Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 39 . mál.


42. Tillaga til þingsályktunar



um umhverfisgjald.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald sem hafi það að markmiði að efla umhverfisvernd og draga úr mengun. Gjaldið verði lagt á mengandi starfsemi og lækki eftir því sem mengunarvarnir skila árangri.

Greinargerð.


    Á 116. löggjafarþingi var flutt samhljóða tillaga. Henni var þá vísað til umhverfisnefndar en vegna þess hve skammt lifði þá þess þings vannst ekki tími til að fjalla um tillöguna í nefndinni. Tillagan er því flutt á ný óbreytt.
    Á undanförnum árum hafa æ fleiri vaknað til vitundar um það hve umhverfisvandamálin eru orðin geigvænleg. Stóru umhverfisvandamálin tengjast vaxandi mengun, eyðingu auðlinda, fólksfjölgun, fátækt og misskiptingu gæða jarðarinnar. Ferskvatnsbirgðir heimsins fara minnkandi, votlendi og vötn þorna upp, súrt regn og skógeyðing leiða til eyðileggingar á vistkerfinu; giskað hefur verið á að um 1 milljón tegunda plantna og dýra hafi nú þegar horfið af yfirborði jarðar fyrir tilverknað manna.
    Í loftinu, sem við öndum að okkur, hefur magn mengandi efna, svo sem koldíoxíðs, kolmónoxíðs, köfnunarefnisoxíða, metans og klórflúorkolefnis, aukist verulega. Þetta mun að margra mati leiða til hækkaðs hitastigs á jörðinni, að jöklar bráðni og yfirborð sjávar hækki með hrikalegum afleiðingum. Mörg svæði, jafnvel heilu löndin, gætu horfið af yfirborði jarðar strax á næstu öld ef sjávarborð hækkar eins og spáð er. Stór svæði ræktarlands og byggð ból á láglendi í strandríkjum mundu fara í kaf. Ef við lítum okkur aðeins nær mun hækkað hitastig hafa verulegar afleiðingar hér á landi. Stórfelld röskun yrði á hafnarmannvirkjum og íbúðabyggðir eins og miðbær Reykjavíkur gætu t.d. farið meira og minna undir vatn. Víðast hvar annars staðar mundu strandsvæði, sem nú eru í byggð, eyðileggjast. Ómögulegt er að segja til um það nú hvaða áhrif hækkað hitastig hefði á hafstrauma, en breytingar á þeim gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar hér á landi að því er varðar veðurfar og vistkerfi sjávar og þar með á fiskstofnana.
    Það efni, sem á mestan þátt í auknum gróðurhúsaáhrifum, er koldíoxíð í andrúmslofti þótt ýmis önnur efni komi þar einnig við sögu. Ef fram heldur sem horfir mun koldíoxíð í andrúmslofti tvöfaldast á næstu öld. Nú er því eðlilega lögð mest áhersla á að draga úr koldíoxíðmengun í andrúmslofti. Nefnd, sem umhverfisráðherra skipaði í janúar 1991 til að kanna útstreymi koldíoxíðs á Íslandi, skilaði skýrslu í maí 1992. Eins og segir í skýrslunni er með henni reynt að skapa grundvöll fyrir stefnumótun á þessu sviði hér á landi. Í skýrslunni kemur m.a. fram að hlutdeild flúorkolefna í gróðurhúsaáhrifum hér á landi er óvenju mikil miðað við önnur lönd. Útstreymi koldíoxíðs hér á landi (2,4 tonn á íbúa á ári) er sambærileg við útstreymið á Norðurlöndum (1,9–3 tonn á íbúa) og í ýmsum iðnríkjum, t.d. Bretlandi (2,7 tonn á íbúa) og Japan (2,2 tonn á íbúa). Hlutfallslega stór fiskveiðifloti Íslendinga vegur þar þungt. Áætlað er að vistkerfi jarðar geti að skaðlausu tekið við um 0,5 tonnum koldíoxíðs á íbúa á ári.
    Í skýrslunni er einnig lagt mat á útstreymi annarra mengandi lofttegunda hér á landi. Það er fyllsta ástæða til að taka þetta vandamál föstum tökum og gera allt sem í okkar valdi stendur til að minnka og koma í veg fyrir mengun og frekari eyðileggingu. Jafnframt því ber okkur eftir því sem frekast er unnt að bæta fyrir þá eyðileggingu sem þegar er orðin.
    Stærstu iðnríki heims hafa samþykkt að stefna að því að koldíoxíðútstreymi verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990 sem fyrsta skref til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þetta fyrsta skref er mikilvægt þótt það sé engan veginn nægjanlegt. Mikil umræða á sér víða stað um sérstakt gjald á koldíoxíðútblástur til að draga úr mengun og hafa sum lönd þegar tekið upp slíkt gjald. Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð hefur verið lagt sérstakt umhverfisgjald á olíu til upphitunar. Í Finnlandi er gjaldið 21 finnskt mark á rúmmetra. Í Noregi er lagt á slíkt gjald eftir brennisteinsinnihaldi olíunnar og sérstakur koldíoxíðskattur sem er 300 norskar krónur á rúmmetra. Svíþjóð er einnig með sérstakan brennisteinsskatt á olíu sem er 27 sænskar krónur á rúmmetra fyrir hvern hundraðshluta brennisteinsinnihalds, sem og koldíoxíðskatt en hann er 720 sænskar krónur á rúmmetra. (Heimild: „Energi och miljö i Norden“, skýrsla sem unnin var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Nord 1991:23.)
    Víða hefur verið sett sérstakt umhverfisgjald á starfsemi sem veldur annarri mengun. Slíkt gjald dregur úr notkun mengandi efna og í því felst hvatning til að önnur efni, sem ekki eru eins mengandi, séu notuð í staðinn. Einnig er lagt gjald á mengandi efni til að kosta rannsóknir á efnum sem geta komið í staðinn fyrir hin mengandi efni. Í Danmörku var lagt gjald á notkun klórflúorkolefna og halóna 1. janúar 1989, 30 danskar krónur á kg, og var áætlað að árið 1990 innheimtust 80 millj. danskra króna sem verja átti til umhverfismála. (Heimild: Nord 1991:23.) Með þessu móti fæst fjármagn m.a. til þróunar nýrrar tækni sem miðar að því að komast af án þessara efna.
    Í Svíþjóð er einnig lagt umhverfisgjald á ýmis hættuleg efni, m.a. ósoneyðandi efni. Í ljósi þess hve klórflúorkolefni (CFC) og vetnisklórflúorkolefni (HCFC) eru hættuleg umhverfinu fól sænska ríkisstjórnin Umhverfismálastofnun ríkisins (Statens Naturvårdsverk) að koma með tillögur um hvernig hraða megi enn frekar að hætt verði notkun þessara efna en áður var gert ráð fyrir. Í október 1992 skilaði stofnunin niðurstöðum sínum (Rapport 4145). Þar er m.a. lagt til að bannað verði að nota efnin í ýmsa framleiðslu frá og með 1995 og að 300 króna (sænskar) gjald skuli sett á notkun HCFC í kælikerfum og 600 króna gjald á notkun klórflúorkolefna. Þetta eru dæmi um það hvernig umhverfisgjald er notað til að sporna við mengun.
    Eðlilegt væri að hér á landi væri tekið upp umhverfisgjald með hliðsjón af því sem annars staðar hefur verið gert. Umhverfisgjald hvetti menn ekki aðeins til að draga úr eða hætta notkun hættulegra efna, heldur einnig til að setja upp mengunarvarnabúnað til að lækka gjaldið eða fá það fellt niður. Oft fylgir því mikill kostnaður að setja upp mengunarvarnabúnað og væri því eðlilegt að þeir sem betur standa sig í þeim efnum fái af því fjárhagslegan ávinning. Það væri hagur allra að heildarinnheimta umhverfisgjaldsins minnkaði með tímanum samfara minni mengun. Fé, sem inn kemur, ætti hins vegar einungis að nota í þágu umhverfismála en ekki gera það að almennum tekjustofni fyrir ríkissjóð eða sveitarfélög.
    Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro 3.–14. júní 1992, var Ísland meðal fyrstu ríkja sem undirrituðu sáttmálann um verndun andrúmsloftsins. Í sáttmálanum er gert ráð fyrir að ríki geri ráðstafanir til að draga úr mengun andrúmslofts. Því miður er hér ekki um bindandi ákvæði að ræða en gert er ráð fyrir að ríki geri ráðstafanir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
    Það er verk að vinna hér á landi ef Íslendingar ætla sér að standa við þær yfirlýsingar að þjóðin eigi ávallt að vera í fremstu röð að því er umhverfisvernd varðar. Íslendingar hafa skrifað undir ýmsar alþjóðasamþykktir og yfirlýsingar í umhverfismálum. Það verður að halda vel á málum til að unnt verði að standa við þær skuldbindingar sem þegar hefur verið gengist undir. Við eigum að setja markið hátt og vera í forustu í þessum málum en bíða ekki eftir að aðrir hafi frumkvæði eða knýi okkur til aðgerða.
    Eðlilegt er að umhverfisráðuneytinu verði falið að vinna að því verkefni sem í þessari tillögu felst í samráði við fjármálaráðuneyti og leggja hið fyrsta fyrir Alþingi tillögur um umhverfisgjald sem hafi það að markmiði að efla umhverfisvernd og draga úr mengun.