Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 196 . mál.


218. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973.


(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    1. mgr. 2. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Hæstarétt skipa níu dómarar. Forseti Íslands skipar hæstaréttardómara.

2. gr.


    2. mgr. 3. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Ef kærður er úrskurður sem varðar rekstur máls í héraði, kærumálið er skriflega flutt og það varðar ekki mikilvæga hagsmuni getur einn dómari skipað dóm í því. Annars skulu þrír dómarar skipa dóm í kærumáli nema sérstaklega standi á. Þrír dómarar geta enn fremur skipað dóm í einkamáli ef úrslit þess varða ekki mikilvæga hagsmuni að mati dómsins. Þá geta þrír dómarar skipað dóm í opinberu máli ef almenna refsingin, sem liggur við broti, er ekki þyngri en sektir, varðhald eða fangelsi allt að átta árum.

3. gr.


    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eins má fara að í einstaka málum ef sérstaklega stendur á vegna anna þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt af áðurnefndum ástæðum.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Sú viðbót, sem er gerð við 1. mgr. 4. gr. með 3. gr. þessara laga, fellur úr gildi 31. desember 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þetta frumvarp er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra og á vegum réttarfarsnefndar og er það liður í heildarendurskoðun á reglum í réttarfarslögum um áfrýjun héraðsdóma til Hæstaréttar og meðferð áfrýjunarmála þar fyrir dómi. Í þessu frumvarpi eru gerðar fáeinar tillögur um breytingar á lögum um Hæstarétt Íslands. Samhliða því hafa verið samin frumvörp til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, en gengið hefur verið út frá að frumvörpin þrjú komi í einu lagi til nánari athugunar og eftir atvikum afgreiðslu. Frumvörpin mynda eins konar samstæðu sem miðar að nýrri heildarskipan varðandi áfrýjun dómsmála þótt hvert þeirra taki til atriða á afmörkuðu sviði. Þannig eru gerðar tillögur í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 19/1991 um nýjar reglur um áfrýjun dóma í opinberum málum og meðferð þeirra fyrir Hæstarétti sem er ætlað að koma í stað núgildandi reglna um sama efni í XVIII. kafla laganna. Í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 91/1991 eru gerðar tillögur um sömu atriði á sviði einkamála. Með því frumvarpi er lagt til annars vegar að breyta reglum um áfrýjun í einkamálum sem eru þegar í XXV. kafla laganna og hins vegar að færa reglur um meðferð slíkra mála fyrir Hæstarétti í nýjum búningi inn í þau lög, en núgildandi reglur um málsmeðferðina eru að nær öllu leyti í III. kafla laga um Hæstarétt Íslands. Nái þau frumvörp fram að ganga stæði aðeins orðið eftir I. kafli laganna um Hæstarétt, en í þessu frumvarpi eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar á ákvæðum þess kafla.
    Sem kunnugt er tóku gildi 1. júlí 1992 ný lög um dómstólaskipanina og alla þætti málsmeðferðar á lægra dómstigi, en með þeim voru gerðar verulegar breytingar frá eldri lögum. Á þeim tíma, sem frumvörp að þeim lögum voru í undirbúningi, lágu á hinn bóginn ekki fyrir endanlegar tillögur um hugsanlega framtíðarskipan áfrýjunardómstigsins eða meðferð mála á því. Þetta stafaði meðal annars af því að ekki var hægt að ráða nægilega hvaða áhrif breytingarnar á lægra dómstigi kynnu að hafa á æðra dómstigið varðandi atriði eins og fjölda mála sem yrði skotið til æðra dóms. Var því látið bíða um sinn að fylgja eftir endurskoðuninni á reglunum um dómstólaskipan og málsmeðferð í héraði með gerð tillagna um æðra dómstigið og meðferð áfrýjunarmála þar. Með nýju réttarfarslögunum var að vísu lokið endurskoðun á reglum um kæru ákvarðana og úrskurða héraðsdómara til Hæstaréttar og meðferð kærumála þar, en eldri reglum um áfrýjun dóma var lítið breytt nema til að mæta brýnustu þörfum.
    Eftir það ár, sem nú er liðið frá gildistöku nýju réttarfarslaganna, þykir á hinn bóginn fært í ljósi fenginnar reynslu að ljúka endurskoðun reglna um áfrýjun dóma og meðferð áfrýjunarmála, enda fara úrbætur í þeim efnum að verða nokkuð aðkallandi. Í þessari endurskoðun hefur verið gengið út frá að ekki sé unnt á þessu stigi að leggja til að dómstigum verði fjölgað í þrjú, heldur verði að miða við að þau verði áfram tvö og leitast við að bæta úr reglum varðandi æðra dómstigið á þeirri forsendu.

Helstu efnisatriði frumvarpsins.


    Í endurskoðuninni á reglum um áfrýjun og meðferð áfrýjaðra mála fyrir Hæstarétti hefur verið gengið út frá að helstu markmiðin séu tvenn:
    Annars vegar að leitast við að létta nokkuð álagi af æðra dómstiginu sem hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og leitt til tafa á afgreiðslu mála sem verður illa unað við.
    Hins vegar að færa reglur um málsmeðferð í nokkuð annan búning til að auðvelda hana og flýta henni, en núgildandi reglur um hana eru að stofni til áratuga gamlar og hafa ekki fylgt nægilega eftir þróun á þessu sviði varðandi lægra dómstigið.
    Um aukna álagið á Hæstarétti og tafir, sem það hefur leitt af sér á afgreiðslu mála, má í meginatriðum láta nægja að vísa hér til upplýsinga um þróun málafjölda og málatíma sem koma fram í almennum athugasemdum við frumvörp til laga um breyting á lögum nr. 19/1991 og 91/1991. Hér má þó benda á að í athugasemdum við frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála kemur meðal annars fram að nokkur aukning hefur orðið á áfrýjun dóma í slíkum málum á síðustu árum, en afgreiðslutími þeirra fyrir Hæstarétti hefur allt að einu verið fremur stuttur, eða að meðaltali um fimm mánuðir frá því þau eru tilbúin til málflutnings þar til dómur er genginn. Eru þau mál yfirleitt látin ganga nokkuð fyrir öðrum. Í athugasemdum við frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála kemur á hinn bóginn fram að gífurleg aukning varð ár frá ári á áfrýjunum á því sviði á tímabilinu frá 1985 til 1992. Strax á árinu 1986 fór að myndast nokkurt bil milli fjölda nýrra mála annars vegar og afgreiddra mála hins vegar og fór það stigvaxandi allt til ársins 1992 þegar afgreiðslur komust aftur nærri fjölda nýrra mála á sama ári. Breytingin á því ári stafaði ekki síst af því að með nýju réttarfarslögunum, sem þá tóku gildi, var dregið talsvert úr þeim tegundum mála sem var hægt að skjóta til Hæstaréttar með áfrýjun, en í staðinn voru auknar heimildir til málskots með kæru. Nýjum málum fækkaði ekki teljandi hvað heildarfjölda varðar á árinu 1992 frá næstu árum á undan, en aukning á afgreiðslum tengdist því hve léttara reyndist að ljúka kærumálum en áfrýjunarmálum. Það sem af er á árinu 1993 virðist þessi stöðugleiki milli nýrra mála og afgreiddra haldast að mestu. Á hinn bóginn söfnuðust upp á árunum á undan óafgreiddar áfrýjanir í einkamálum og var svo komið í lok ársins 1992 að þá biðu tilbúin til málflutnings 275 slík mál. Um þessar mundir virðast að meðaltali líða nærri tvö og hálft ár frá því einkamál er tilbúið til málflutnings fyrir Hæstarétti þar til dómur gengur í því. Til samanburðar við þennan fjölda mála, sem bíða flutnings, má nefna að á árabilinu frá 1985 til 1992 voru afgreidd áfrýjuð einkamál frá 92 upp í 117 árlega.
    Með breytingunum á réttarfarslöggjöf, sem tóku gildi 1992, virðist að minnsta kosti um sinn hafa tekist að skapa grundvöll til að jafnvægi geti haldist milli heildarfjölda nýrra mála og afgreiddra fyrir Hæstarétti. Það jafnvægi er þó viðkvæmt eins og reynslan hefur sýnt. Með frumvörpum til laga um breyting á lögum nr. 19/1991 og 91/1991 eru gerðar tillögur sem er ætlað að tryggja stöðugleikann í þeim efnum, m.a. með nokkuð þrengdum áfrýjunarheimildum og nýmælum um einfaldari meðferð minni háttar mála. Með þeim tillögum er hægt að vænta að nokkuð gæti tekist á ári hverju að vinna niður fjölda óafgreiddra mála, en á þeirri braut liðu líklega allmörg ár þar til því yrði lokið.
    Um síðarnefnda markmiðið, sem var í upphafi, má aftur fara þá leið að vísa að mestu til athugasemda við frumvörp til laga um breyting á lögum nr. 19/1991 og 91/1991, en þar er greint í einstökum atriðum frá þeim breytingum sem eru lagðar til varðandi meðferð áfrýjunarmála fyrir Hæstarétti. Með reglunum í þeim frumvörpum er ráðgert að málsmeðferðin verði Hæstarétti talsvert auðveldari en eftir núgildandi lögum og ætti hún að geta orðið nokkru hraðari en verið hefur. Í þeim efnum munar ekki síst um það að eftir tillögunum í þeim frumvörpum mundi sá tími styttast talsvert sem mál eru á undirbúningsstigi í höndum málflytjenda fyrir Hæstarétti áður en þau verða tilbúin til flutnings. Eins og sakir standa er sá biðtími yfirleitt milli hálfs og eins árs í einkamálum, en talsvert styttri í opinberum málum. Þessi biðtími í einkamálum gæti hins vegar orðið tveir til fjórir mánuðir ef frumvörpin næðu fram að ganga. Þetta yrði til augljósra bóta með styttingu heildartímans sem tekur að afgreiða mál fyrir Hæstarétti, ekki síst ef einnig tækist að stytta biðina sem fylgir á eftir fram að því að annir dómsins leyfi að mál sé tekið til flutnings. Breyttar reglur samkvæmt frumvörpunum um málsmeðferðina að öðru leyti gætu tryggt að það takist líka ef hægt væri að vinna niður þann fjölda eldri mála sem nú bíða málflutnings. Á hinn bóginn mundi sú stytting, sem samþykkt frumvarpanna gæti leitt af sér á undirbúningstíma málflytjenda á málum fyrir Hæstarétti, valda talsverðum vandræðum þegar til skemmri tíma er litið. Að því gefnu að undirbúningstíminn kynni að styttast um nokkurn fjölda mánaða blasir við að á fyrstu mánuðunum eftir gildistöku nýrra reglna yrðu verulega fleiri mál tilbúin til flutnings en annars hefði orðið, enda væru þá í senn að verða tilbúin ný mál á skömmum tíma og eldri mál sem væru í biðstöðu við gildistöku breytinganna. Má ætla að um nokkurra mánaða skeið gæti þeim málum þannig fjölgað talsvert sem biðu tilbúin til málflutnings, til viðbótar við fyrrnefnda uppsöfnun frá fyrri árum.
    Til að draga saman meginatriðin í því sem hér hefur verið sagt virðist allt benda til að með samþykkt frumvarpa til laga um breyting á lögum nr. 19/1991 og 91/1991 tækist tvennt: annars vegar að tryggja að ný mál fyrir Hæstarétti verði ekki fleiri en svo að hann gæti haft undan og hins vegar að stuðla að því að hægt væri að afgreiða mál talsvert hraðar en nú er. Samþykkt frumvarpanna eitt út af fyrir sig mundi á hinn bóginn ekki fyrirsjáanlega geta skilað árangri við að vinna niður þann fjölda mála sem bíður nú afgreiðslu fyrir Hæstarétti nema á talsvert löngum tíma og til skemmri tíma litið mundi þeim málum fjölga nokkuð. Ef ekkert frekar yrði að gert væri vissulega náð þeim áfanga að málatíminn fyrir Hæstarétti mundi ekki lengjast frá því sem nú er og að líkindum mundi hann smám saman styttast í viðunandi horf. Eftir því væri allnokkur bið og að auki yrði álagið í framtíðinni ekki minna en það sem er nú á Hæstarétti og má þó telja verulega of mikið.
    Með þessu frumvarpi eru aðeins lagðar til fáeinar breytingar á lögunum um Hæstarétt Íslands, en þær eru nánar tiltekið þessar:
    Að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað úr átta í níu, sbr. 1. gr.
    Að hægt verði að láta einn dómara afgreiða allra minnstu málin í stað þriggja nú, sbr. 2. gr.
    Að lítillega verði rýmkaðar heimildir Hæstaréttar til að kveðja varadómendur til setu í einstaka málum þannig að sú leið yrði fær til að mæta verulegum önnum fastra dómara, sbr. 3. gr., en eins og má sjá af 2. mgr. 4. gr. yrði þessi rýmkun tímabundin í þrjú ár.
    Ef þessar tillögur næðu fram að ganga, ásamt þeim sem eru gerðar í áðurnefndum frumvörpum um breyting á öðrum lögum, má vænta að raunhæf lausn yrði fengin á þeim tveimur meginvandamálum sem stæðu annars óleyst. Munar þar mestu um að fyrstnefnda tillagan hér að framan mundi skapa grundvöll fyrir breyttum starfsháttum fyrir Hæstarétti, en hinar tillögurnar tvær mundu styrkja þann grundvöll enn frekar. Með þessu móti virðist mega áætla að hægt yrði að vinna niður uppsöfnuð mál fyrir Hæstarétti á talsvert skemmri tíma en annars, en það gæti þá verið unnt á tveimur til þremur árum. Til lengri tíma mundu þessar breytingar einnig draga úr því álagi sem hvílir nú á dómurum við Hæstarétt. Taka verður þó skýrt fram að innri verklagsreglur Hæstaréttar eru ekki lögbundnar, heldur ráðast þær af ákvörðun dómaranna, sbr. einkum 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973, og er ekki lögð hér til nein breyting á því. Yrði því í höndum Hæstaréttar að ákveða hvernig heimildirnar, sem eru lagðar til í þessu frumvarpi, mundu nýtast í nánari útfærslu, en ákvörðun um það mundi þó ekki geta raskað neinu teljandi um að tillögurnar hefðu tilætluð áhrif. Verður þetta nú skýrt nánar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein eru ekki lagðar til aðrar breytingar á 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1973 en að dómarar við Hæstarétt verði níu í stað átta eins og nú er. Tala fastra dómara hefur verið óbreytt frá því breyting var gerð á þessu ákvæði laganna á árinu 1982.
    Í almennum athugasemdum hér að framan er greint frá ástæðunum að baki þessari tillögu um fjölgun dómara. Til að skýra frekar hvernig þessi fjölgun gæti komið að haldi, bæði til að stuðla að lausn á tímabundnum vanda vegna uppsöfnunar mála og til að minnka álag á dómnum til lengri tíma, verður að líta til þess hvernig verkaskiptingu er háttað nú milli dómaranna. Um hana eru reglur í 3. gr. laganna þar sem kemur fram hversu margir dómarar taka þátt í afgreiðslu einstaka mála, en þær fela í sér að eftirfarandi fjöldi dómara skipar dóm hverju sinni:
—    Í sérlega mikilvægum málum geta sjö dómarar átt sæti í dómi.
—    Almenna reglan um fjölda dómara í hverju máli er sú að þeir séu fimm, en frá því er þó unnt að víkja eins og var getið hér á undan og enn frekari undantekningar eru einnig gerðar sem fylgja hér á eftir.
—    Þrír dómarar geta annast einkamál ef úrslit þess varða ekki mikilvæga hagsmuni málsaðila.
—    Þrír dómarar geta átt sæti í dómi í opinberu máli ef refsirammi vegna brots fer ekki fram úr fangelsi í átta ár.
—    Þrír dómarar eiga að öðru jöfnu sæti í kærumálum, en ef sérstaklega stendur á geta þeir verið fimm eða sjö samkvæmt áðursögðu.
—    Þrír dómarar taka afstöðu til umsókna um áfrýjunarleyfi.
    Nánari ákvörðun um það í hvern framangreindan flokkinn mál fellur hverju sinni er í höndum Hæstaréttar, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Í sama ákvæði kemur fram að almenn regla eigi að gilda um hvaða menn veljist í dóm í hverju máli. Á þeim grundvelli hefur sú almenna regla mótast að Hæstiréttur starfar að öðru jöfnu í tveimur deildum þar sem sitja annars vegar fimm dómarar og hins vegar þrír. Einn dómari flyst í senn úr hvorri deild í hina á tveggja mánaða fresti og eru þær því ekki skipaðar alveg sömu mönnum nema um skamman tíma.
    Með fjölgun dómara um einn væri unnt að breyta þessu skipulagi á ýmsa vegu með nýjum almennum reglum sem Hæstiréttur gæti sett sér og gæti það aukið afköst dómsins ólíkt meira hlutfallslega en næmi fjölgun dómara. Skulu nefnd hér nokkur dæmi um hugsanlegar leiðir í þeim efnum:
    Samkvæmt núgildandi lögum og eins eftir tillögum í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 91/1991 semur einn dómari yfirleitt atkvæði að dómi þegar flutningi máls er lokið og dómarar hafa rætt milli sín um niðurstöður. Ef dómurinn greinist í meiri og minni hluta í máli eru samin sérstök atkvæði fyrir hvorn eða hvern hluta og getur því hvílt á tveimur eða jafnvel fleiri dómurum að semja þau. Þegar stærri mál eru til afgreiðslu getur þannig mætt mikið á einum eða fleiri dómurum að ljúka við dómsatkvæði, en þetta getur leitt til vandkvæða þegar næsta mál kemur til flutnings í sömu deild, enda getur tíminn milli mála reynst skammur. Er þá ókostur að allir dómararnir með tölu séu bundnir í deild, enda er þá ekki unnt að kveðja til annan til að sitja í næsta máli í annarri þeirra í stað þess sem vinnur að því að ljúka eldra máli. Með fjölgun dómara væri unnt að láta einn þeirra standa utan deilda og gæti hann meðal annars gengið inn í aðra hvora þeirra til að létta undir afgreiðslu mála eftir þörfum.
    Í því álagi af málum, sem hefur verið búið við í Hæstarétti á undanförnum árum og vegna þess að allir dómararnir hafa verið bundnir störfum í annarri hvorri deildinni við dóminn, er hætt við að lítið svigrúm hafi gefist til að sinna athugun á málum fyrr en þau hafa verið komin nærri munnlegum málflutningi. Getur þetta þýtt að í sumum tilvikum séu liðin meira en þrjú ár frá áfrýjun máls þar til raunhæfur kostur er á að athuga það. Mál geta stundum verið haldin augljósum annmörkum sem varða til dæmis frávísun vegna formgalla og eins getur verið þörf á öflun frekari sönnunargagna, en við núverandi aðstæður er allt eins líklegt að athygli beinist ekki að slíku fyrr en mál hefur beðið sinn tíma eftir flutningi. Með fjölgun dómara gæti sá sem kynni að standa utan deilda við dóminn annast athugun á málum á fyrri stigum þannig að atriða eins og þessara yrði vart fyrr en nú er og hægt væri að afgreiða mál strax vegna galla eða ráða bót á honum.
    Eins og má ráða af áðurröktu efni 3. gr. laganna fæst sú deild innan Hæstaréttar, sem þrír dómarar eiga sæti í, við nokkuð ólík viðfangsefni. Þannig sinnir hún minni einkamálum og opinberum málum sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og eru munnlega flutt, auk þess að sinna kærumálum sem eru skriflega flutt. Þá sinna þrír dómarar umsóknum um áfrýjunarleyfi. Afgreiðsla kærumála og umsókna um áfrýjunarleyfi tekur tíma sem dregur um leið úr afkastagetu við afgreiðslu munnlega fluttra mála. Með fjölgun dómara um einn væri meðal annars unnt að breyta nokkuð verklagi við afgreiðslu kærumála og umsókna um áfrýjunarleyfi, enda gæti sá dómari, sem stæði utan deilda við dóminn, annast nokkurn hluta af undirbúningi afgreiðslunnar upp á eindæmi sitt. Mundi það geta rýmkað mjög fyrir að þrír dómarar gætu þá sinnt talsvert fleiri munnlega fluttum málum en nú er. Í þessu sambandi er einnig ástæða til að vekja athygli á ákvæði 2. gr. frumvarpsins þar sem er lögð til breyting á 3. gr. laganna sem mundi heimila að einn dómari gæti leyst úr minnstu kærumálunum.
    Í stuttu máli mundi sú fjölgun dómara um einn, sem er lögð hér til, geta í senn gefið kost á að hægt væri í fyrsta lagi að vanda enn betur afgreiðslu mikilvægra mála, í öðru lagi að koma málum, sem annmarkar eru á, frá eða í rétt horf þegar á fyrstu stigum í stað þess að bíða með það um lengri tíma og í þriðja lagi að koma á meiri skilvirkni í minni munnlega fluttum málum og afgreiðslu skriflegra mála og erinda. Árétta verður að þetta eru aðeins nokkrir kostir um hvernig mætti greiða mjög fyrir afgreiðslu mála og auka afköst Hæstaréttar með þessari breytingu, en ákvörðun um hvernig þetta yrði gert væri þó í höndum dómsins með setningu almennra reglna um innra starfskipulag sitt. Um leið gæti einnig verið tækifæri til að huga að reglum um hvernig dómarar gangi milli deilda, enda gæti verið ákjósanlegt ef farnar væru leiðir eins og var getið um hér á undan að sömu dómarar sætu um lengri tíma en verið hefur í sömu deild og eftir atvikum utan deilda. Má ætla að slík breyting gæti frekar komið í veg fyrir að ósamræmis gætti í afgreiðslu sambærilegra mála.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er tillaga um breytingu á 2. mgr. 3. gr. laganna og er hún bæði efnisleg og enn fremur lítils háttar breyting á orðalagi sem raskar þó ekki merkingu ákvæðisins. Tillagan um efnislega breytingu er nánar tiltekið sú að heimilað verði að einn dómari geti afgreitt skriflega flutt kærumál ef það varðar ekki mikilvæga hagsmuni og hefur komið til með kæru á úrskurði dómara um atriði sem varðar rekstur máls fyrir héraðsdómi. Benda verður sérstaklega á að þetta ákvæði fæli aðeins í sér heimild til að fara þessa leið, en háð væri ákvörðun Hæstaréttar hvort hún yrði farin og þá eftir atvikum í hvers konar málum innan ramma ákvæðisins. Miðað við orðalag greinarinnar gæti þessi heimild einkum komið til álita við afgreiðslu mála þar sem væru kærðir úrskurðir héraðsdómara um minni háttar atriði varðandi rekstur máls, svo sem að veita frest í máli, hvort nauðsynlegt sé að setja málskostnaðartryggingu eða hvort spurning verði lögð fyrir vitni. Þess hefur gætt nokkuð í framkvæmd að úrskurðir um slík atriði hafi verið kærðir til Hæstaréttar af litlu sem engu tilefni og án þess að niðurstaðan geti haft neinar afdrifaríkar afleiðingar. Undir slíkum kringumstæðum verður varla séð að teljandi ástæða sé til að þrír dómarar við Hæstarétt standi að afgreiðslu máls.

Um 3. gr.


    Með 3. gr. er lögð til lítils háttar rýmkun á heimildum Hæstaréttar skv. 1. mgr. 4. gr. laganna til að kveðja varadómara til að taka sæti í dómi í einstaka máli, en samkvæmt lagaákvæðinu verða varadómarar að koma úr hópi prófessora í lögum við Háskóla Íslands, héraðsdómara og hæstaréttarlögmanna sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti dómara við Hæstarétt, auk þess að heimilt er að kveðja til mann sem hefur látið af slíku dómaraembætti vegna aldurs. Samkvæmt núgildandi reglu verður varadómari aðeins kvaddur til ef fastur dómari við Hæstarétt hefur forföll, honum hefur verið veitt leyfi eða sæti hans verður autt af annarri ástæðu, svo sem vegna vanhæfis til að taka þátt í afgreiðslu máls. Rýmkunin á heimildum í þessum efnum, sem er lögð til með 3. gr., felst í því að til viðbótar við þessi tilefni til að mega kveðja varadómara til setu í máli yrði leyft að fara þá leið ef sérstaklega stæði á vegna anna.
    Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. yrði þessi rýmkun á heimildinni til að kveðja varadómendur til setu í dómi aðeins tímabundin því þar er mælt fyrir um að hún falli úr gildi við lok ársins 1996. Eins og þetta ber með sér á óbeinan hátt er markmiðið með rýmkuninni einkum að létta undir að hægt yrði að ná fjölda óafgreiddra mála niður í viðunandi horf á þessu tímaskeiði. Taka verður fram að með reglunni í 3. gr. er ekki ætlast til að breyting yrði á því að varadómendur verði ekki kvaddir til setu í dómi nema nauðsyn krefji, heldur er aðeins ráðgert að einu atriði fleira en nú er gæti réttlætt slíka nauðsyn um sinn. Af þessum sökum yrði að beita rýmkuninni á heimildum til kvaðningar varadómenda af varfærni. Þetta gæti meðal annars átt við undir þeim kringumstæðum sem var vikið að í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins að einn eða jafnvel fleiri dómarar þyrftu að fá ráðrúm til að semja dómsatkvæði í stærri málum með því að þeir yrðu leystir undan setu í dómi í næsta máli. Er þá sérstaklega haft í huga að kveðja mætti t.d. dómara, sem hefði látið af embætti vegna aldurs, til að sitja í dómi í slíku tilviki. Benda verður á að eftir orðalagi 3. gr. yrði heimildin þó ekki bundin við þau tilvik sem er lýst í þessum dæmum.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um gildistöku ef frumvarpið verður að lögum, en miðað er við sömu dagsetningu gildistöku og í frumvörpum til laga um breyting á lögum nr. 19/1991 og 91/1991.
    Um ákvæði 2. mgr. 4. gr. er fjallað í athugasemdum við 3. gr. sem má vísa hér til.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um Hæstarétt Íslands,


nr. 75 21. júní 1975.



    Með frumvarpi þessu er lagt til að möguleikar til áfrýjunar mála til Hæstaréttar verði þrengdir þannig að málum, er bíða meðferðar réttarins, geti fækkað og biðtími mála fyrir réttinum komist aftur í eðlilegt horf. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 91 31. desember 1991, um meðferð einkamála, svo og frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 19 26. mars 1991, um meðferð opinberra mála.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Hæstarétt skipi níu dómarar og fjölgi þeim þar með um einn. Laun hæstaréttardómara eru nú um 5,4 m.kr. á ári að meðtöldum launatengdum gjöldum. Hæstaréttardómarar halda óskertum grunnlaunum til æviloka þegar þeir láta af störfum fyrir aldurs sakir eftir að hafa náð fullra 65 ára aldri. Til viðbótar má ætla að fjölgun dómara fylgi rekstrargjöld sem áætluð eru um 1 m.kr. Þá er ekki talin með sú aukning rekstrargjalda sem óhjákvæmilega mun hljótast af flutningi Hæstaréttar í nýtt húsnæði.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild Hæstaréttar til að kveðja til varadómara verði lítils háttar rýmkuð. Skuli sú rýmkun gilda tímabundið í þrjú ár, sjá 4. gr. Varadómarar taka sömu laun og hæstaréttardómarar þann tíma er þeir starfa við Hæstarétt. Af greinargerð frumvarpsins má ráða að tilkvaðning varadómara kunni að gerast oftar á næstu þremur árum en verið hefur, m.a. í þeim tilgangi að vinna úr þeim fjölda áfrýjaðra mála sem nú liggja fyrir Hæstarétti.