Frestun á fundum Alþingis

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:57:24 (3291)

[02:57]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mér finnst að það sé illt að þingið fari heim án þess að fyrir liggi hvort ríkisstjórnin hyggst beita þessu bráðabirgðalagavopni sínu. Ég held að það væri betra fyrir bæði þjóðina og þá aðila sem eiga hlut að þessari deilu sem er að verða að verkfalli eftir nokkra daga, ef að líkum lætur, að vita hvort það standi virkilega til að nota bráðabirgðalagaheimildina. Ég sé nú ekki að Alþingi Íslendinga ætti ekki að vera fært að svara og að forsrh. ríkisstjórnarinnar ætti ekki að geta komið því hér til skila að þingið sé ekkert of gott til að koma saman ef taka á afstöðu til svo alvarlegs máls sem hér er á ferðinni. Og með hvorum deiluaðilanum eru menn að taka afstöðu með því að þegja þunnu hljóði um það hvort nota eigi þessa heimild? Ég held að það hljóti að vera augljóst öllum þingmönnum. Það er auðvitað verið að taka afstöðu gegn sjómönnum með því að vilja ekki gefa yfirlýsingu um það að þingið verði kallað saman því að verði þetta verkfall bannað með lögum, þá verður það ekki tekið til baka um leið og þing kemur saman. Það liggur í augum uppi. Með slíku lagaboði væri verið að eyðileggja kjarabaráttu sjómanna. Það veit auðvitað enginn nú hvort reyna muni á þetta. Það kann vel að vera að félagsdómur komist að þeirri niðurstöðu að verkfallið verði ólöglegt og þá liggur það fyrir að nýtt verkfall yrði þá ekki boðað fyrr en

í lok janúar. En þetta tvennt, að hæstv. forsrh. treystir sér ekki til að hreinsa loftið og segja hreint út að það eigi ekki að nota bráðabirgðalagavaldið og það að gert er ráð fyrir lengra fríi Alþingis heldur en hafði verið á dagskránni, fær mig til að óttast að menn ætli sér að nota þetta vald.