Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 84 . mál.


87. Frumvarp til laga



um félagslega aðstoð.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Bætur félagslegrar aðstoðar eru mæðra- og feðralaun, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára, umönnunarbætur, endurhæfingarlífeyrir, makabætur, ekkju- og ekklabætur, ekkjulífeyrir, heimilisuppbót, sérstök heimilisuppbót, uppbætur vegna sérstakra aðstæðna, uppbót vegna reksturs bifreiðar og bifreiðakaupastyrkir.
    Bætur félagslegrar aðstoðar greiðast eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur.
    Lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins skal annast greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögum þessum, sbr. þó 12. gr.
    Kostnaður við bætur félagslegrar aðstoðar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun fjárlaga og fjáraukalaga hverju sinni.

2. gr.


    Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eiga lögheimili hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er einnig heimilt að skilyrða greiðslu mæðra- og feðralauna við að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris.
    Árleg mæðra- og feðralaun skulu vera sem hér segir:
    Með einu barni
12.000 kr.

    Með tveimur börnum
60.000 kr.

    Með þremur börnum eða fleiri
129.600 kr.

    Tryggingaráði er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til maka elli- eða örorkulífeyrisþega þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun. Tryggingaráði er og heimilt að greiða maka einstaklings sem sætir gæslu- eða refsivist mæðra- eða feðralaun, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
    Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. og 44. gr. laga um almannatryggingar. Nú skráir viðtakandi launanna sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá launin strax niður.

3. gr.


    Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Samkvæmt málsgrein þessari greiðist eingöngu einfaldur barnalífeyrir. Lífeyrisdeild metur sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði er að námið og þjálfunin taki a.m.k. sex mánuði hvert ár. Ef um er að ræða óreglulegt nám eða námskeið skal námstími reiknaður í kennslustundafjölda á almanaksárinu og telst þá sex mánaða nám samsvara 624 kennslustundum. Brot úr mánuði telst heill mánuður. Ungmennið sjálft sækir um barnalífeyri samkvæmt þessari málsgrein. Lífeyrisdeild getur frestað afgreiðslu barnalífeyris þar til sex mánaða námstíma er náð. Nú verður úrskurði skv. 1. mgr. 13. gr. barnalaga, nr. 20/1992, eigi við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því og er þá tryggingaráði heimilt að úrskurða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám samkvæmt þessari málsgrein. Lífeyrisdeild getur krafist framlagningar skattframtala með umsóknum um barnalífeyri. Tryggingaráði er og heimilt að úrskurða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám ef ljóst er að ungmenninu er ókleift að innheimta greiðslur samkvæmt úrskurði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. barnalaga, nr. 20/1992. Ef efnahagur er sérstaklega góður, umsækjandi hefur t.d. tekið arf, getur lífeyrisdeild hafnað umsókn en skjóta skal slíkum málum til tryggingaráðs sem úrskurðar í málinu.

4. gr.


    Heimilt er að greiða framfærendum fatlaðra og sjúkra barna, sem dveljast í heimahúsi, styrk, allt að 9.247 kr., eða umönnunarbætur, allt að 47.912 kr., á mánuði ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða sérstaka umönnun eða gæslu. Tryggingastofnun ríkisins úrskurðar og annast greiðslu styrks og umönnunarbóta að fengnum tillögum svæðisstjórna samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Greiðsla styrks skal miðuð við 10–40 klst. þjónustu á mánuði en greiðsla umönnunarbóta 40–175 klst. þjónustu á mánuði sem tryggingaráði er heimilt að hækka í allt að 200 klst. mæli sérstakar ástæður með því að mati svæðisstjórna. Dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerðir umönnunarbætur. Um framkvæmd greinarinnar fer eftir reglugerð sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur í samráði við félagsmálaráðherra að fengnum tillögum tryggingaráðs.

5. gr.


    Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.

6. gr.


    Heimilt er að greiða hverjum þeim, sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, bætur í sex mánuði eftir lát maka, 15.448 kr. á mánuði.
    Ef hlutaðeigandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri er heimilt að greiða bætur í 12 mánuði til viðbótar, 11.583 kr. á mánuði.

7. gr.


    Heimilt er að greiða konu, sem lögheimili á hér á landi og orðin var 50 ára við lát mannsins, ekkjulífeyri til 67 ára aldurs, enda hafi hún átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða hinn látni hafi átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin áður en hann lést.
    Ekkjulífeyrir miðast við aldur konunnar þegar lífeyrisréttur stofnaðist og lögheimilistíma þess hjónanna sem lengri réttindatíma átti. Við ákvörðun lögheimilistímans skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs. Sé lögheimilistíminn a.m.k. 40 ár og aldur konunnar a.m.k. 60 ár greiðist fullur lífeyrir. Fyrir hvert ár eða brot úr ári, sem vantar í 60 ára aldur, lækkar lífeyririnn um 5%. Sé lögheimilistíminn skemmri en 40 ár greiðist hlutfallslega lægri ekkjulífeyrir.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu, eftir því sem við getur átt, einnig gilda um ekkjur, fráskildar konur og ógiftar mæður ef þær eru orðnar 50 ára þegar þær hætta að taka barnalífeyri eða meðlag.
    Heimilt er að veita ekkju ekkjulífeyri frá 50 ára aldri þótt hún hafi verið yngri er maður hennar lést, enda hafi hjónabandið staðið a.m.k. 20 ár.
    Ekkjulífeyrir fellur niður ef ekkja gengur í hjónaband eða tekur upp óvígða sambúð.
    Fullur árlegur ekkjulífeyrir skal vera 147.948 kr.

8. gr.


    Heimilt er þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í 18 mánuði. Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir. Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og grunnlífeyrir örorkulífeyris ásamt tekjutryggingu. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.

9. gr.


    Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót 7.711 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.
     Ef einhleypingur hefur eingöngu tekjur úr lífeyristryggingum almannatrygginga skal hann til viðbótar við heimilisuppbót eiga rétt á sérstakri heimilisuppbót 5.304 kr. á mánuði.

10. gr.


    Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess.

11. gr.


    Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunarbótaþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.
    Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.

12. gr.


    Nú verða útgjöld sjúkratryggðs vegna læknishjálpar og lyfja umtalsverð og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að endurgreiða hlutaðeigandi þennan kostnað að hluta eða að fullu að teknu tilliti til tekna og í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur.
    Sjúkratryggingadeild annast endurgreiðslur samkvæmt þessari grein.

13. gr.


    Ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur með reglugerð sett frekari ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögum þessum.

14. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og EES-samningurinn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er fylgifrumvarp frumvarps til laga um almannatryggingar og er nú lagt fram öðru sinni. Frumvarpið var lagt fram á 116. löggjafarþingi en fékk þá ekki afgreiðslu.     Vegna reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar er nauðsynlegt að gera glöggan greinarmun á bótum almannatrygginga og félagslegri aðstoð. Í frumvarp þetta hafa því verið flutt þau ákvæði lífeyristryggingakafla almannatrygginga sem eru í raun ákvæði um félagslega aðstoð. Greinarnar eru samhljóða þeim ákvæðum almannatryggingalaga sem um viðkomandi aðstoð fjölluðu að öðru leyti en því að þetta frumvarp gerir alls staðar ráð fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er talið upp hvaða stuðningur það er sem telst til félagslegrar aðstoðar. Tekið er fram að bæturnar séu eingöngu greiddar þeim sem lögheimili eiga hér á landi. Þá er ákveðið að lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins skuli annast afgreiðslu umsókna um félagslega aðstoð. Loks er skýrt tekið fram að kostnaður af þessum stuðningi sé fjármagnaður af ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga og fjáraukalaga hverju sinni.

Um 2. gr.


    Samhljóða 16. gr. laga um almannatryggingar (var 15. gr. áður en ákvæði um umönnunarbætur var bætt inn í lögin) eins og henni var breytt með lögum nr. 104/1992.

Um 3. gr.


    Greinin er samhljóða lokamálsgrein 15. gr. laga um almannatryggingar að öðru leyti en því að bætt hefur verið inn ákvæði um heimild tryggingaráðs til að úrskurða barnalífeyri með ungmenni í námi ef ókleift er að innheimta greiðslur samkvæmt úrskurði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. barnalaga, nr. 20/1992.

Um 4. gr.


    Samhljóða 13. gr. laga um almannatryggingar eins og henni var bætt inn nýrri með lögum nr. 79/1991.

Um 5. gr.


    Samhljóða 14. gr. laga um almannatryggingar (var 13. gr. áður en ákvæði um umönnunarbætur var bætt inn í lögin).

Um 6. gr.


    Samhljóða 18. gr. laga um almannatryggingar (var 17. gr. áður en ákvæði um umönnunarbætur var bætt inn í lögin).

Um 7. gr.


    Samhljóða 19. gr. laga um almannatryggingar (var 18. gr. áður en ákvæði um umönnunarbætur var bætt inn í lögin). Þó er bætt inn að ekkjulífeyrir falli niður ef kona tekur upp óvígða sambúð. Samkvæmt gildandi lögum fellur ekkjulífeyrir einungis niður við hjúskap.

Um 8. gr.


    Samhljóða 2. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar.

Um 9.–11. gr.


    Samhljóða 3.–5. mgr. 20. gr. (var 19. gr. áður en ákvæði um umönnunarbætur var bætt inn í lögin) laga um almannatryggingar.

Um 12. gr.


    Með breyttum reglum um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra geta útgjöld í undantekningartilvikum orðið veruleg. Til að tryggja að þessi útgjöld verði aldrei fjárhagsleg ofraun fyrir sjúkratryggða er hér sett heimildarákvæði um endurgreiðslu TR á þessum kostnaði að hluta eða að fullu. Gert er ráð fyrir að tekið sé tillit til tekna við mat á þessu atriði og að öðru leyti sé fylgt reglum sem ráðherra setur. Sambærilegu ákvæði var bætt við 43. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum með lögum nr. 74/1993.

Um 13. gr.


    Gert er ráð fyrir að ákvæði laga um almannatryggingar, svo sem um umsókn bóta, afgreiðslu og hækkun, gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um félagslega aðstoð.


    Frumvarpið er fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um almannatryggingar. Það er að mestu samhljóða samsvarandi greinum í gildandi almannatryggingalögum sem ætlunin er að gera að heimildarákvæðum. Aðgreining félagslegra bóta er talin nauðsynleg vegna samnings um EES og veldur því að bætur verða ekki greiddar þegar lögheimili er flutt til annars ríkis. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 1992 voru bætur, sem falla undir frumvarpið, tæplega 3,4 milljarðar af 15 milljarða útgjöldum lífeyristrygginga Tryggingastofnunar ríkisins. Ef rétt er að staðið á frumvarpið að hafa í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð þar sem meira eftirlit verður með útgreiðslu félagslegra bóta. Til þess að svo megi verða þarf að setja skýrar reglur um greiðslu bóta og hvaða bætur almannatrygginga megi fara saman. Það er stefna stjórnvalda og er reiknað með 75 m.kr. sparnaði í fjárlögum 1993 m.a. vegna þessarar breytingar.