðu sem kom fram hjá hv. þm. vegna þess að þetta mál hefur áður verið rætt hér á hv. Alþingi. Hinn 14. jan. 1993 ræddi hv. 9. þm. Reykv. þetta mál og sagði m.a., með leyfi forseta: ,,Ég ætla hins vegar ekki að tefla fram neinum fullyrðingum af þessu tilefni en skora á hæstv. forsrh. að kanna þetta mál sérstaklega.``
    Ég fyrir mitt leyti svaraði því til að þetta fyndist mér eðlileg beiðni og að þessi athugun færi fram. Þessi athugun fór síðan fram, bæði af hálfu ráðuneytisins og af hálfu lagadeildar Háskóla Íslands eða stjórnskipunarprófessorsins við háskólann og sú álitsgerð var send forsætisnefnd þingsins 6. maí 1993. Það er algerlega ótvírætt og hefur ekki breyst að það er ekki hægt að íslenskri stjórnskipun að fresta þinginu með öðrum hætti en þessum. Forseti þingsins getur að vísu gert stutt hlé með samþykki þingmanna, til að mynda um páska, fyrir því er hefð, en það er ekki hægt að fresta fundum með öðrum hætti en þessum. Þetta hefur verið athugað og álitsgerðin var send þinginu 6. maí og ég gerði ekki ráð fyrir því að þess vegna yrðu deilur um þetta atriði sérstaklega.
    Vegna hins atriðisins sem hv. 8. þm. Reykn. nefndi þá get ég aðeins sagt það eitt og það stendur ekki til og engin ráðagerð er uppi um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að beita bráðabirgðalöggjafarvaldi vegna þeirrar deilu sem hv. þm. nefndi eða annarra. Ég geri því ekki skóna á þessu stigi máls, vona svo sannarlega að ekki þurfi til þess að koma að löggjafarvaldinu yfirleitt verði beitt í þessari vinnudeilu. Menn hljóta að þurfa að forðast það eins og heitan eldinn. Það eru engar slíkar ráðagerðir uppi, en aðra yfirlýsingu get ég ekki gefið því að ég tel að bráðabirgðalöggjafarvaldhafinn geti ekki afsalað sér með þessum hætti heimild af þessu tagi. En það eru engar slíkar ráðagerðir uppi.