Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 69 . mál.


72. Frumvarp til laga



um dýravernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)




I. KAFLI


Gildissvið laganna.


1. gr.


    Lög þessi taka til allra hryggdýra, en þó einkum til þeirra sem eru í vörslu eða umsjón manna.
     Um meðferð og aðbúnað einstakra búfjártegunda skal að auki fara að fyrirmælum laga og reglugerða þar að lútandi.

II. KAFLI


Meðferð dýra, vistarverur og umhirða.


2. gr.


    Skylt er að fara vel með dýr og forða þeim frá vanlíðan.

3. gr.


    Eigendum eða umráðamönnum dýra ber að sjá þeim fyrir fullnægjandi vistarverum, nægilegu fóðri, vatni og umhirðu.
     Vistarverur dýra skulu vera þrifalegar og hæfilega rúmgóðar. Tryggt skal að dýr hafi hæfilegt frelsi til hreyfinga með hliðsjón af eðlilegum þörfum þeirra samkvæmt viðurkenndri reynslu og þekkingu. Frelsi þeirra til hreyfingar má ekki skerða á þann hátt að það valdi þeim þjáningu eða meiðslum.
     Haga skal lýsingu, hita, loftræstingu, rakastigi og öðrum aðstæðum í vistarverum dýra í samræmi við þarfir þeirra dýra sem þar eru. Forðast ber óþarfa hávaða.
     Haga skal fóðrun og brynningu dýra með þeim hætti að ekki sé hætta á að þau þjáist eða bíði heilsutjón af.

4. gr.


    Eigendur eða umráðamenn dýra skulu fylgjast með heilsu þeirra og ástandi svo að komast megi hjá ónauðsynlegri vanlíðan dýranna.
     Sérstakt eftirlit skal haft með dýrum sem haldin eru á tæknivæddum stórbúum. Áður en slík bú eru tekin í notkun og að minnsta kosti árlega eftir það skal héraðsdýralæknir eða fulltrúi yfirdýralæknis skoða vistarverur og tæknibúnað sem ætlað er dýrum og fullvissa sig um að hvort tveggja sé í samræmi við lög og reglugerðir.

5. gr.


    Að vetri til, þegar búfé er látið ganga úti, er haldið til beitar eða látið liggja við opið, er skylt að hafa á staðnum vistarverur við hæfi eða annað öruggt og hentugt skjól í öllum veðrum. Einnig skal vera þar nægilegt fóður og vatn og litið skal eftir búfénu reglulega en daglega eða oftar ef nauðsyn krefur að mati forðagæslumanns, ráðunautar eða dýralæknis.

6. gr.


    Umhverfisráðherra setur í reglugerð, í samráði við landbúnaðarráðherra, nánari fyrirmæli um vistarverur og aðbúnað dýra. Þar skal m.a. setja skilyrði fyrir eða bann við innilokun dýra í búrum eða þröngum stíum og tjóðrun þeirra til langframa.
     Þegar búfé á í hlut skal fara að reglum, settum samkvæmt lögum um búfjárhald, nr. 46/1991.

7. gr.


    Óheimilt er að hrekkja eða meiða dýr. Þeim skal sýna vægð og nærgætni í brúkun og forðast skal að ofbjóða kröftum þeirra. Einungis má nota í keppni dýr sem eru heilbrigð og vel þjálfuð. Óheimilt er að nota hormón, deyfilyf eða hliðstæð efni til að hafa áhrif á afkastagetu dýra í keppni.

8. gr.


    Eyrnamarka skal dýr sem yngst og á þann hátt að valdi sem minnstum sársauka. Óheimilt er að eyrnamarka fullvaxið dýr án deyfingar.

9. gr.


    Ökumenn skulu sýna dýrum á vegum fyllstu tillitssemi. Verði dýr fyrir ökutæki ber stjórnanda þess skylda til að stöðva ökutækið strax og ganga úr skugga um hversu alvarlegt slysið er.

10. gr.


    Verði maður var við að dýr sé sjúkt, lemstrað eða bjargarlaust að öðru leyti er honum skylt að veita því umönnun eftir föngum og gera eiganda eða umráðamanni, löggæslumanni eða dýralækni viðvart án tafar. Náist ekki til þessara aðila og sjúkdómur dýrs eða lemstur er tvímælalaust banvænn og dýrið er mjög kvalið er viðkomandi skylt að deyða dýrið eða láta deyða það. Þeim sem deyðir dýr með þessum hætti er skylt að skýra eiganda, umráðamanni eða löggæslumanni frá því svo fljótt sem kostur er.

11. gr.


    Ef dýr villast eða strjúka að heiman eða sleppa úr lokuðum girðingum skulu eigendur eða umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Löggæslan getur tekið slík dýr í vörslu sína. Skal hún þá geyma dýrið í a.m.k. 10 daga og auglýsa það. Ef eigandi gefur sig fram skal hann greiða áfallinn kostnað. Annars skal dýrinu ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, selt fyrir áföllnum kostnaði eða aflífað.
     Þegar búfé á í hlut skal fara að lögum um búfjárhald, reglum laga um afréttarmál og fjallskil og lögum um varnir gegn smitandi búfjársjúkdómum.

12. gr.


    Við flutning á dýrum skal þess gætt að útbúnaður farartækis sé góður og við hæfi hverju sinni og að gott eftirlit sé með dýrunum meðan á flutningi stendur.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um flutning á dýrum.

III. KAFLI


Sérstakt dýrahald í atvinnuskyni, annað en í landbúnaði.


13. gr.


    Sérstakt leyfi þarf til hvers konar ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Einnig þarf sérstakt leyfi til að setja á stofn dýragarða, dýrasýningar eða dýrahappdrætti.
     Leyfi skv. 1. mgr. veitir viðkomandi lögreglustjóri. Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um leyfisveitingar skv. 1. og 4. mgr. og getur bundið leyfi þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja til að tryggja hæfilega meðferð dýranna, svo sem um aðbúnað þeirra, umhirðu, vistarverur og eftirlit með starfseminni. Undanþegnar eru sýningar samkvæmt búfjárræktarlögum.
     Óheimilt er að temja dýr til sýnis almenningi eða taka af þeim kvikmyndir ef það veldur þeim sársauka eða ótta.
     Sérstakt leyfi umhverfisráðherra þarf til veiða villtra dýra fyrir dýragarða eða önnur söfn lifandi dýra.

IV. KAFLI


Aðgerðir á dýrum og aflífun.


14. gr.


    Dýralæknum einum er heimilt að framkvæma læknisaðgerðir á dýrum. Undanþegnar eru þó lyfjagjafir í samráði við dýralækni. Þegar aðgerð á dýrum er sársaukafull skal ávallt nota deyfilyf eða svæfingu.
     Dýralæknum einum er heimilt að gelda dýr með þeim undantekningum sem settar verða í reglugerð.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um aðgerðir á dýrum sem eru framkvæmdar án læknisfræðilegra ástæðna.

15. gr.


    Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og án þess að önnur dýr verði þess vör. Dýr skulu ávallt svipt meðvitund áður en blóðtæming fer fram. Umhverfisráðherra getur sett nánari fyrirmæli um hvernig staðið skuli að aflífun dýra við slátrun.

V. KAFLI


Dýraveiðar.


16. gr.


    Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa dýr sem þeir hafa veitt áverka.
     Um veiðar einstakra dýrategunda skal fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar dýra.

VI. KAFLI


Tilraunir á dýrum.


17. gr.


    Óheimilt er að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu nema með sérstöku leyfi tilraunadýranefndar ef slíkri notkun fylgir álag eða þjáning fyrir dýrið.
    Umhverfisráðherra skipar tilraunadýranefnd til fjögurra ára í senn. Í henni eiga sæti yfirdýralæknir, sem er formaður nefndarinnar, forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og fulltrúi, tilnefndur af Rannsóknastofnun í siðfræði.
    Gæta skal þess við tilraunir eða aðgerðir á dýrum að þær baki þeim ekki meiri þjáningu en óhjákvæmilegt er.
    Tilraunadýranefnd skal tryggja að þeir sem nota dýr í tilraunaskyni hafi fengið upplýsingar um meðferð tilraunadýra og reglur þar að lútandi.
    Einungis má nota lifandi dýr í þessum tilgangi ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri.
    Umhverfisráðherra setur í samráði við tilraunadýranefnd reglugerð þar sem kveðið er á um meðferð tilraunadýra og eftirlit með tilraunum.

VII. KAFLI


Skipan dýraverndarmála.


18. gr.


    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn allra mála er varða dýravernd.
     Ráðherra til aðstoðar er dýraverndarráð sem umhverfisráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í ráðinu eiga sæti fimm menn. Einn er tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, einn af Dýralæknafélagi Íslands og einn af Sambandi dýraverndarfélaga Íslands. Umhverfisráðherra skipar einn mann í ráðið án tilnefningar og er hann jafnframt formaður. Í öllum tilfellum skal skipa annan mann til vara samkvæmt tilnefningu framangreindra aðila.
     Tillagna eða umsagna dýraverndarráðs skal ætíð leita við setningu reglugerða, leyfisveitinga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla um dýravernd. Ráðinu ber að gera tillögur til ráðherra um allt það sem horfir til framdráttar dýravernd í landinu. Dýraverndarráð skal láta dýraverndarnefndum, héraðsdýralæknum, löggæslumönnum, ákæruvaldi og dómstólum í té umsagnir um málefni er varða dýravernd. Ráðið skal auk þess beita sér fyrir því að auka þekkingu og skilning manna á dýravernd.
     Kostnaður vegna starfsemi dýraverndarráðs greiðist úr ríkissjóði.

19. gr.


    Í hverju umdæmi héraðsdómstóls, sbr. lög nr. 92/1989, skal skipa sérstaka dýraverndarnefnd. Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um skipan nefnda þessara og val manna í þær. Hann setur nefndum starfsreglur.
     Dýraverndarnefndir skulu vera almenningi til ráðuneytis í dýraverndarmálum og vera löggæslumönnum til aðstoðar við eftirlit með lögunum. Kostnaður við störf dýraverndarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

VIII. KAFLI


Eftirlit með framkvæmd laganna og viðurlög.


20. gr.


    Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum ber þeim sem þess verða varir að tilkynna það til lögreglu í viðkomandi umdæmi, héraðsdýralæknis, dýraverndarnefndar eða dýraverndarráðs.
    Við eftirlit með lögum þessum er fulltrúa dýraverndarnefndar ásamt héraðsdýralækni eða löggæslumanni heimilt að fara á hvern þann stað innan umdæmis þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Eigi er þó heimilt að fara inn í íbúðarhúsnæði án samþykkis umráðamanns nema að fengnum dómsúrskurði.
     Telji dýraverndarnefnd, héraðsdýralæknir eða löggæsla að um minni háttar brot sé að ræða skulu þeir leggja fyrir eiganda eða umsjónarmann dýranna að bæta úr innan tiltekins tíma. Láti eigandi ekki skipast við tilmæli skal lögreglustjóri leggja á dagsektir, fyrirskipa úrbætur á kostnað viðkomandi eða beita þeim úrræðum sem mælt er fyrir í 4. mgr.
     Telji dýraverndarnefnd, héraðsdýralæknir eða löggæsla að um sé að ræða alvarlegt brot á dýraverndarlögunum eða reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim geta þessir aðilar tekið dýr fyrirvaralaust úr vörslu eiganda eða umsjónarmanns. Ber dýraverndarnefnd, héraðsdýralækni eða löggæslu að tilkynna slíkar aðgerðir til lögreglustjóra þegar í stað. Lögreglustjóri skal í framhaldi af því, að fenginni tillögu dýraverndarnefndar og umsögn héraðsdýralæknis, ákveða hvort dýrin skuli vera áfram í vörslu löggæslu þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið. Á meðan dýrin eru í vörslu löggæslu er viðkomandi sveitarstjórn skylt að útvega geymslustað, fóður og umhirðu fyrir dýrin á kostnað eiganda eða umsjónarmanns. Sé þess ekki kostur skal lögreglustjóri láta bjóða þau upp og selja til lífs eða slátrunar eða láta aflífa þau að öðrum kosti. Vilji eigandi eða umsjónarmaður dýra, sem hald er lagt á, ekki hlíta þeirri ákvörðun skal honum bent á að hann geti borið ágreiningsefnið undir dómara. Slík krafa frestar þó ekki að hald verði lagt á dýrið.
     Telji lögreglustjóri það nauðsynlegt, til að stöðva eða fyrirbyggja illa meðferð á dýrum, getur hann fyrirvaralaust svipt, til bráðabirgða, eiganda eða umsjónarmann heimild til að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 24. gr., enda hafi dýraverndarnefnd og/eða héraðsdýralæknir gert tillögur um það. Gildir þessi bráðabirgðaleyfissvipting þótt eigandi eða umsjónarmaður flytji dýrin í annað lögsagnarumdæmi.
     Endurgreiðslur vegna útgjalda skv. 20. gr. eru aðfararhæfar.

21. gr.


    Brot gegn lögum þessum, reglum eða reglugerðum, sem settar eru með stoð í þeim, varða sektum eða varðhaldi. Ef brot er stórfellt eða ítrekað getur það varðað fangelsi allt að tveimur árum.
     Hlutdeild í brotum og tilraun til brota á lögum þessum er refsiverð.

22. gr.


    Hafi maður gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögum þessum eða reglugerðum, sem settar eru með stoð í þeim, er unnt að svipta hann með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti. Heimildarsvipting getur lotið að dýrum almennt eða einstökum tegundum og staðið tiltekið tímabil eða ævilangt. Heimildarsviptingu má beita gagnvart ósakhæfum manni. Ákæruvaldið getur haft uppi kröfu um heimildarsviptingu í opinberu máli hvort sem krafist er refsingar á hendur sakborningi eða ekki. Aðili, sem sviptur er heimild samkvæmt þessari málsgrein og skeytir ekki ákvæði dóms um heimildarsviptingu, skal sæta sektum.

23. gr.


    Foreldrum eða öðrum forráðamönnum barna er skylt að sjá til þess að þau börn, sem þau hafa forráð fyrir, hlýðnist fyrirmælum þessara laga. Fremji barn, yngra en 16 ára, brot á lögum þessum og brotið er framið með vitund foreldra eða forráðamanna skal þeim refsað fyrir brotið ef sannað er að þeir hafi vanrækt að koma í veg fyrir það.

24. gr.


    Um rannsókn og meðferð mála út af brotum á lögum þessum fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

IX. KAFLI


Brottfallin lög og gildistaka.


25. gr.


    Umhverfisráðherra setur reglugerðir samkvæmt lögum þessum enda séu þær í samræmi við milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur um dýravernd, sem settar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær brjóta ekki í bága við þau uns nýjar reglur hafa verið settar.
     Lög þessi öðlast gildi þremur mánuðum eftir að þau hafa verið birt. Frá sama tíma eru numin úr gildi lög nr. 21/1957, um dýravernd, sbr. lög nr. 38/1968.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það var endurflutt á 116. löggjafarþingi með nokkrum breytingum, fæstum efnislegum, en varð ekki útrætt í þingnefnd. Frumvarpið er nú endurflutt með einni efnislegri breytingu. Kveðið er á um í 25. gr. að reglugerðir, sem settar verða með stoð í dýraverndarlögum, skuli vera í samræmi við milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að.
    Þann 8. ágúst 1991 skipaði Eiður Guðnason umhverfisráðherra nefnd til að endurskoða frumvarp það til laga um dýravernd sem lagt var fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1991.
     Í nefndina voru skipuð: Jón Gunnar Ottósson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður, Árni M. Mathiesen alþingismaður, Margrét Haraldsdóttir menntaskólakennari, Páll Hersteinsson, veiðistjóri ríkisins, og Sigurður H. Richter dýrafræðingur. Þóri Ibsen, starfsmanni í umhverfisráðuneytinu, var falið að vera ritari nefndarinnar.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið á ellefu fundum og skilaði áliti til umhverfisráðherra 27. nóvember 1991. Samkomulag varð í nefndinni um það frumvarp sem hér liggur fyrir.
     Aðdragandi frumvarps þessa er orðinn alllangur. Með bréfi 26. febrúar 1974 fól menntamálaráðherra þáverandi dýraverndarnefnd að endurskoða lög um dýravernd, nr. 21/1957, með síðari breytingum. Í september 1981 skiluðu meiri hluti og minni hluti nefndarinnar hvor sínu frumvarpi ásamt greinargerðum. Hvorugt þessara frumvarpa var lagt fram á Alþingi. 28. mars 1983 fól menntamálaráðherra þá nýlega skipaðri dýraverndarnefnd að fjalla að nýju um fyrrgreind frumvörp og semja nýtt. Nefndin skilaði frumvarpi í maí 1986 sem var sent út til umsagnar og var frumvarpinu breytt í framhaldi af því. Þetta frumvarp dýraverndarnefndar frá því í maí 1986 var aldrei lagt fram á Alþingi.
    Með lögum nr. 47/1990 voru dýraverndarmálefni lögð til umhverfisráðuneytisins. Hinn 14. ágúst 1990 sendi dýraverndarnefnd umhverfisráðuneytinu endurskoðað frumvarp. Ráðuneytið taldi frumvarpið of viðamikið og að margt í því ætti fremur heima í reglugerð. Í framhaldi af því skilaði nefndin styttri útgáfu af frumvarpinu til ráðherra 6. janúar 1991. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í umhverfisráðuneytinu og var það síðan lagt fram á Alþingi til kynningar skömmu fyrir þinglok á 113. löggjafarþingi 1990–91. Umhverfisráðherra skipaði nefnd, eins og áður segir, 8. ágúst 1991 til að fara yfir þessa síðustu útgáfu frumvarps til laga um dýravernd.
     Sú gerð frumvarpsins, sem hér liggur fyrir, tekur í aðalatriðum mið af tillögum dýraverndarnefndar frá 6. janúar 1991, greinargerð dýraverndarnefndar með frumvarpinu frá 14. maí 1986 og athugasemdum einstakra aðila sem fengið hafa málið til umsagnar. Einnig hefur fullt tillit verið tekið til ákvæða Evrópusamnings um vernd dýra í landbúnaði sem Ísland gerðist aðili að 19. september 1989 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 20. mars 1990.
     Núgildandi lög um dýravernd eru lög nr. 21/1957, sbr. lög nr. 38/1968, um breytingu á þeim lögum, og er frumvarpinu ætlað að koma í þeirra stað. Helstu breytingarnar, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, varða stjórn og skipulag dýraverndarmála og eftirlit með framkvæmd laganna. Þær eru þessar:
    Sett verði á stofn sérstakt dýraverndarráð sem tekur til landsins alls. Ráðið kemur í stað dýraverndarnefndar samkvæmt núgildandi lögum. Hlutverk þess er sambærilegt hlutverki nefndarinnar.
    Settar verði á stofn dýraverndarnefndir í héruðum landsins til að auka og tryggja eftirlit með framkvæmd laganna. Svæðaskipting tekur mið af skiptingu landsins í umdæmi héraðsdómstóla, sbr. lög nr. 92/1989. Opinberum aðilum er fengið aukið vald til að grípa til aðgerða vegna illrar meðferðar á dýrum.
     Auk þessara meginbreytinga eru gerðar ýmsar breytingar á einstökum ákvæðum og þau gerð markvissari en samsvarandi ákvæði gildandi laga. Þá er aukið við mörgum nýjum ákvæðum. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið er nýmæli. Þar er gildissvið laganna afmarkað. Lögin taka til allra hryggdýra. Eðlilegt er þó að leggja sérstaka áherslu á þau dýr sem eru í vörslu manna eða umsjá. Ekki þykir framkvæmanlegt að láta lögin ná til allra dýra þótt augljóslega beri að fara vel með öll dýr og forða þeim frá vanlíðan.

Um 2. gr.


    Greinin samsvarar 1. gr. núgildandi laga.

Um 3. gr.


    Greinin svarar til 2. gr. núgildandi laga en er nokkru ítarlegri. Ákvæði 1. mgr. um skyldu eigenda eða umráðamanna til að sjá dýrum fyrir fullnægjandi vistarverum, nægilegu fóðri, vatni og umhirðu ber að skoða með tilliti til tegundar viðkomandi dýra, aldurs, aðlögunarhæfni og tamningar.

Um 4. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru nýmæli og sérlega mikilvæg vegna verksmiðjubúskapar þar sem störf eru í ríkum mæli vélvædd, svo sem í búskap með hænsnfugla, svín, kálfa, loðdýr og fiska. Eftir því sem vélvæðing er meiri er beint eftirlit með líðan einstakra dýra minni. Því er þörf á að setja bein fyrirmæli í lög til að tryggja slíkt eftirlit.
     Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að héraðsdýralæknir eða fulltrúi yfirdýralæknis skoði og samþykki vistarverur sem ætlaðar eru dýrum á tæknivæddum stórbúum.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um þarfir búfjár þegar það er látið ganga úti, er haldið til beitar eða látið liggja við opið að vetrarlagi. Skylt er að hafa á staðnum vistarverur við hæfi, að teknu tilliti til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda, og er þá miðað við að dýrin hafi öruggt og hentugt skjól í öllum veðrum. Kveðið er á um reglulegt eftirlit með búfé. Frá fyrra frumvarpi er gerð sú breyting að ekki er krafist daglegs eftirlits nema nauðsyn beri til.

Um 6. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um aðbúnað dýra og umhirðu. Setja þarf slíkar reglur í samráði við landbúnaðarráðuneytið, sbr. lög um búfjárhald, nr. 46/1991. Fellt er niður það ákvæði fyrra frumvarps að settar skuli reglur um aðbúnað dýra á tæknivæddum stórbúum, eftirlit með þeim, tæknibúnað og öryggisatriði. Þess í stað er kveðið á um að fara skuli að reglum, settum samkvæmt lögum um búfjárhald, nr. 46/1991, þegar búfé á í hlut.

Um 7. gr.


    Greinin samsvarar 3. gr. núgildandi laga um dýravernd. Bætt hefur verið við greinina ákvæði þess efnis að bannað sé að nota deyfilyf, hormóna eða hliðstæð efni til að hafa áhrif á afkastagetu dýra í keppni. Ákvæði þetta var ekki í fyrra frumvarpinu.

Um 8. gr.


    Greinin samsvarar 5. gr. núgildandi laga.

Um 9. gr.


    Greinin er nýmæli í lögum um dýravernd og kemur til af því hversu algengt það er að skepnur verði fyrir ökutækjum. Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

Um 10. gr.


    Greinin samvarar 6. og 16. gr. núgildandi laga.

Um 11. gr.


    Greinin er nýmæli. Eðlilegt þykir að leggja þá skyldu á herðar eigendum og umsjónarmönnum að þeir geri þegar ráðstafanir til að hafa upp á dýrum sem villast eða strjúka frá heimkynnum sínum. Kveðið er á um heimild löggæslu til að taka þessi dýr í sína vörslu. Það er áréttað að sérreglur um skil á sauðfé samkvæmt lögum um afréttarmál og fjallskil ganga framar þessu ákvæði. Einnig er minnt á lög um varnir gegn smitandi búfjársjúkdómum þegar búfé á í hlut.

Um 12. gr.


    Greinin samsvarar 7. gr. núgildandi laga. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um flutning á dýrum.

Um 13. gr.


    Greinin samsvarar að verulegu leyti 4. gr. núgildandi laga en er ítarlegri. Dýrahald telst vera í atvinnuskyni ef tekjur af því ná lágmarki virðisaukaskattslaga samkvæmt gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um leyfisveitingar sem tilgreindar eru í 1. og 4. mgr. greinarinnar.

Um 14. gr.


    Greinin svarar til 10. og 11. gr. núgildandi laga. Tekið er fram að ekki þurfi dýralækni til að framkvæma inndælingar með viðurkenndum lyfjum. Nýmæli er að dýralæknum einum skuli heimilt að gelda dýr. Jafnframt er dýralæknum gert skylt að nota deyfilyf eða svefnlyf við allar sársaukafullar aðgerðir. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um aðgerðir á dýrum sem eru framkvæmdar án læknisfræðilegra ástæðna. Skal þar m.a. kveðið á um lyfjagjöf, geldingar sem framkvæmdar eru af öðrum en dýralæknum og aðgerðir sem óheimilt er að framkvæma á dýrum án læknisfræðilegra ástæðna. Þar skal einnig setja fyrirmæli um erfðatæknilegar aðgerðir á dýrum, notkun hormóna eða annarra efna sem ætlað er að hafa áhrif á eiginleika dýra í öðrum tilgangi en að fyrirbyggja eða lækna sjúkdóma.

Um 15. gr.


    Greinin samsvarar að mestu 9. gr. núgildandi laga. Umhverfisráðherra er heimilað að setja nánari fyrirmæli í reglugerð um hvernig staðið skuli að aflífun dýra við slátrun.

Um 16. gr.


    Greinin er nýmæli og þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Greinin svarar til 12. og 13. gr. núgildandi laga, sbr. lög nr. 38/1968. Í fyrra frumvarpi var bann lagt við tilraunum með dýr en umhverfisráðherra var þó heimilt að veita undanþágu frá því ákvæði. Í ljósi þeirra athugasemda, sem fram hafa komið, þykir rétt að breyta þessu ákvæði þannig að sérstök tilraunadýranefnd geti veitt leyfi til slíkra tilrauna. Þar sem hér er um að ræða sérhæfð og viðkvæm mál, sem valdið geta bitrum deilum eins og erlend dæmi sýna, er eðlilegt að lögfesta ákvæði þess efnis að nefndin skuli skipuð sérfróðum mönnum. Með því að takmarka bannið við tilraunir, sem geta haft í för með sér álag eða þjáningar fyrir tilraunadýr, er fjöldi tilrauna undanþeginn leyfisveitingu og skriffinnsku sem óþörf er vegna dýraverndar, m.a. fóður- og kynbótatilraunir. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um meðferð tilraunadýra og eftirlit með tilraunum. Í þessu sambandi þykir rétt að vekja athygli á tilskipun Evrópubandalagsins um samræmingu á ákvæðum í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um verndun dýra sem notuð eru í tilrauna- og vísindaskyni (86/609/EBE), en tilskipun þessi er í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 18. gr.


    Greinin svarar til 17. gr. núgildandi laga. Lagt er til að í stað dýraverndarnefndar komi dýraverndarráð til aðgreiningar frá dýraverndarnefndum sem áformað er að skipa skv. 19. gr. Hlutverk dýraverndarráðs er sambærilegt hlutverki dýraverndarnefndar samkvæmt núgildandi lögum. Fellt er niður ákvæði um að störf dýraverndarnefndar skuli vera ólaunuð. Þetta er eðlilegt þar sem í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að starfssvið dýraverndarráðs verði umfangsmeira en dýraverndarnefndar áður.

Um 19. gr.


    Stofnun dýraverndarnefnda er nýmæli. Eðlilegt sýnist að miða við að ein dýraverndarnefnd starfi í hverju umdæma héraðsdómstóls eins og þau eru afmörkuð í lögum nr. 92/1989. Þetta er liður í því að bæta og auka eftirlit með framkvæmd laganna.

Um 20. gr.


    Greinin svarar til 14. gr. núgildandi laga. Í 1. mgr. er lögð sú skylda á alla sem verða varir við illa meðferð á dýrum að tilkynna það til viðkomandi aðila. Í 2., 3. og 4. mgr. er mælt fyrir um heimildir dýraverndarnefnda, héraðsdýralækna og löggæslumanna til að grípa til aðgerða vegna brota á lögunum.

Um 21. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.


    Greinin samsvarar 19. gr. núgildandi laga.

Um 23. gr.


    Greinin samsvarar 20. gr. núgildandi laga.

Um 24. gr.


    Greinin samsvarar 22. gr. núgildandi laga.

Um 25. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um dýravernd.


    Helstu breytingar miðað við gildandi lög varða stjórn og skipulag dýraverndarmála og eftirlit með framkvæmd laganna.
    Kostnaðaráhrif frumvarpsins felast einnig í þessum breytingum og er ákvæði þar að lútandi að finna í 17., 18. og 19. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er um að ræða skipun fimm manna dýraverndarráðs, auk jafnmargra varamanna. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að skipaðar verði átta dýraverndarnefndir, ein í hverju umdæmi héraðsdómstóls. Í þriðja lagi kemur til skipunar tilraunadýranefndar sem í eiga sæti þrír sérfróðir aðilar. Samkvæmt frumvarpinu á kostnaður við dýraverndarráð, dýraverndarnefndir og tilraunadýranefnd að greiðast úr ríkissjóði.
    Dýraverndarráði er ætlað að taka við hlutverki núverandi dýraverndarnefndar sem er ólaunuð. Þá verður hlutverk dýraverndarráðs mun víðtækara en hlutverk núverandi dýraverndarnefndar sem gæti leitt til þess að ráða þyrfti starfsmann. Verði sú raunin má ætla að kostnaður við dýraverndarráð geti orðið á bilinu 3–4 millj. kr. hið minnsta.
    Dýraverndarnefndir eru ekki starfandi nú samkvæmt gildandi lögum. Ætla má að fulltrúar í hverri nefnd verði að lágmarki þrír og einn til vara. Þannig má reikna með að greiða þurfi um 30 manns þóknun fyrir setu og störf í þessum nefndum. Þá má ætla að ýmis annar kostnaður falli til vegna starfsemi nefndanna en þóknanir nefndarmanna, t.d. ferðakostnaður. Ekki er ólíklegt að kostnaður ríkissjóðs vegna dýraverndarnefnda verði á bilinu 1–2 millj. kr.
    Gera má ráð fyrir að þóknanir til tilraunadýranefndar yrðu um 300 þús. kr. á ári.
    Samkvæmt framansögðu má ætla að árleg útgjöld ríkissjóðs aukist um 4,3–6,3 millj. kr. verði frumvarpið óbreytt að lögum.