Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 151 . mál.


168. Tillaga til þingsályktunar



um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins í Reykjavík til sýslumannsembættanna.

Flm.: Gunnlaugur Stefánsson, Gísli S. Einarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er undirbúi flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins í Reykjavík til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni og stefna þannig að því að gera embættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði.

Greinargerð.


    Komið hafa fram hugmyndir um að fækka sýslumannsembættum og endurskoða staðsetningu þeirra í landinu. Mikilvægt er að ekki verði dregið úr þjónustu við fólkið á landsbyggðinni. Því telja flutningsmenn það forgangsmál að sýslumannsembættin á landsbyggðinni verði efld með flutningi nýrra verkefna til þeirra frá stjórnsýslustöðvum ríkisins í Reykjavík. Það mundi án efa styrkja búsetu og lífskjör á landsbyggðinni. Hlutverk nefndarinnar yrði því m.a. að gera tillögur um flutning ákveðinna verkefna.
    Telja má víst að slíkar ráðstafanir feli einnig í sér sparnað og hagræðingu fyrir ríkissjóð og styrki um leið þjónustu ríkisins við fólkið í landinu.
    Í skýrslu, sem stjórnskipuð nefnd um flutning ríkisstofnana út á land skilaði sl. sumar, er fjallað m.a. um nauðsyn þess að efla sýslumannsembættin sem stjórnsýslumiðstöð í héraði. Þar segir m.a.:
    „Á löngum ferli sýslumannsembætta hefur skipan þeirra og hlutverk tekið margvíslegum breytingum í tímans rás, eftir því sem efni og aðstæður hafa krafist. Síðast kom til grundvallarbreyting með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Það hefur skapað ný viðhorf í stjórnsýslu. Fyrri skipan var hemill á eðlilega þróun. Dómsvald í héraði var veikt vegna sambýlis við umboðsvaldið og það leiddi til að minni umboðsstörf voru fengin sýslumönnum í hendur en efni stóðu til. Nú er hins vegar brautin rudd svo að efla megi stjórnsýslu ríkisins í héraði með því að fela sýslumönnum aukin umboðsstörf frá því sem verið hefur.
    Verkefni sýslumanna greinast annars vegar í lögreglustjórn, ásamt öðrum störfum við að halda uppi lögum og rétti, og hins vegar í almenn umboðsstörf. Þannig hafa sýslumenn með höndum innheimtu á tekjum ríkissjóðs að því leyti sem hún er ekki falin sameiginlegum gjaldheimtum. Þeir fara og með tollstjórn, hver í sínu umdæmi utan Reykjavíkur, og umboð fyrir Tryggingastofnun ríkisins og umsjón sjúkratrygginga. Á sama hátt mælir ekkert gegn því að sýslumenn geti haft umboð fyrir aðrar ríkisstofnanir eftir því sem nauðsyn krefur til að koma á betri þjónustu og nánari samskiptum en verið hefur við fólkið úti á landi.
    Í þessum tilgangi má gera sýslumannsembættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði. Þannig gætu stofnanir ríkisins haft aðgang að sýslumönnum með framkvæmd sinna verkefna. Allt færi þetta samt eftir atvikum. Ríkisstofnanir eru eins mismunandi og þær eru margar. Sumar stofnanir kæmu ekki hér til greina, svo sem þar sem fyrir væri að fara sérstökum umboðsstjórnkerfum, eins og í heilbrigðis- og menntamálum. Stofnanir, sem varða eiginlega stjórnsýslu, kæmu hér til, fremur en þær sem fjölluðu um rannsóknir, ráðgjöf og áætlanagerð. Sömuleiðis væri hér frekar um að ræða stofnanir sem veita einstaklingsbundna þjónustu og útheimta tíð samskipti við þegnana heldur en þær stofnanir sem hafa fremur samskipti stórum og sjaldan við einstaka stjórnsýsluaðila, samtök og fyrirtæki. Allt kemur þetta til skoðunar.
    Þessi nýja skipan væri rakin leið til að stuðla að jöfnuði á aðstöðu þegnanna til að njóta þeirrar þjónustu sem ríkisvaldið lætur í té. Verkefni hinna almennu umboðsstofnana yrðu ekki síst fólgin í að miðla upplýsingum, veita fyrirgreiðslu, hafa á hendi afgreiðslu tiltekinna málaflokka og sinna svæðisbundnum viðfangsefnum fyrir hinar einstöku ríkisstofnanir. Ef til vill gætu slík viðfangsefni verið leyst af hendi að meira eða minna leyti með samræmingu og hagræðingu á öðrum störfum á sýsluskrifstofum, svo að hvorki kæmi til aukinn mannafli né húsnæði. Þar sem þetta kæmi ekki til gætu aukin umsvif, svo sem í sérhæfðum mannafla og tilheyrandi aðstöðu, haft í för með sér umtalsverðan kostnað. Er þá eðlilegt að hann sé greiddur af þeim stofnunum sem góðs njóta af, hliðstætt því sem gerist um önnur umboðsstörf sem sýslumenn fara nú með. Í þeim tilfellum þar sem stofnanir hafa sértekjur hljóta að gilda sömu reglur um útselda þjónustu, hvort heldur er í höfuðstöðvum eða hjá almennum umboðsstofnunum. En höfuðmáli skiptir að hin nýja skipan felur í sér hagkvæma og sveigjanlega aðferð til úrlausnar, eftir því sem efni og ástæður standa til hjá hverri stofnun. Um framkvæmd alla verður svo að mæla fyrir með almennri lagaheimild og reglugerðum, eftir því sem við á.
    Hér er ekki einungis um að ræða að flytja verkefni til umboðsvaldsins í héraði frá stofnunum ríkisins, heldur einnig frá sjálfum ráðuneytunum. Þar kæmu ekki síst til greina leyfisveitingar ýmiss konar, úrskurðarvald í vissum málum, margháttuð eftirlitsstörf og annað sem varðar eiginlega stjórnsýslu og betur á heima hjá svæðisbundnu umboðsvaldi í héraði en í miðstýringu stjórnarráðsins.
    Þessi skipan breytir engu um stöðuheiti og hlutverk sýslumanns við lögreglustjórn og meðferð skyldra mála. Sýslumenn heyra stjórnsýslulega undir dómsmálaráðherra, en lúta öðrum ráðherrum að því leyti sem þeir fara með mál sem ekki heyra undir dómsmálaráðherra.“