Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 114 . mál.


119. Tillaga til þingsályktunar



um hvalveiðar.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Matthías Bjarnason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að hvalveiðar geti hafist næsta sumar á grundvelli rannsókna Hafrannsóknastofnunar á stærðum og veiðiþoli hvalastofna.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt. Sjávarútvegsnefnd Alþingis hafði tillöguna til meðferðar og fékk jákvæðar umsagnir fjölmargra aðila sem leitað var til. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu vegna anna á síðustu dögum þingsins.

Ný viðhorf.
    Margt bendir til að nú sé að verða viðhorfsbreyting til hvalveiða þar sem andstaðan við veiðarnar hefur verið mest. Nýlega skoruðu samtök þingmanna beggja flokka á Bandaríkjaþingi á Clinton forseta að fallast á hvalveiðar sem samrýmast vísindalegum athugunum á ástandi hvalastofna. Í samtökunum eru tæplega 200 af 535 þingmönnum í báðum deildum Bandaríkjaþings. Samtökin telja eðlilegt að nýta hvers konar dýrategundir til fæðu og mótmæltu því í sumar við Ron Brown viðskiptaráðherra að Bandaríkin skyldu falla frá þeirri reglu á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins að nýting dýra til fæðu skuli grundvallast á vísindalegum niðurstöðum. Þetta sé hin almenna stefna Bandaríkjanna í umhverfismálum en ekki innan Alþjóðahvalveiðiráðsins.
    Talsmaður samtakanna segir að þetta sé í fyrsta sinn sem nokkur þinghópur hafi uppi önnur sjónarmið en þeir sem krefjist algjörs hvalveiðibanns og að samtökin álíti að Bandaríkin eigi ekki að leggjast gegn hvalveiðum sem einhverju öðru ríki þyki réttmætar, byggt á vísindalegum niðurstöðum.
    Þá féll Bandaríkjaforseti frá því í byrjun október að beita Norðmenn viðskiptaþvingunum vegna hrefnuveiða þeirra síðasta sumar. Í yfirlýsingu hans kemur fram að Bandaríkin styðji dyggilega lausnir á friðunarmálum sem byggðar eru á vísindalegum grunni um allan heim.
    Í ályktun 44. þings Evrópuráðsins, sem haldið var í september–október 1993, kemur eftirfarandi m.a. fram:
    Þingið er þeirrar skoðunar að sjálfbærar aðferðir til stjórnunar á fjölþættri nýtingu auðlinda hafsins, þar á meðal sjávarspendýra, skuli byggjast á nákvæmri þekkingu og skilningi á viðkomandi sjávarvistkerfum.
    Þingið hvetur ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins, aðrar ríkisstjórnir sem málið varðar svo og Evrópubandalagið til þess að þróa og/eða bæta alþjóðleg og svæðisbundin lagakerfi til verndunar og sjálfbærrar stjórnunar á öllum tegundum sjávarspendýra (stórhvela og smáhvela, rostunga og sela) og til þess að gera þá kröfu að þjóðir, sem gefa út leyfi til veiða á sjávarspendýrum, tryggi jafnframt að veiðiaðferðir fullnægi kröfum um mannúðlegar drápsaðferðir eða fari eins nálægt því og unnt er; rannsókna- og þróunarstarfsemi ætti að auðvelda að þetta markmið náist.

Forsaga.
    Hvalveiðar í atvinnuskyni voru stundaðar við strendur Íslands á hverju sumri árin 1948–1985, en þá gekk í gildi tímabundið veiðibann samkvæmt ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins. Næstu fjögur sumur, 1986–1989, voru stundaðar takmarkaðar hvalveiðar í samræmi við fjögurra ára rannsóknaáætlun, en síðan hafa Íslendingar engar hvalveiðar stundað enda bann hvalveiðiráðsins enn í gildi og fátt sem bendir til annars en að svo verði áfram.

Ályktanir alþjóðasamtaka.
    Í viðauka við sáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins segir:
    „Hvalveiðar í atvinnuskyni skulu leyfðar á hvalastofnum sem eru í jafnvægi og þær skulu stundaðar í samræmi við tillögur vísindanefndarinnar.“
    Stefna og starfshættir hvalveiðiráðsins hafa verið með þeim hætti á undanförnum árum að þessi markmið hafa verið gjörsamlega sniðgengin. Hvalveiðiráðið hefur á undanförnum árum orðið að eins konar hvalfriðunarstofnun.
    Á síðasta ári gekk Ísland úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og í framhaldi af því voru stofnuð samtökin Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið (NAMMCO) sem eru svæðisbundin samtök um verndun og stjórnun nýtingar hvala- og selastofna, en að þeim standa auk Íslands Noregur, Færeyjar og Grænland.
    Íslendingar eru aðilar að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, en í 65. gr. samningsins segir m.a.:
    „Ríki skulu starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skulu hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.“
    Stofnun NAMMCO var því nauðsynleg til að stjórna skynsamlegri nýtingu hvalastofna í Norður-Atlantshafi.
    Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro sumarið 1992, var samþykkt að reglur um sjálfbæra nýtingu skuli gilda bæði um fiskstofna og sjávarspendýr með þeim takmörkunum að ekki verði veitt úr þeim stofnum sem taldir eru í hugsanlegri útrýmingarhættu.

Ástand hvalastofna.
    Samfara ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni var ákveðið að efna til heildarúttektar á ástandi hvalastofna heims. Í samræmi við þetta ákváðu íslensk stjórnvöld að efna til hvalveiða í vísindaskyni 1986–1990. Rannsóknir þessar miðuðust við að efla þekkingu á ástandi og veiðiþoli hvalastofna við Ísland og kanna þátt stórra og smárra hvala í lífkerfi hafsvæðisins hér við land. Þær fólust m.a. í skipulegri talningu hvala árin 1986, 1987 og 1989. Við talninguna fengust miklar upplýsingar um útbreiðslu hvala og stærð hvalastofna á rannsóknasvæðinu, ekki síst hvalastofna sem nýttir hafa verið hér við land á undanförnum áratugum. Þessar rannsóknir, sem gerðar voru í samstarfi við aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf, leiddu m.a. í ljós eftirfarandi niðurstöður:
    Um 28.000 hrefnur voru á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af tæpur helmingur á íslenska strandsvæðinu.
    15.600 langreyðar voru á hafsvæðinu Austur-Grænland — Ísland — Jan Mayen, þar af um 8.900 langreyðar á svæðinu milli Austur-Grænlands og Íslands, norðar 50°N.
    10.800 sandreyðar voru á leitarsvæði íslensku skipanna.
    Tæplega 2.000 hnúfubakar voru á íslenska hafsvæðinu.
    Vegna sérstakrar köfunarhegðunar búrhvals liggja ekki fyrir áreiðanlegir útreikningar á fjölda dýra. Eftir talningar 1987 og 1989 telja sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar vafalítið að búrhvalir skipti nokkrum þúsundum á íslenska talningarsvæðinu.
    Af framansögðu má ljóst vera að mikil hvalamergð er í hafinu við Ísland og hefur þeim vafalaust fjölgað verulega á þeim 4–6 árum sem liðin eru síðan talning fór fram.
    Það er því augljóst að Íslendingum er ekki bara óhætt, heldur nauðsynlegt, að hefja hvalveiðar að nýju til að raska ekki frekar en orðið er lífkerfi hafsins. Til langtíma séð hlýtur offjölgun hvala að bitna á fiskstofnum og valda samdrætti í fiskveiðum, en talið er að árleg neysla þeirra nemi meira í tonnum talið en heildarársafli Íslendinga.

Mikilvægi hvalveiða og atvinna af veiðum og vinnslu.
    Framleiðsluverðmæti hvalaafurða árin 1980–1985 námu að meðaltali 1.228 millj. kr. á ári, reiknað á verðlagi í september 1993, sjá fskj. I. Þá var hlutfall hvalaafurða á bilinu 1,5–2,5% af útflutningsverðmæti sjávarafurða 1980–1985, sjá fskj. II.
    Samkvæmt samantekt Byggðastofnunar nam aflaverðmæti hrefnuveiðibáta, sem voru níu talsins, á árunum 1980–1985 að meðaltali 132 millj. kr. á ári á verðlagi í september 1993.
    Síðasta árið, sem hvalveiðar voru stundaðar í atvinnuskyni, árið 1985, störfuðu um 250 manns hjá Hval hf. á hvalvertíðinni. Hér var um að ræða áhafnir hvalveiðibátanna, starfsmenn í hvalstöðinni í Hvalfirði og starfsmenn frystihúss Hvals hf. í Hafnarfirði. Eru þá ótaldir þeir sem stunduðu veiðar og vinnslu á hrefnu. Alls voru um 150 ársverk við veiðar og vinnslu hvals árið 1985.

Ályktanir.
    Mörg stór samtök á vinnumarkaðnum hafa eindregið hvatt til þess að hvalveiðar hefjist á ný. Meðal þeirra sem sendu frá sér ályktanir þar að lútandi haustið 1991 voru: Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Verkamannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna og fiskiþing.
    Þá ályktaði Alþýðusamband Íslands um hvalveiðar á þingi sínu í nóvember 1992, sjá fskj. III.



Fylgiskjal I.


Þjóðhagsstofnun:


Hvalaafurðir árin 1975–1989.



Framleiðslu-

Verðmæti

Verðmæti


Magn,

verðmæti,

Meðalverð

m.v. meðalv.

Framfærslu-

m.v.framf.v.


tonn

kr.

útflutn.

nóv. 1991

vísitala

nóv. 1991




1975     
6.887,3
5,31 0,71 1.033,10 1,41 602,68
1976     
7.617,3
7,46 0,94 1.142,60 1,86 641,81
1977     
6.490,6
9,66 1,45 973,59 2,43 636,15
1978     
7.501,5
16,22 2,33 1.125,23 3,50 741,34
1979     
9.010,5
32,40 3,91 1.351,58 5,09 1.018,50
1980     
8.227,2
48,93 5,98 1.234,08 8,07 970,15
1981     
8.039,2
77,50 9,34 1.205,88 12,17 1.018,93
1982     
6.913,7
124,13 16,58 1.037,06 18,38 1.080,54
1983     
5.184,4
314,13 50,63 777,66 33,86 1.484,38
1984     
6.071,9
379,77 77,43 910,79 43,74 1.389,18
1985     
5.171,6
363,05 56,53 775,74 57,99 1.001,70
1986     
3.092,9
205,62 65,43 463,94 70,22 468,51
1987 Birgðabreyting     
1.821,7
86,94 107,69 273,26 83,40 166,79
1988 Birgðabreyting     
1.605,4
183,89 114,54 240,81 104,60 281,28
1989 Birgðabreyting     
1.112,0
28,63 118,80 166,80 126,70 36,15
1990     
0,00 145,50 0,00
nóv. 1991     
150,00 0,00 160,00 0,00
sept. 1993     
169,80






Fylgiskjal II.


Þjóðhagsstofnun:


Útflutningsframleiðsla sjávarafurða á verðlagi hvers árs (í millj. kr.).


(13. nóvember 1991.)



(Repró á síðu 3133 í 12. hefti 1992.)




Útflutningsframleiðsla sjávarafurða á verðlagi hvers árs.


Hlutfallsleg skipting eftir vinnslugreinum.


(13. nóvember 1991.)



(Repró á síðu 3134 í 12 hefti 1992.)


Fylgiskjal III.



Ályktun um hvalveiðar,


samþykkt á 37. þingi Alþýðusambands Íslands


á Akureyri í nóvember 1992.



    37. þing ASÍ skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér nú í vetur fyrir því að hafnar verði hvalveiðar og vinnsla á afurðum á Íslandi á næstu vertíð að sumri.
    Í hvalstöðinni í Hvalfirði og reyndar víðar, þar sem t.d. hrefnuveiðar hafa verið stundaðar, leynast tugir atvinnutækifæra fyrir íslenskt verkafólk að ógleymdum þeim útflutningstekjum sem þessar afurðir geta skilað til ríkis og sveitarfélaga. Að láta slík tækifæri liggja milli hluta er hreint forkastanlegt og því skorar þingið á alla sem geta beitt sér í málinu að taka undir og knýja það fram.



Fylgiskjal IV.


UMSAGNIR UM TILLÖGUNA Á 116. LÖGGJAFARÞINGI



Umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.


(13. apríl 1993.)



    Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, FFSÍ, hefur borist beiðni til umsagnar um framangreinda tillögu til þingsályktunar frá sjávarútvegsnefnd Alþingis.
    FFSÍ styður einregið umrædda þingsályktunartillögu. Í þessu sambandi vilja samtökin árétta eftirfarandi samþykkt sem var gerð á sl. hausti:
    Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, haldin í Neskaupstað 11. og 12. nóvember 1992, skorar á stjórnvöld að leyfa hvalveiðar þegar á næsta ári. Ákvörðun um veiðikvóta verði gefin út fyrir lok vetrarvertíðar 1993 um þær tegundir hvala sem talið er að nýta megi innan skynsamlegra marka. Leitað verði samþykkis hjá NAMMCO eða hjá einstökum þjóðum við Norður-Atlantshafið vegna veiðanna.


Umsögn Félags hrefnuveiðimanna.


(2. apríl 1993.)



    Félag hrefnuveiðimanna fagnar fram kominni tillögu og lýsir sig sammála henni. Hins vegar vill félagið taka fram að tillagan hefði betur verið flutt af fulltrúum allra þingflokka því hér er um mikilvægt mál að ræða. Félagið skorar á flutningsmenn tillögunnar að vinna þannig að málinu að breið samstaða á þingi náist um tillöguna.



Umsögn Íslenskra sjávarafurða hf.


(13. apríl 1993.)



    Jörðin, þar sem fimm milljarðar manna búa, hefur sín takmörk. Ekki er ljóst hve mikinn mannfjölda hún getur fætt, án þess að gengið sé of nærri gæðum hennar, án þess að gæði hennar gangi til þurrðar og líf fái varla þrifist. Hollenskur vísindamaður hefur nýlega giskað á að jörðin geti borið 2 1 / 2 milljarð manna án þess að lífríkið þurfi að raskast. Þessi tala er sjálfsagt eins góð og hver önnur því að litlu má gilda hvort jörðin ber tvo milljarða manna, fjóra, sex eða átta. Sú stund er upprunnin að ekki verður hjá því komist að umgangast náttúruna á allt annan hátt en gert hefur verið.
    En engu að síður er líklegast að með þeim fimm milljörðum manna, sem nú búa á jörðinni, séum við komnir langt fram úr því sem jörðin þolir, að öðru óbreyttu. Það gengur ört á gróður jarðar, ekki síst á skóglendið. Gróðurinn er víða píndur til afraksturs með gerviefnum og eiturefnum sem menga höf og lönd. Húsdýr eru pínd til afraksturs, sú kýrin er verðmætust sem hægt er að knýja til mestrar framleiðslu. Kjúklingar eru lokaðir inni í búrum sem eru ekki stærri en svo að þeir geta sig ekki hreyft. Það er vísindalega sannað að þannig fer næstum öll þeirra orka í kjötframleiðslu. Og vísindunum er beitt í því skyni. En hvenær gerir náttúran uppreisn? Hvenær verður gróðurmoldin orðin snauð og getur ekki meira? Hvenær hafa húsdýrin úrkynjast svo að þau geti ekki meira? Hvað geta margir lifað á jörðinni þegar svo er komið? Jafnframt hefur meira og meira verið sótt í sjóinn á síðustu tímum. Víða eru áður fengsæl fiskimið uppurin af ofveiði. Annars staðar nálgast óðfluga mörkin að ofveiði. Það liggur því í augum uppi að að öðru óbreyttu geta 5 milljarðar manna ekki lifað á jörðinni til langframa. Og á meðan lítið er aðhafst til úrbóta stefnir mannkynið hröðum skrefum í 10 milljarða.
    Það má hverjum manni vera ljóst að stærsta vandamál mannkynsins verður að halda mannfjölguninni í skefjum. Hvort sem nauðsynlegt verður að mannkyninu fækki frá því sem nú er, eða því má fjölga um einhverja milljarða til viðbótar samhliða betri nýtingu náttúrugæða, er nú sú stund upprunnin að ekki verður hjá því komist að hugsa alvarlega um samspil náttúrunnar, hvernig komið verði að nýju á því jafnvægi sem hefur raskast. Jafnvægi náttúrunnar er sannarlega ekki fólgið í að alfriða dýrategundir sem ekki eru í útrýmingarhættu. Til þess að viðhalda jafnvægi náttúrunnar þarf að hyggja að öllum þáttum, samspili allra dýra og gróðurs, alls þess sem lifir.
    Það stendur hvergi skrifað: „Verið frjósöm og yfirfyllið jörðina.“ Yfirfyllist jörðin leiðir það til meiri átaka en mannkynið hefur upplifað fram að þessu og hefur það þó mátt þola ýmislegt. En hörmungarnar verða meiri en nokkru sinni fyrr, framtíð mannsins verður skelfileg. Það hlýtur að verða verkefni mannsins sjálfs að freista þess að koma í veg fyrir slíkt. Og vonandi tekst það. En það gerist ekki fyrirhafnarlaust. Til þess þarf meira en óskhyggju. Til þess þarf meira en mislukkaða samúð með stórum og greindum dýrum. Við hljótum að spyrja: Getur það mannkyn, sem þarf að takast á við þetta risavaxna verkefni, leyft sér að taka einn þáttinn í samspili náttúrunnar undan og segja að við ákveðnum dýrum megi ekki hrófla, hvað sem á gangi? Auðvitað ekki. Það verður að halda fjölda hvala innan ákveðinna marka eins og það verður að halda fjölda manna innan ákveðinna marka. Að þessu leyti verður eitt yfir allt líf á jörðinni að ganga.
    Af þessu má vera ljóst að umhverfisvernd verður eitt brýnasta verkefni mannkynsins um fyrirsjáanlega framtíð. Umhverfisvernd sem miðar að því að koma í veg fyrir að náttúran spillist, að náttúrugæði eyðist, sem miðar að því að náttúran raskist ekki, mannfjölda verði haldið innan ákveðinna marka, fjölda dýra verði einnig haldið í skefjum, engu verði útrýmt. Nú hefur það gerst að upp hafa sprottið hópar manna sem kenna sig við umhverfisvernd og hafa fengið mikla samúð og peninga fólks sem hefur réttilega á tilfinningunni að margt sé að fara úrskeiðis í heiminum, fólks sem veit ekki betur en að þessir hópar vinni af heilindum að raunverulegri umhverfisvernd. En fæstir í þessum hópum virðast hafa nauðsynlega yfirsýn. Þeir eru sjaldnast í eðlilegum tengslum við náttúruna, borgarbúar sem þykir ógeðslegt að drepa dýr og sætta sig ekki við að önnur dýr séu drepin en þau sem þeir éta sjálfir. Um þau dýr er þagað. Þeir gera sér harla litla grein fyrir að lífið er grimmt, líf nærist á lífi. Þannig er hringrás lífsins.
    Þeir sem vinna að raunverulegri umhverfisvernd verða að vinna bug á sjónarmiðum þessara hópa, eyða áhrifum þeirra, draga fram í dagsljósið að viðhorf þeirra og verk eru fjandsamleg þeirri umhverfisvernd sem mannkyninu er nauðsynleg til þess að lifa af.
    Hvalveiðar geta skipt Íslendinga miklu máli efnahagslega. Af þeim má hafa nokkrar gjaldeyristekjur og þær gætu veitt álitlegum hópi manna vinnu. Vissulega er þörf á hvoru tveggja, en það hefur engin úrslitaáhrif um lífskjör hér á landi. Áhrif hvala og þar með hvalveiða á fiskveiðar geta hins vegar skipt sköpum. Og það hefur úrslitaáhrif á lífskjör hér á landi, sem og annars staðar í heiminum, að hvalur sé veiddur að því marki að lífríkinu sé haldið í jafnvægi. Þingsályktunartillaga, sem stefnir að því marki, fær því fullan stuðning.
    Það er ljóst að miðað við ríkjandi viðhorf í heiminum getur farið svo að ef Íslendingar hefja hvalveiðar að nýju verði reynt að koma höggi á þá og skaða efnahagslega. Það hlýtur að verða eitt meginverkefni íslenskra stjórnmála að koma í veg fyrir að svo verði. Höfuðverkefnið hlýtur að verða að sýna öðrum þjóðum fram á hvað muni gerast ef ekki verður fundið og viðhaldið jafnvægi í náttúrunni, hvað muni gerast ef sofið er á verðinum og einhverjir verði látnir komast upp með að raska jafnvægi náttúrunnar í nafni umhverfisverndar. Það hlýtur að verða að fletta ofan af falsspámönnum í umhverfismálum og sýna jafnframt fram á hvað sé raunveruleg umhverfisvernd og gerast boðendur hennar og baráttumenn. Það þolir varla nokkra bið.


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(15. apríl 1993.)



    Við höfum móttekið bréf ykkar, dags. 24. mars sl., þar sem okkur er send til umsagnar tillaga til þingsályktunar um hvalveiðar.
    Á fundi stjórnar LÍÚ í dag var samþykkt að mæla með samþykkt tillögunnar. Allar rannsóknir sýna að æskilegt er að hefja að nýju nýtingu hvalastofna við landið.
    Allt bendir til að hvalamergð hafi aukist verulega við landið. Af ummælum sjómanna að dæma er hér um verulega röskun á lífríkinu í sjónum að ræða. Því er nauðsynlegt að hefja nýtingu þessarar auðlindar að nýju þar sem ráðum Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt um fjölda þeirra hvala sem veiða má.
    Stjórn LÍÚ hafnar því að öfgasamtök fái ráðið nýtingu hvalastofna við landið. Þau virðast hafa sett sér þau markmið að ekki eigi að hagnýta hvalastofna og hvalir verði aldrei veiddir framar.



Umsögn Landssambands smábátaeigenda.


(13. mars 1993.)



    Landssamband smábátaeigenda hefur fengið til umsagnar þingsályktunartillögu um hvalveiðar.
    Landssamband smábátaeigenda lýsir yfir ánægju sinni við framkomna þingsályktunartillögu.
    Undanfarin ár hefur LS ávallt ályktað um hvalveiðar á aðalfundum sínum, nú síðast á þingi sínu sem haldið var 26. og 27. október 1992. Hjálögð þingsályktunartillaga tekur mjög undir þau sjónarmið er þar koma fram.
    Til frekari áréttingar um afstöðu LS til nýtingar sjávarspendýra og sela fylgja hér með aðalfundarsamþykktir um þau málefni frá þingum LS frá 1991 og 1992.

    7. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík 1. og 2. nóvember 1991, samþykkir eftirfarandi:
D)     Um veiðar og rannsóknir á hvölum og selum ályktar LS eftirfarandi:
    LS skorar á hæstvirtan sjávarútvegsráðherra að leyfa hrefnuveiðar á næsta ári, þó aðeins til neyslu innan lands, en sá markaður er áætlaður um 100 dýr, miðað við fyrri reynslu.
    LS skorar á sjávarútvegsráðherra og Hafrannsóknastofnun að taka inn í fjölstofna rannsóknir á selum sérstakar rannsóknir á blöðrusel og einnig áhrif búrhvals á grálúðustofninn.
    Samkvæmt rannsóknum hringormanefndar hefur útsel fjölgað óeðlilega mikið, einnig étur útselur milljóna tugi af ungfiski. LS skorar á sjávarútvegsráðherra að láta þegar í stað fækka útsel niður í sömu stofnstærð og var fyrir offjölgun stofnsins.

Greinargerð.
    Ljóst er að hrefnu hefur fjölgað mjög mikið við landið. Sjómenn hafa séð hvernig hrefnur elta uppi og gleypa í sig seiðatorfur sem sjást á yfirborði. Hér er um að ræða loðnuseiði, sandsíli og smásíld.
    Þá er ljóst að blöðruselur gerir verulegan usla í þorski og karfa fyrir Norðurlandi. Er nú svo komið að hópar blöðrusela halda til við landið nær allt árið. Fiskur, sem verður á vegi þessara sela, flýr til hafs, bæði hrygningarfiskur svo og annar fiskur. Blöðruselur étur helst ekki fiskinn en bítur gat á kviðarhol hans og sogar út lifur og hrogn eða svil.
    Vegna mikillar fjölgunar á búrhval á grálúðuslóðinni er nauðsynlegt að hefja rannsókn á því hvort búrhvalurinn éti úr grálúðustofninum.
    Útsel hefur fjölgað úr sem næst 2.000 fullorðnum dýrum í 12–13.000 fullorðin dýr. Slík offjölgun hlýtur óhjákvæmilega að skaða vistkerfið og er líkleg til að hafa mjög óæskileg áhrif á stærð fiskstofnanna.

Nýting hvala og selveiðar.


    8. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn 26. og 27. október 1992, styður ríkisstjórn Íslands í þeirri ákvörðun að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsspendýraráðið.
    Landssamband smábátaeigenda skorar á stjórnvöld að svo fljótt sem unnt er verði hafin nýting hvala innan íslensku efnahagslögsögunnar.
    Þá verði jafnframt hafin stóraukin selveiði við landið.

Greinargerð.
    Varla þarf að fara mörgum orðum um þá fjölgun hvala sem orðið hefur undanfarin ár. Átök á alþjóðavettvangi hafa leitt til þess að nýting þessarar auðlindar hefur lagst af. Nú er hins vegar svo komið að Ameríkumarkaðurinn hefur orðið fyrirferðarminni í markaðssamsetningu okkar, en þar hafa öfgafull náttúruverndarsamtök átt auðveldast uppdráttar.
    Þótt landsel fari lítillega fækkandi er hins vegar ljóst að hann tekur til sín verulegt magn af nytjafiski, gengur illa um mat sinn og til eru rækilegar sannanir þess að fækkun sela minnkar vandamál vegna hringorms í fiski.


Umsögn Náttúruverndarráðs.


(4. maí 1993.)



    Náttúruverndarráð vill stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Við hvalveiðar verður að fara með fyllstu aðgát og ganga ekki á hvalastofna eins og gerst hefur víðast hvar í heiminum.
    Hvalveiðar við Ísland hafa verið stundaðar í alþjóðasamvinnu innan Alþjóðahvalveiðiráðsins síðan 1948. Íslendingar gerðust m.a. aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu í þeim tilgangi að tryggja að hvalastofnar gæfu af sér langvarandi afrakstur með veiðum. Ísland hefur enn fremur ítrekað, með undirritun alþjóðahafréttarsáttmálans, þá skoðun sína að hvali beri að nýta í alþjóðasamvinnu og að ríki skuli vinna saman að verndun þeirra, enda er hér um flökkustofna að ræða sem dveljast við Ísland aðeins hluta ársins.
    Ísland sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992, en gerðist stofnaðili að Sjávarspendýraráði Norður-Atlantshafs (NAMMCO). Sjávarspendýraráðið hefur ekki hlotið alþjóðaviðurkenningu og hefur ekki sóst eftir að stjórna veiðum stórhvela, enda fer Alþjóðahvalveiðiráðið með þessi mál fyrir hönd annarra aðildarlanda.
    Komi til hvalveiða aftur verður að gæta þess að skynsamlega sé farið að veiðunum og að stofnarnir minnki ekki niður fyrir þá stærð að afrakstur þeirra minnki og tryggja verður að veiðistjórn hvalastofna sé í höndum viðurkenndrar alþjóðastofnunar.

Umsögn Sjómannasambands Íslands.


(15. apríl 1993.)



    Sjómannasamband Íslands styður þingsályktunartillöguna, enda er hún í samræmi við stefnu sambandsins í þessum málum.
    Síðast var ályktað um hvalveiðar á 18. þingi Sjómannasambands Íslands sem haldið var dagana 28.–30. október 1992. Ályktunin var þannig: „18. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að hafnar verði hvalveiðar strax á næsta ári.“
    Sjómannasamband Íslands telur að ekki megi draga öllu lengur að hefja hvalveiðar hér við land þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið, bæði hvað varðar atvinnu og efnahag þjóðarinnar.


Umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.


(14. apríl 1993.)



    Að beiðni sjávarútvegsnefndar Alþingis hefur stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna fjallað um þingsályktunartillögu um hvalveiðar og komist að eftirfarandi niðurstöðu:
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að í baráttu fyrir óskoruðum yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni beittu Íslendingar óspart vísindalegum rökum og áliti vísindamanna, bæði íslenskra og erlendra. Sigurinn, sem vannst með 200 mílna fiskveiðilögsögunni og alþjóðlegu hafréttarlögunum byggðist ekki hvað síst á þessum stuðningi vísindanna og þeim augljósu sannindum að þeim sem þurfa að lifa af auðlindinni er best trúandi til að umgangast hana með varúð og freista þess að hafa af henni hámarksafrakstur án þess að ganga á hana og tefla þar með framtíð sinni í voða. Sérstaklega á þetta við um okkur Íslendinga sem að yfirgnæfandi meiri hluta byggjum afkomu okkar á afrakstri fiskimiðanna og munum verða að gera um fyrirsjáanlega framtíð.
    Flest rök hníga að því að eftir langvarandi hvalveiðibann hafi jafnvægi í lífríki hafsins umhverfis Ísland verið raskað og samkeppnin við sjávarspendýrin um fæðuna aukist til muna.
    Með úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, sem tók gildi um mitt síðasta ár og þátttöku í stofnun nýrra samtaka um stjórnun á veiði sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi, er því eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé tímabært að Íslendingar hefji hvalveiðar að nýju.
    Barátta ýmissa erlendra og alþjóðlegra náttúruverndarsamtaka fyrir algerri friðun sjávarspendýra er þegar orðin alvarleg ógnun við fiskveiðar okkar og verslun með sjávarafurðir.
    Stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna er sér fyllilega meðvituð um efnahagsleg og vistfræðileg rök fyrir því að hvalveiðar verði hafnar að nýju. En þegar höfð er í huga sú mikla andstaða sem Norðmenn hafa sætt á alþjóðavettvangi vegna fyrirhugaðra hrefnuveiða auk beinna viðskiptaþvingana er ekki óeðlilegt að sporin hræði. Íslendingar eru háðari útflutningi sjávarafurða en flestar aðrar þjóðir og því mjög auðvelt skotmark hvalfriðunarsamtaka. Stjórn SH leggur því mikla áherslu á að vegna mikilla viðskiptahagsmuna, sem í húfi eru, verði gætt fyllstu varúðar í þessu viðkvæma máli.


Umsögn Útvegsbændafélags Vestmannaeyja.


(7. apríl 1993.)



    Á stjórnarfundi í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja 6. apríl 1993 var einróma samþykktur stuðningur við tillögu til þingsályktunar um hvalveiðar.


Umsögn Útvegsmannafélags Austfjarða.


(13. apríl 1993.)



    Útvegsmannafélag Austfjarða styður áðurnefnda þingsályktunartillögu. Það hefur verið skoðun félagsins að við eigum að nýta okkur alla þá möguleika sem hafið í kringum landið býður upp á. Félagið hefur sent frá sér fjölmargar ályktanir um þetta mál.


Umsögn Útvegsmannafélags Norðurlands.


(31. mars 1993.)



    Á stjórnarfundi í Útvegsmannafélagi Norðurlands, sem var haldinn 30. mars 1993, var eftirfarandi samþykkt:
    Útvegsmannafélag Norðurlands telur að hvalastofnar við Ísland séu í harðri samkeppni um nytjastofna við landið og vistgrundvöll þeirra. Bendi rannsóknir til þess að veiðiþol hvalastofna réttlæti veiðar þá sé æskilegt að taka þær upp sem fyrst.
    Útvegsmannafélag Norðurlands er ekki í aðstöðu til að meta áhrif hvalveiða á sölumöguleika sjávarafurða, en leggur áherslu á að varlega verði farið í að taka áhættu í þeim efnum. Mikil nauðsyn er á að efla og kynna vísindalegar rannsóknir á hvalastofnum þannig að tilfinningaleg viðhorf ráði ekki ákvörðunum um eðlilega nýtingu sjávardýra svo sem hvala.


Umsögn Útvegsmannafélags Reykjavíkur.


(6. apríl 1993.)



    Stjórn Útvegsmannafélags Reykjavíkur lýsir sig samþykka þingsályktunartillögu um hvalveiðar og hefur átt þátt í því á fiskiþingi og á aðalfundum LÍÚ að hvetja til þess að hvalveiðar yrðu hafnar á ný undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar og í samræmi við veiðiþol hinna ýmsu hvalastofna. Það er von stjórnar Útvegsmannafélags Reykjavíkur að hið háa Alþingi styðji slíka nýtingu á hvölum eins og öðrum auðlindum hafsins í kringum Ísland.


Umsögn Útvegsmannafélags Suðurnesja.


(5. apríl 1993.)



    Á stjórnarfundi í Útvegsmannafélagi Suðurnesja 1. apríl sl. var tekið fyrir bréf sjávarútvegsnefndar frá 24. mars sl. um tillögu til þingsályktunar um hvalveiðar, flutningsmenn, Guðjón Guðmundsson og Matthías Bjarnason.
    Stjórn ÚFS styður fram komna þingsályktunartillögu og er í öllum atriðum sammála greinargerðinni sem henni fylgir.
    Stjórn ÚFS vill sérstaklega benda á að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir frekari röskun á lífríki hafsins en orðið er.


Umsögn Útvegsmannafélags Vestfjarða.


    Útvegsmannafélag Vestfjarða hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um hvalveiðar.
    Á fundi í félaginu 13. apríl var samþykkt að mæla með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu, enda verði þess gætt að kynna þetta mál rækilega með þeim hætti að fram komi að þessar veiðar byggjast á rannsóknum Hafrannsóknastofnunar undangenginna ára um stærð og veiðiþol hvalastofna.



Umsögn Útvegsmannafélags Þorlákshafnar.


(13. apríl 1993.)



    Félagið samþykkir framkomna þingsályktunartillögu, 308. mál, og vísar til aðalfundarsamþykktar ÚÞ frá 1. október 1992 þar sem félagið hvetur til að hvalveiðar verði hafnar að nýju.


Umsögn Vélstjórafélags Íslands.


(26. apríl 1993.)



    Vélstjórafélag Íslands tekur undir efni tillögunnar.