Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 15:23:42 (6846)


[15:23]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að spyrja síðasta hv. ræðumann, 11. þm. Reykn., eftirfarandi: Í hverju felst sú hagræðing sem hér er verið að leggja til? --- Ég bið þingmanninn um að vera í þingsal meðan ég ber fram spurningarnar. ( PBald: Já, hún er í þingsalnum.) Í hverju felst sú hagræðing sem þingmaðurinn talaði um? Hefur þingmaðurinn borið það saman við skýrslu, sem ræðumaður nefndi einnig, þá sem hæstv. umhvrh. pantaði? Hvernig væri að þingmaður væri í þingsal og aðstoðarmaður ráðherra væri ekki að trufla þingmanninn?
    Í öðru lagi, telur þingmaðurinn að það samræmist breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands að fella það inn í lög um friðun, vernd og veiðar, inn í allt aðra löggjöf? Ég sé að hér er viðurkennt að það þurfi breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands, en gengur það upp? --- Enn er aðstoðarmaður ráðherra að trufla þingmanninn. --- Gengur það upp að fella það inn í allt aðra löggjöf? Ég tel að þetta standi gegn öllum venjulegum stjórnsýsluháttum og löggjafaratriðum og það er ýmislegt fleira sem ég kem að síðar, virðulegi forseti.