Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 43 . mál.


46. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna, nr. 75/1980.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
    Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
                  Kona, sem gegnir þingmennsku, á rétt á sex mánaða orlofi frá þingstörfum vegna barnsburðar og karl á rétt á orlofi í einn mánuð, sbr. þó 2. gr. laga um fæðingarorlof, nr. 57/1987. Um greiðslur í fæðingarorlofi fer skv. 2. mgr.
    3. mgr. verður 4. mgr. og í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ kemur: 1., 2. og 3. mgr.

2. gr.


    Við 8. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Afsali þingmaður sér þingmennsku og hverfi til annarra launaðra starfa fellur réttur hans til biðlauna niður.
    Nú tekur sá er biðlauna nýtur stöðu í þjónustu ríkisins, stofnana þess eða fyrirtækja og fellur þá niður greiðsla biðlauna ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka biðlaunatímans.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilgangurinn með þessu frumvarpi er tvíþættur.
    Annars vegar er hann að bæta úr þeim augljósa galla á núgildandi lögum um þingfararkaup alþingismanna, nr. 75/1980, að þar er hvergi minnst á rétt þingmanna til fæðingarorlofs. Er löngu tímabært að tryggja barnshafandi þingkonum sama rétt til fæðingarorlofs og öðrum konum í opinberri þjónustu sem og feðrum á Alþingi sama rétt og öðrum feðrum. Er í raun illskiljanlegt að þetta skuli ekki þegar hafa verið gert þegar þess er gætt að a.m.k. þrjár þingkonur hafa þurft að leita úrlausnar þingsins vegna barnsburðarleyfa.
    Hins vegar er tilgangurinn sá að gera rétt þingmanna til biðlauna skýrari en hann er nú. Samkvæmt núgildandi lögum á alþingismaður rétt til biðlauna í þrjá mánuði eftir eins kjörtímabils þingsetu en í sex mánuði hafi hann setið í tíu ár eða lengur á þingi. Þetta ákvæði þingfararkaupslaganna má rekja til ársins 1978, en það ár voru fyrst samþykkt á Alþingi lög um biðlaun alþingismanna. Það sem fyrir löggjafanum vakti var greinilega að tryggja að alþingismenn nytu nokkurs konar uppsagnarfrests í starfi rétt eins og flestir aðrir launþegar í þjóðfélaginu. Kom greinilega fram í umræðum á Alþingi að þingmenn litu svo á að biðlaun væru til þess greidd að menn hefðu tíma og ráðrúm til að finna sér annað starf þegar þingsetu lyki. Ætti þetta ekki síst við um þingmenn sem hefðu verið alllengi fjarri almennum vinnumarkaði og gætu ekki gengið aftur að fyrri störfum. Biðlaunin áttu með öðrum orðum að tryggja að þingmenn stæðu ekki skyndilega uppi atvinnu- og launalausir að loknum kosningum.
    Umræður að undanförnu um biðlaun endurspegla að hugmyndir manna um biðlaunaréttinn eru komnar nokkuð fjarri því sem löggjafanum gekk til á sínum tíma. Virðist sú hugmynd útbreidd að þarna sé um nokkurs konar samningsbundin kjör að ræða sem menn eigi rétt á hvernig sem starfslok á Alþingi ber að. Þannig eru dæmi þess að þingmenn, sem hafa afsalað sér þingmennsku áður en kjörtímabili lýkur, hafi þegið biðlaun, aðrir hafi afsalað sér þeim og enn aðrir hafi hvorki gengið eftir þeim né afsalað sér þeim þar sem þeir litu svo á að þeir ættu ekki þennan rétt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að konur, sem sitja á Alþingi, njóti sama réttar til fæðingarorlofs og aðrar konur á vinnumarkaði en samkvæmt núgildandi lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, miðast það við sex mánuði. Þá er lagt til að feður í hópi þingmanna eigi rétt á fæðingarorlofi í einn mánuð en þó þannig að um rétt þeirra fari skv. 2. mgr. 2. gr. laga um fæðingarorlof en þar er kveðið á um að skipti foreldrar með sér fæðingarorlofi verði sameiginlegt orlof þeirra aldrei lengra en sex mánuðir.
    Samkvæmt greininni gilda sömu reglur um greiðslur í fæðingarorlofi og nú gilda um greiðslur til þingmanna vegna veikinda eða slysa, þ.e. þeir njóta þingfararkaups, húsnæðiskostnaðar, dvalarkostnaðar og ferðakostnaðar en þó þannig að sá kostnaður sem hlýst af þingsetu greiðist í lengsta lagi til loka þess þings sem þingmaðurinn hefur verið kvaddur til.

Um 2. gr.


    Samkvæmt greininni skulu þingmenn ekki njóta réttar til biðlauna afsali þeir sér þingmennsku áður en kjörtímabili lýkur og hverfi til annarra launaðra starfa. Gildir þá einu hvort þau störf eru í þjónustu ríkisins eða ekki. Er þetta í samræmi við þá reglu sem almennt gildir á vinnumarkaði að segi fólk sjálft upp störfum nýtur það ekki launa í uppsagnarfresti sé hann ekki unninn.
    Þá er í greininni kveðið á um að taki biðlaunaþegi stöðu í þjónustu ríkisins, stofnana þess eða fyrirtækja skuli biðlaunagreiðslur falla niður nema laun í nýju starfi séu lægri en sem þeim nemur. Í því tilviki skuli greiða launamismuninn til loka biðlaunatímans. Er þetta í samræmi við þá reglu sem gildir um biðlaunagreiðslur ráðherra.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.