Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 18:33:26 (8013)


[18:33]
    Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera grein fyrir máli frá sjónarhóli ráðuneytisins. Ég þarf ekki að gera margar athugasemdir við það sem þar kom fram að öðru leyti en því að ég tel að í sambandi við flutning stofnana þá sé eðlilegt að fyrir liggi vilji Alþingis í málinu, a.m.k. á meðan ekki hafa verið mótaðar almennar reglur varðandi það hvernig ráðherra beitir valdi í þeim efnum. Í þessu tilviki hefur verið gengið á svig við það nál. sem fyrir liggur og nefnd sem kennd er við fyrrv. hv. þm. Þorvald Garðar Kristjánsson, alveg sérstaklega að því er varðar samskipti við starfsmenn viðkomandi stofnunar.
    Hitt liggur svo fyrir og ég tek undir það sem ráðherra sagði, að auðvitað verður Alþingi að samþykkja fjárútgjöld sem slíku tengjast og kemur þá í flestum tilvikum að málinu, en hitt er þó eðlilegt og sjálfsagt að vilji þingsins liggi fyrir áður en í flutning stofnana er ráðist.

    Ég hef ekki rætt þetta mál út frá flutningnum sem slíkum. Ég er meðmæltur dreifingu stjórnsýslunnar með skynsamlegum hætti og vel undirbúið að vissu marki og tengi það ekki málflutningi mínum í þessu máli.
    Varðandi það sem síðast kom fram hjá hæstv. ráðherra, þá hef ég ekki gert neinar athugasemdir við það að hæstv. umhvrh. hefur stuðst við fyrrv. starfsmann sinn í samskiptum við umhvn. Engar athugasemdir hef ég við það að gera út af fyrir sig. Auðvitað verða slíkir starfsmenn að gæta hagsmunaárekstra ef hætta er á slíku, það getur farið eftir eðli máls, en það var ekki neitt sem tengdist mínum athugasemdum í málinu.