Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 201 . mál.


223. Frumvarp til laga


um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)


I. KAFLI

Orðskýringar.

1. gr.

    Í lögum þessum merkir:
     Vernd: að veiðum eða öðrum aðgerðum, sem geta haft áhrif á viðkomu eða vanhöld dýra af tiltekinni tegund, sé hagað á þann hátt að henni sé ekki stefnt í útrýmingarhættu.
     Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund.
     Veiðar: að handsama eða drepa villt dýr. Þegar um er að ræða fuglaveiðar er einnig átt við eggjatöku.
     Villt dýr: allir fuglar og spendýr, önnur en hvalir, gæludýr og bústofn. Dýr, sem er handsamað og haft í haldi, telst villt dýr.
     Stýring á stofnum villtra dýra: aðgerðir af opinberri hálfu er miða að því að hafa áhrif á útbreiðslu eða stærð tiltekins stofns villtra dýra.
     Tjón af völdum villtra dýra: fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar og tjón á náttúru landsins.
     Lífsvæði: landsvæði sem dýr nota sér til framfærslu og viðkomu eða sem farleið.
     Grenjatími: tímabilið 1. maí til 31. júlí.
     Netlög: hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli landareignar eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.
     Landareign: jörð eða annað landsvæði sem er háð beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila, þar með talið sveitarfélag eða ríki.

II. KAFLI

Markmið og gildissvið.

2. gr.

    Markmið laga þessara er að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, skipulag á veiðum og annarri nýtingu dýra, svo og skipulag á aðgerðum til þess að koma í veg fyrir tjón sem villt dýr kunna að valda.
     Lögin ná til efnahagslögsögu Íslands.

III. KAFLI

Umsjón.

3. gr.

    Umhverfisráðherra hefur yfirumsjón með öllum málum er varða villt dýr.
     Ráðherra til ráðgjafar við umsjón þessara mála er villidýranefnd. Umhverfisráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn og skal hún skipuð sjö mönnum, einum tilnefndum af Náttúruverndarráði, einum af Búnaðarfélagi Íslands, einum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum af Náttúrufræðistofnun Íslands, einum af Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, einum af Skotveiðifélagi Íslands og einum af veiðistjóraembættinu. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Umhverfisráðherra skipar formann og varaformann úr hópi fulltrúa frá stofnunum umhverfisráðuneytis.
     Tillagna eða umsagnar villidýranefndar skal leitað við setningu reglugerða, leyfisveitingar, veitingar undanþágna og við önnur stjórnvaldsfyrirmæli um villt dýr.

4. gr.

    Umhverfisráðherra skipar veiðistjóra að fengnum tillögum villidýranefndar. Veiðistjóri skal vera líffræðingur með sérþekkingu er nýtist honum í starfi.
     Veiðistjóraembættið hefur umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða tjón af þeirra völdum, sbr. VI. kafla.
     Á vegum veiðistjóraembættisins skulu stundaðar hagnýtar rannsóknir á villtum dýrum í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands eftir því sem um semst milli þessara stofnana. Einnig skal höfð samvinna um rannsóknir við aðrar stofnanir og einstaklinga eftir því sem þörf krefur.
     Veiðistjóraembættið leiðbeinir þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra. Veiðistjóraembættinu skal heimilt að reka hundabú til ræktunar og þjálfunar minkaveiðihunda.
     Veiðistjóraembættið skal vera umhverfisráðuneyti og villidýranefnd til ráðuneytis og gera tillögur um hvaðeina er varðar starfssvið embættisins.
     Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi og getur stofnunin veitt einstaklingum leyfi til merkinga samkvæmt reglum sem hún setur og samþykktar eru af umhverfisráðherra. Reglur þessar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
     Hverjum þeim sem finnur eða handsamar merktan fugl ber að senda merkið, hvort sem það er íslenskt eða útlent, til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt nánari upplýsingum um fundinn.

5. gr.

    Ísland er aðili að Alþjóðafuglaverndarráðinu (The International Council for Bird Protection). Fulltrúaráð skipað fulltrúum nefnda, samtaka og stofnana, sem hafa fuglavernd á stefnuskrá sinni, kemur fram fyrir Íslands hönd í Alþjóðafuglaverndarráðinu. Umhverfisráðherra ákveður í reglugerð hvaða aðilar eigi rétt á að tilnefna í fulltrúaráðið og setur því starfsreglur.

IV. KAFLI

Friðun, vernd og veiðar.

6. gr.

    Villt dýr, önnur en mýs, rottur og minkar, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins, eru friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum eða reglugerðum byggðum á þeim. Um innflutning dýra gilda lög nr. 54/1990.
     Ávallt skal gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og lífsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Við skipulag byggðar og aðra landnýtingu skal tekið tillit til villtra dýra og lífsvæða þeirra, sbr. lög nr. 47/1971 og lög nr. 19/1964.

7. gr.

    Ákvörðun um að aflétta friðun skv. VI. kafla skal fyrst og fremst byggjast á því að viðkoma stofns sé nægileg til þess að vega upp á móti afföllum vegna veiða og að með veiðum sé verið að nytja verðmæti í kjöti, skinnum eða öðrum afurðum. Einnig er heimilt að taka tillit til þess hvort viðkomandi dýr valdi tjóni.
     Umhverfisráðherra setur reglugerðir um friðun, vernd og veiðar villtra dýra, að fengnum tillögum villidýranefndar. Reglugerðir skulu m.a. kveða á um hvaða tegundir eru alfriðaðar, hverjar er heimilt að veiða, hvar megi veiða þær, gerð vopna, aðrar veiðiaðferðir, lengd veiðitímabils, sérákvæði vegna hefðbundinna fuglanytja, umgengni við hreiður fágætra fugla og annað sem máli skiptir.
     Þar sem talið er að villt dýr valdi tjóni einhvern tiltekinn tíma árs eða á svæðum þar sem viðkomandi tegundir eru ella friðaðar samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum byggðum á þeim getur umhverfisráðherra veitt tímabundið leyfi til veiða í því skyni að koma í veg fyrir tjón að fenginni umsögn villidýranefndar. Í reglugerð skal kveðið á um hvaða tegundir skuli ávallt undanskildar þessu ákvæði.
    Umhverfisráðherra skal setja reglugerð um sölu, inn- og útflutning villtra dýra og hluta þeirra, svo og egg. Þar skulu einnig vera reglur um ham- og skinnatöku og uppsetningu villtra dýra og kveðið nánar á um starfsemi hamskera.
     Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar á villtum dýrum sem njóta friðunar eða verndar í rannsóknarskyni, fyrir söfn og dýragarða eða til ræktunar og undaneldis.
     Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að láta veiða friðaða sem ófriðaða fugla og safna eggjum handa stofnuninni hvar sem er og án þess að endurgjald komi fyrir, enda geri þeir landeiganda viðvart fyrir fram og sýni skilríki sín verði því við komið. Ráðherra ákveður að fenginni tillögu villidýranefndar hvaða tegundir séu undanskildar þessu ákvæði.
     Umhverfisráðherra getur ákveðið að stefnt skuli að útrýmingu stofns eða tegundar sem flust hefur til Íslands af mannavöldum, enda telji villidýranefnd það bæði æskilegt og gerlegt.

8. gr.

    Öllum íslenskum ríkisborgurum og mönnum með lögheimili hér á landi eru dýraveiðar heimilar í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra, og í íslenskri landhelgi utan netlaga landareigna. Skulu þeir hafa aflað sér leyfis til þess samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
     Landeigendum einum eru heimilar dýraveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra á landareign sinni nema lög mæli öðruvísi fyrir.
    Eigi má skilja rétt til veiða að nokkru eða öllu leyti frá landareign fyrir fullt og allt. En leyfilegt skal að skilja rétt til veiða við landareign um tiltekið tímabil er eigi má vera lengra en 10 ár í senn.
     Nú er landareign í sameign en er skipt eftir merkjum og afnota- eða eignarskiptingu og á þá hver sameigandi rétt til dýraveiða á og fyrir sínum landshluta eða afnotasvæði, nema samkomulag hafi orðið um aðra lögmæta skipan.
     Þar sem stöðuvötn, firðir, vogar eða sund, sem ekki eru 230 m á breidd, skipta landareignum eiga landeigendur veiðirétt út að miðlínu, svo og í ám og lækjum. Í stöðuvötnum, sem eru breiðari en 230 m, eru landeigendum, sem land eiga að vatninu, einum heimilar veiðar í almenningi þess og eru þær þeim öllum jafnheimilar.
    Umhverfisráðherra getur sett reglugerð um veiðar erlendra ferðamanna, enda fullnægi þeir sambærilegum skilyrðum um kunnáttu í veiðum og meðferð skotvopna og kröfur eru gerðar um hér á landi.

9. gr.

    Við veiðar má eingöngu nota skotvopn sem úr má skjóta fríhendis frá öxl með þeim undantekningum sem upp eru taldar í liðum 3, 4, 7 og 16 hér á eftir og nánar er kveðið á um í reglugerðum. Við fuglaveiðar er óheimilt að nota haglabyssu með hlaupvídd stærri en nr. 12. Við veiðar er m.a. óheimilt að nota:
    Eitur eða svefnlyf.
    Sprengiefni, bensín eða önnur efni til þess að svæla með gasi eða reyk.
    Steina, barefli, eggvopn, skutla, stunguvopn eða þvíumlíkt. Þó má nota barefli við hefðbundnar veiðar á fýls- og skarfsungum og kópum.
    Net, nema til kópaveiða, og háf til lunda-, álku-, stuttnefju- og langvíuveiða. Fugla, er drepast í netum sem lögð eru til fisk- eða kópaveiða, má ekki nýta á nokkurn hátt nema að fengnu leyfi umhverfisráðuneytis. Lifandi fugla skal greiða úr neti og sleppa.
    Öngla eða önnur tól sem komið er fyrir í æti.
    Snörur og snörufleka.
    Fótboga eða gildrur, nema til músaveiða, rottuveiða, minkaveiða og til að ná tófuyrðlingum við greni. Gerðir fótboga og gildra skulu hafa hlotið samþykki villidýranefndar.
    Rafbúnað sem getur drepið eða rotað.
    Segulbandstæki og aðra rafknúna hljóðgjafa.
    Tilbúna ljósgjafa.
    Búnað til að lýsa upp skotmörk.
    Spegla eða annan búnað sem blindar.
    Búnað til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum er stækka eða breyta ímyndinni.
    Hálfsjálfvirk eða sjálfvirk skotvopn, svo og „pumpur“, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki.
    Lifandi dýr sem bandingja.
    Hunda til þess að hlaupa uppi bráð, nema við minkaveiðar.
    Vélknúin farartæki, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 50 metra.
     Óheimilt er að veiða fugla í sárum.
     Umhverfisráðherra getur heimilað notkun ofangreindra veiðiaðferða í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.

10. gr.

    Veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs. Umhverfisráðherra getur aflétt tímabundið eða rift þeirri friðun að fullu eða gagnvart tiltekinni tegund ef villidýranefnd mælir með því og Náttúruverndarráð samþykkir.
    Veiðimanni er skylt að hirða bráð sína. Særi veiðimaður dýr ber honum að elta það strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þótt sært dýr fari inn á landareign sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og er þá bráð eign landeiganda nema annað sé tekið fram í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

V. KAFLI

Veiðikort og hæfnispróf veiðimanna.

11. gr.

    Umhverfisráðherra ákveður með reglugerð að allir þeir, sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum og músum, skuli afla sér veiðikorts, gegn gjaldi sem umhverfisráðherra ákveður. Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, gildistímabils og þeirra tegunda sem viðkomandi hefur heimild til að veiða. Þar skal þess einnig getið ef handhafi veiðikorts hefur leyfi til að nýta hefðbundin hlunnindi á tilteknu svæði eða til að verjast tjóni af völdum villtra dýra á bújörð. Korthafi skal ætíð bera kortið á sér á veiðum. Hann skal framvísa því ef þess er óskað. Korthafi skal árlega skila skýrslu um veiðar sínar á gildistíma korts áður en nýtt kort er útgefið. Gjald þetta skal renna í sjóð er notaður verði til rannsókna og stýringar á stofnum villtra dýra.
     Umhverfisráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð um veiðikort að þeir sem stundi veiðar á villtum dýrum skuli hafa lokið sérstöku prófi um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða.

VI. KAFLI

Sérákvæði um veiðar.

12. gr.

Refir.

     Óheimilt er að eyðileggja greni. Ekki má láta hunda hlaupa á greni á grenjatímanum. Varast skal einnig að hafa þar óþarfa umgang. Stjórnir sveitarfélaga skulu halda skrá yfir öll þekkt greni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim og skulu afrit af skránum varðveitt hjá veiðistjóraembættinu.
     Á svæðum, þar sem friðun refa hefur verið aflétt, sbr. 7. gr., eru refaveiðar utan grenjatíma öllum heimilar sem til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum settum eftir þeim.
     Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóraembættis, að refaveiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum refa er sveitarstjórn skylt að ráða skotmenn til grenjavinnslu árlega og er þeim einum heimilt að veiða refi á grenjatíma. Skylt er skotmanni að hafa aðstoðarmann við grenjavinnslu. Þar sem veiðistjóraembætti og sveitarstjórn þykir betur henta má skipuleggja refaveiði að vetrarlagi í stað grenjavinnslu. Eigi fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarstjórnir fela stjórn viðkomandi upprekstrar- eða fjallskilafélags umsjón refaveiða samkvæmt málsgrein þessari.
     Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa og verðlauna fyrir unna refi sem veiddir eru skv. 2. og 3. mgr. Stjórnir viðkomandi sveitarfélaga skulu árlega gefa skýrslur til veiðistjóraembættis um refaveiðar og kostnað við þær hver á sínu svæði og endurgreiðir ríkissjóður þá helming kostnaðar við veiðarnar eftir viðmiðunartöxtum.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. geta sauðfjárbændur og æðarræktendur eða aðilar á þeirra vegum skotið refi sem sauðfé eða æðarvarpi stafar bein hætta af. Skal viðkomandi tilkynna skotmönnum ráðnum skv. 3. mgr. um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.

13. gr.

Minkar.

    Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóraembættis, að minkaveiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum minka er sveitarstjórn skylt að ráða menn til minkaveiða árlega.
     Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa og verðlauna fyrir unna minka sem veiddir eru skv. 1. mgr. Stjórnir viðkomandi sveitarfélaga skulu árlega gefa skýrslur til veiðistjóraembættis um minkaveiðar og kostnað við þær hver á sínu svæði og endurgreiðir ríkissjóður þá helming kostnaðar við veiðarnar eftir viðmiðunartöxtum. Umhverfisráðherra setur reglugerð um framkvæmd veiðanna og um framkvæmd endurgreiðslna á hlut ríkissjóðs í kostnaði við þær.
     Umhverfisráðherra er heimilt að friða minka í rannsóknarskyni á takmörkuðu svæði í skamman tíma að fenginni umsögn villidýranefndar.

14. gr.

Hreindýr.

     Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar úr hreindýrastofninum enda telji veiðistjóraembættið að stofninn þoli veiði og að æskilegt sé að veiða úr honum. Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum, í samræmi við tillögur hreindýraráðs og veiðistjóraembættisins og birtir auglýsingu þar að lútandi í Lögbirtingablaði. Eignarréttur á landi, þar sem hreindýr halda sig, veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.
     Veiðar á hreindýrum eru heimilar öllum er til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Af hverju felldu hreindýri skal greiða sérstakt leyfisgjald til hreindýraráðs sem ráðherra ákveður árlega og skal gjaldinu varið til reksturs ráðsins, framkvæmda á þess vegum og rannsókna á hreindýrum. Hreindýraráði er heimilt að selja veiðiheimildir sem hlutaðeigandi sveitarfélögum hefur verið úthlutað.
     Umhverfisráðherra skipar fimm menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en aðrir nefndarmenn skulu skipaðir með eftir-farandi hætti: Búnaðarsamband Austurlands tilnefnir tvo menn, Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu einn og Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi einn. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Veiðistjóri situr fundi hreindýraráðs og hefur málfrelsi og tillögurétt.
     Að fengnum tillögum hreindýraráðs og veiðistjóra setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd á hreindýraveiðum, m.a. um skiptingu veiðiheimilda á milli viðkomandi sveitarfélaga, veiðieftirlitsmenn, hlutverk og starfssvið hreindýraráðs, svo og skiptingu arðs af leyfisgjaldi og veiðiheimildum sem framseldar eru ráðinu.

15. gr.

Mýs og rottur.

    Heilbrigðisnefndir hafa umsjón með fækkun á músum og rottum eftir því sem nánar er kveðið á um í heilbrigðisreglugerð sem sett er í samráði við umhverfisráðherra.

16. gr.

Selir og rostungar.

     Umhverfisráðherra getur í reglugerð aflétt friðun landsels, útsels, blöðrusels og vöðusels á tilteknum svæðum og árstímum samkvæmt tillögum sjávarútvegsráðherra. Sjávarútvegsráðherra stjórnar nýtingu selastofna og hefur umsjón með þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela eða tjón af þeirra völdum.
     Skotveiði skal ætíð bönnuð í látrum. Öll skot eru bönnuð nær friðlýstum látrum en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. Eigi má án leyfis eiganda láturs leggja net í sjó nær friðlýstu látri samkvæmt lögum þessum en 1 / 2 km frá stórstraumsfjörumáli.

17. gr.

Hvítabirnir.

    Fella má hvítabjörn sem gengið hefur á land og fólki eða búfénaði er talin stafa hætta af. Sé þess nokkur kostur skal nota til þess riffil af stærðinni cal. 243 eða stærri.
    Þegar hvítabjörn hefur verið felldur skv. 1. mgr. skal það tilkynnt umhverfisráðherra án tafar og getur hann þá krafist þess að björninn verði afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað.
     Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af er umhverfisráðherra heimilt að fela veiðistjóraembættinu að fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar af honum hætta.
     Ekki má veiða hvítabirni á hafís eða á sundi.

18. gr.

Fuglar.

     Umhverfisráðherra getur í reglugerð aflétt friðun eftirtalinna fuglategunda innan þeirra
tímamarka er hér segir, sbr. 7. gr.:
    Allt árið: svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, kjói, hrafn.
    Frá 20. ágúst til 31. mars: fýll, dílaskarfur, toppskarfur, súla, grágæs, heiðagæs, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, hvítmáfur, bjartmáfur, hettumáfur, rita, skúmur.
    Frá 1. september til 19. maí: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.
    Frá 15. október til 22. desember: rjúpa.
     Óheimilt er að þeyta flautur að óþörfu í grennd við fuglabjörg. Enn fremur er óheimilt að hleypa af skoti á landi nær fuglabjörgum en 200 m og á sjó nær en 500 m. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum.

VII. KAFLI

Nýting hlunninda.

19. gr.

    Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. Á sama tíma má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli.
     Umhverfisráðherra setur reglugerð um hvernig staðið skuli að skilgreiningu og friðlýsingu æðarvarps og selaláturs samkvæmt lögum þessum.
     Í varpi kríu, silfurmáfs, hvítmáfs og hettumáfs skal heimilt að taka egg þessara fugla en þó aldrei eftir 15. júní ár hvert.
    Á takmörkuðum svæðum, þar sem kópaveiði og eggja- eða ungataka súlu, dílaskarfs, toppskarfs, fýls, skúms, hvítmáfs, ritu, álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda telst til hefðbundinna hlunninda, skulu friðunarákvæði laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis.
     Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda, álku, langvíu og stuttnefju í háf telst til hlunninda, skulu friðunarákvæði laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis. Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og ljúki eigi síðar en 15. ágúst.
     Á takmörkuðum svæðum, þar sem andavarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka andaregg en við eggjatökuna skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Undanþága þessi tekur ekki til gargandar, skeiðandar, skutulandar, hrafnsandar, straumandar eða gulandar. Þá skal og taka grágæsar- og heiðagæsareggja heimil en þó skal ávallt skilja eftir í hreiðri eigi færri en tvö egg. Andaregg, sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.
    Telji eigandi veiðiréttar sig hafa heimild til nýtingar hlunninda skv. 4. eða 5. mgr. skal hann afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á rétti sínum. Neiti þessir aðilar að staðfesta heimild veiðirétthafa sker umhverfisráðherra úr þeim ágreiningi.

VIII. KAFLI

Refsiákvæði og réttarfar.

20. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum, varðhaldi eða fangelsi og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis. Virða skal það refsingu til þyngingar ef um sjaldgæfar eða fágætar fuglategundir er að ræða, sbr. 7. gr. Sama gildir um æðarfugl og æðaregg, svo og stórfelldar ólögmætar fuglaveiðar og spjöll á friðlýstum varpstöðvum.
     Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, sæta refsingu sem fullframið brot eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     Gera má upptækt til ríkissjóðs: Ólöglegt veiðifang, egg eða eggjaskurn, veiðitæki og annan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra verðmæta. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu þótt annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem sekur hefur reynst um brot á lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. laga nr. 19/1940.

21. gr.

    Mál út af brotum gegn lögum þessum og reglum, sem settar eru samkvæmt þeim, skulu rekin að hætti opinberra mála.

IX. KAFLI

Almenn ákvæði, gildistaka og brottfallin lög.

22. gr.

    Reglugerðir og aðrar stjórnvaldsaðgerðir um spendýrastofna og fugla, sem settar hafa verið fyrir gildistöku þessara laga, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær brjóta ekki í bága við þau uns nýjar reglur hafa verið settar.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Frá sama tíma eru numin úr gildi:
    Ákvæði í Jónsbók er fjalla um seli, rostunga og hvítabirni.
    Ákvæði í tilskipun um veiði á Íslandi 20. júní 1849 sem fjalla um veiðar á fuglum og spendýrum öðrum en hvölum.
    Lög um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, nr. 30/1925.
    Lög um útrýmingu sels í Húnaósi, nr. 29/1937.
    Lög um friðun hreindýra og eftirlit með þeim, nr. 28/1940, með áorðnum breytingum.
    Lög um eyðing á rottum, nr. 27/1945, með áorðnum breytingum.
    Lög um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957, með áorðnum breytingum.
    Lög um eyðingu svartbaks, nr. 50/1965, með áorðnum breytingum.
    Lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966, með áorðnum breytingum.
    XII. kafli, um ófriðun sels, í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970.
    Ákvæði í öðrum lögum sem brjóta í bága við lög þessi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 115. og 116. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Er það nú endurflutt með örfáum breytingum sem fæstar eru þó efnislegar.
     Með bréfi, dags. 13. september 1990, skipaði umhverfisráðherra þriggja manna nefnd til þess að undirbúa frumvarp til laga um stýringu á stofnstærðum villtra dýra. Í nefndinni áttu sæti Páll Hersteinsson veiðistjóri, formaður, Sigurður H. Richter dýrafræðingur og Ævar Petersen dýrafræðingur. Ritari nefndarinnar var Arnór Þ. Sigfússon dýrafræðingur.
     Í skipunarbréfi ráðuneytisins segir m.a.:
     „Umhverfisráðherra fyrirhugar að samræma löggjöf á þessu sviði og leggja fram frumvarp/frumvörp til laga um stjórn á stofnstærð villtra dýra á 113. löggjafarþingi sem kemur saman 10. október nk. Eðlilegt virðist að í slíkri löggjöf verði fjallað um öll villt dýr saman og ýmis sérlög, svo sem fyrir refi og minka og svartbak, svo dæmi séu tekin, verði felld úr gildi. Einnig þarf að huga að hvernig lög um fuglaveiðar og fuglafriðun falla inn í slíka löggjöf. Um er því að ræða að setja rammalög um vernd og eftirlit með villtum dýrum og veiðar þeirra. Hins vegar er gert ráð fyrir að með reglugerðum verði settar nánari reglur um einstakar dýrategundir.“
     Með tilliti til þess að tími var naumur og frumvarp til laga um fuglaveiðar og fuglafriðun hafði áður verið samið af nefnd skipaðri af menntamálaráðuneyti ákvað nefndin að mest væri aðkallandi að semja frumvarp til laga um friðun og veiðar á landspendýrum. Taldi nefndin að síðar væri hægt að laga lög um fuglaveiðar og fuglafriðun að frumvarpi um landspendýr ef tími ynnist til og ráðuneytið teldi það æskilegt. Með samþykki umhverfisráðherra var sú leið valin.
     Er nefndin hafði lokið við drög að frumvarpi til laga um landspendýr var ljóst að ekki þyrfti að breyta því í grundvallaratriðum til þess að lög um fuglaveiðar og fuglafriðun gætu rúmast innan sama ramma. Að beiðni umhverfisráðherra var því ráðist í það verk að láta frumvarpsdrögin ná einnig yfir fugla.
     Nefndin skrifaði eftir upplýsingum um sambærilega löggjöf í Danmörku (Skov- og Naturstyrelsen, Miljøministeriet), Noregi (Direktoratet for Naturforvaltning) og Svíþjóð (Statens Naturvårdsverk). Svör bárust frá Danmörku og Noregi. Þótt gagnlegt væri fyrir nefndina að hafa lög þessara þjóða til hliðsjónar reyndist ekki unnt að byggja mikið á þeim því að þau eru ekki rammalög, heldur geyma mjög svo ítarleg ákvæði um alla framkvæmd.
    Frumvarp, sem byggt var á fyrstu tillögum nefndarinnar um vernd landspendýra, var lagt fram á Alþingi skömmu fyrir þinglok á 113. löggjafarþingi 1990–91, en kom ekki til meðferðar þingsins.
     Með bréfi, dags. 4. júlí 1991, fór umhverfisráðherra fram á það við nefndina sem unnið hafði að málinu að hún tæki málið að nýju til meðferðar og skilaði „sem fyrst heildarfrumvarpi um verndun landspendýra, fuglaveiðar og fuglafriðun“. Á síðari stigum nefndarvinnu voru drögin send Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Náttúruverndarráði, Fuglafriðunarnefnd, Dýraverndarnefnd ríkisins og Skotveiðifélagi Íslands til umsagnar. Margar gagnlegar ábendingar bárust frá þessum aðilum.
     Ráðherra fól Jóni Gunnari Ottóssyni að vera tengiliður milli ráðuneytisins og nefndarinnar. Starfaði hann náið með nefndinni á síðari stigum starfsins og hefur frumvarpið verið fært til betri vegar í ljósi ýmissa ábendinga sem fram hafa komið í umsögnum.
     Nefndin hélt alls 30 fundi, þar af 15 eftir endurnýjun umboðs ráðherra. Samkomulag varð í nefndinni um það frumvarp sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi. Í því frumvarpi, sem hér liggur fyrir, eru hins vegar nokkrar breytingar sem gerðar hafa verið frá því það var síðast lagt fram á Alþingi.
     Helsta breytingin er að 14. gr. frumvarpsins hefur verið umskrifuð með tilliti til athugasemda sem fram hafa komið. Þá hefur nýrri málsgrein verið bætt við 4. gr. um skilaskyldu á fuglamerkjum og í 8. gr. er nú kveðið sérstaklega á um rétt til dýraveiða þar sem landi í sameign hefur verið skipt.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir töluverðum breytingum á skipan þessara mála frá því sem verið hefur. Hvað frumvarpið í heild varðar er fyrst og fremst áberandi breyting á almennri afstöðu til villtra spendýra. Fyrri lög hafa byggt á nokkru virðingarleysi gagnvart tilverurétti þeirra og miðað að eyðingu þeirra eða útrýmingu að hreindýrum og selum undanskildum. Hér er sú grundvallarafstaða tekin að öll villt dýr, önnur en mýs, rottur og minkar, skuli njóta verndar og að veiðar séu í raun aðeins heimilar til nytja ef viðkomandi stofn er talinn þola veiðar eða til þess að koma í veg fyrir tjón.
     Í frumvarpinu er mikil áhersla lögð á reglugerðir. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við þá staðreynd að í tímans rás breytist staða einstakra stofna í vistkerfinu, þekking og afstaða manna til villtra dýra og nytja af þeim. Setning rammalaga og reglugerða leyfir meiri sveigjanleika við stýringu einstakra stofna og stjórn veiða en verið hefur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra skuli setja eða geti sett reglugerðir um eftirtalin atriði:
    Aðild að Alþjóðafuglaverndarráðinu (5. gr.).
    Friðun, vernd, veiðar og hefðbundnar nytjar villtra spendýra og fugla (7. gr.).
    Víðtækari friðun fágætra tegunda (7. gr.).
    Sölu, inn- og útflutning villtra dýra, hluta þeirra, egg og starfsemi hamskera (7. gr.).
    Veiðar erlendra ferðamanna á Íslandi (8. gr.).
    Veiðikort, veiðigjald og hæfnispróf veiðimanna (11. gr.).
    Refaveiðar (12. gr.).
    Minkaveiðar (13. gr.).
    Hreindýraveiðar (14. gr.).
    Selveiðar (16. gr.).
    Fuglaveiðar (18. gr.).
    Friðlýsingu æðarvarpa og selalátra (19. gr.).
     Sum ofantalinna atriða má sameina við setningu reglugerða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér eru gefnar skýringar á nokkrum orðum sem notuð eru í frumvarpinu en mörg þeirra hafa óljósa merkingu í hugum fólks. Ekki á það síst við um orðið vernd sem margir rugla saman við friðun.

Um 2. gr.

    Markmið laganna er að skapa grundvöll þess að maðurinn geti lifað í landinu í sátt við villt dýralíf þess. Auk þess að vera friðunarlög taka lögin til atriða sem valdið geta árekstrum við hagsmuni mannsins, sem og nytja af villtum dýrum.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er staðfesting þess að umhverfisráðherra hafi umsjón allra mála er varða villta fugla og spendýr, að hvölum undanskildum. Fyrir stofnun umhverfisráðuneytis var umsjón með málum þessum komið fyrir í þrem ráðuneytum, þ.e. landbúnaðarráðuneyti (refur, minkur, svartbakur), menntamálaráðuneyti (fuglar, hreindýr) og heilbrigðisráðuneyti (rottur, mýs). Segja má að málefni sela hafi verið utan ráðuneyta þótt bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti hafi talið málið sér skylt vegna hlunninda bænda og meints tjóns af völdum sela við laxveiðiár annars vegar og vegna hringorma í sjávarafla hins vegar. Með færslu þessara málaflokka undir umhverfisráðuneyti má ætla að meira samræmi myndist í afstöðu hins opinbera gagnvart hinum ýmsu og ólíku tegundum.
     Nauðsynlegt er talið að setja ákvæði í frumvarpið um ráðgjafarnefnd fyrir umhverfisráðherra sem ynni að ýmsum málum er tengjast stefnumörkun og stýringu villtra dýrastofna, sérstaklega hvað varðar setningu reglugerða, leyfisveitingar og undanþágur frá lögunum. Svokallaðri villidýranefnd er ætlað að koma í stað fuglafriðunarnefndar sem lögð yrði niður en starfssviðið yrði víðtækara þar eð hún fjallaði bæði um fugla og spendýr. Þar sem ákvarðanir og stefnumið (önnur en þau sem eru skilgreind í 2. gr. frumvarpsins) eru oft hagsmunalegs fremur en faglegs eðlis er gert ráð fyrir að auk fagmanna fái hagsmunaaðilar fulltrúa í ráðgjafarnefndinni. Skýrt er kveðið á um það í frumvarpinu að ætíð skuli leita tillagna og umsagnar villidýranefndar við setningu reglugerða, leyfisveitingar, veitingar undanþágna og við önnur stjórnvaldsfyrirmæli um villt dýr.
     Villidýranefnd mun taka að sér þau verkefni sem fuglafriðunarnefnd hefur nú að frátalinni beinni þátttöku Íslands í Alþjóðafuglaverndarráðinu.

Um 4. gr.

    Þessi grein kemur í stað þess hluta laga um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957, sem fjallar um hlutverk veiðistjóra. Veiðistjóraembættið er fagleg stofnun og því er gert ráð fyrir að veiðistjóri hafi sérmenntun á sínu sviði. Veiðistjóra er ætlað að annast fyrir hönd umhverfisráðherra stýringu á stofnum villtra dýra sem valdið geta tjóni og aflétta má friðun á skv. VI. kafla frumvarpsins. Veiðistjóraembættið á einnig að stjórna öðrum aðgerðum sem komið geta í stað veiða til þess að forða tjóni.
     Áhersla er lögð á að bæta þurfi þekkingu á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra sem tjóni geta valdið, sem og eðli og umfangi tjóns og leiðum til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra. Þetta verður aðeins gert með auknum rannsóknum. Eðlilegt er að þessi rannsóknastarfsemi sé stunduð af veiðistjóraembættinu í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Mikilvægt er að sem styst boðleið sé frá þeim sem rannsóknirnar stunda til þeirra sem nýta niðurstöður þeirra til þess að koma í veg fyrir tjón. Á sama hátt er mikilvægt að boðleiðin sé stutt í hina áttina, þ.e. frá þeim sem skilgreina tjónið til þeirra sem skipuleggja og stunda rannsóknir á tjóni og dýrunum sem valda því. Til þess að ávallt sé leitað til færustu sérfræðinga vegna mismunandi rannsóknarþátta er tekið sérstaklega fram að samvinna skuli höfð við aðrar rannsóknastofnanir og aðra sérfróða aðila eftir því sem þörf krefur og um semst milli þessara aðila. Í gildandi lögum og reglugerðum er engum opinberum aðila ætlað að stunda rannsóknir á tjóni af völdum villtra dýra og hvernig koma megi í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Lögin eiga að bæta úr því.
     Mikilvægt er að boðleið sé stutt milli rannsóknaraðila og þeirra sem leiðbeina um veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón. Af þessum sökum er veiðistjóraembættinu falin umsjón með leiðbeiningum handa þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón. Við minkaveiðar er fátt mikilvægara en góðir veiðihundar og því er kveðið á um að veiðistjóraembættinu skuli heimilt að reka hundabú eins og það hefur reyndar gert undanfarna áratugi.
     Þá er eðlilegt að veiðistjóri sem framkvæmdaraðili sé í nánu sambandi við bæði villidýranefnd og ráðuneyti og því er kveðið á um það í 5. mgr. þessarar greinar.
     Fuglamerkingar hafa um áratuga skeið verið ein mikilvægasta aðferðin við rannsóknir á villtum fuglum. Gert er ráð fyrir að þær verði eins og áður í höndum Náttúrufræðistofnunar Íslands einnar og að skilaskylda á fuglamerkjum verði með sama hætti og kveðið er á um í gildandi lögum.

Um 5. gr.

    Með tilliti til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fuglafriðunarnefnd verði lögð niður en í hennar stað komi villidýranefnd með aukin umsvif þykir rétt að kveðið sé á um fulltrúaráð sem komi fram fyrir Íslands hönd gagnvart Alþjóðafuglaverndarráðinu, sbr. auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 5. maí 1948. Villidýranefnd er ekki talin fullnægja þeim skilyrðum sem gera verður til þeirra fulltrúa sem koma fram fyrir hönd Íslands í Alþjóðafuglaverndarráðinu, heldur þykir rétt að slíkt fulltrúaráð verði skipað fulltrúum nefnda, samtaka og stofnana sem hafa fuglavernd á stefnuskrá sinni.

Um 6. gr.

    Hér er sett sú grundvallarregla að öll villt spendýr, önnur en mýs, rottur og minkar, og allir villtir fuglar á Íslandi og innan íslenskrar landhelgi njóti verndar. Þetta á einnig við um þá fugla og spendýr sem hingað kunna að berast af sjálfsdáðum. Um vísvitandi innflutning dýra gilda lög um innflutning dýra, nr. 54/1990.
     Önnur grundvallarregla, sem kemur fram í þessari grein, er sú að menn skuli sýna villtum dýrum og lífsvæðum þeirra nærgætni og forðast óþarfa truflanir. Tekið skuli tillit til villtra dýra og lífsvæða þeirra við gerð aðalskipulags, svæðaskipulags og aðra landnýtingu.

Um 7. gr.

    Tvennt skal liggja til grundvallar því að heimilt sé að veiða villt dýr. Í fyrsta lagi skal gæta þess að viðkoma stofns vegi upp á móti veiðum að því marki að ekki sé hætta á útrýmingu. Í öðru lagi skal vera gild ástæða til veiðanna, annaðhvort að verið sé að nytja afurðir dýranna eða að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Auk þess getur umhverfisráðherra heimilað takmarkaðar veiðar í rannsóknarskyni, fyrir söfn og dýragarða eða til ræktunar og undaneldis, sbr. 5. og 6. mgr.
    Hægt er að setja eina eða fleiri reglugerðir um friðun, vernd eða heimildir til veiða á villtum dýrum. Í VI. kafla eru talin upp öll þau dýr sem heimilt er að aflétta friðun á með reglugerð. Þar skal koma fram til hvaða tegunda reglugerðin nær, á hvaða tímabili, hvar megi veiða þær og hvaða veiðiaðferðum megi beita. Einnig skal í reglugerðum kveðið á um hefðbundnar nytjar, svo sem æðarrækt, kópaveiði, lunda- og fýlaveiðar, eggnytjar á bjargfugli o.s.frv., og eru þær tegundir, sem þetta ákvæði á við, taldar upp í VII. kafla frumvarpsins.
     Reglugerðir kveði á um aukna friðun fágætra tegunda, t.d. varðandi dvöl manna og myndatökur við hreiður, sbr. gildandi reglugerð nr. 97/1968, skrá yfir fágætar tegundir sem unnt er að vísa til þegar refsing er metin, sbr. 20. gr., skráningu og merkingu á sjaldgæfum dýrum sem eru til uppsett frá því fyrir gildistöku nýrra laga, skylduskil til opinberra náttúrugripasafna á dýrum sem finnast dauð eða ósjálfbjarga og skilgreiningu á hvað teljist opinber náttúrugripasöfn.
     Umhverfisráðuneytið hefur samkvæmt grein þessari umsjón með útflutningi á villtum dýrum, enda var útflutningur villtra fugla undir stjórn menntamálaráðuneytis fyrir stofnun umhverfisráðuneytis. Sjálfsagt er að umhverfisráðuneyti hafi einnig umsjón með innflutningi í samráði við landbúnaðarráðuneyti, sbr. lög um innflutning dýra, nr. 54/1990, ef um er að ræða dýr sem gætu sest hér að eða dýr sem eru í útrýmingarhættu annars staðar í heiminum. Því er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra setji reglugerð um inn- og útflutning villtra fugla og villtra spendýra eða afurða þeirra, sem og um ham- og skinnatöku og uppsetningu dýra.
     Eðlilegt er að í reglugerð verði tiltekið hvaða kröfur séu gerðar til þeirra sem hafa heimild til skinnatöku, hamtöku og uppsetningar villtra dýra. Í reglugerð verði einnig kveðið á um hvaða tegundir má setja upp, skráningu og auðkenningu skinna og hama villtra dýra, hamtöku og uppsetningu fágætra tegunda, skylduskil til safna og annað sem við á.
     Mikilvægt er að umhverfisráðherra hafi heimild til þess að veita undanþágu frá friðunarákvæðum vegna vísindalegra rannsókna og þarfnast það ekki frekari skýringa. Þótt vitað sé að dýragarðar eða önnur söfn lifandi dýra hafi í mörgum tilvikum leitt hörmungar yfir þau dýr sem þar dvelja vegur þungt að dýragarðar geta haft mikið fræðslugildi, enda sé framfylgt ströngum reglum um starfsemi þeirra. Þá eru þess og allmörg dæmi erlendis frá að dýragarðar hafi orðið til þess að bjarga tegundum frá útrýmingu.
     Vegna eðlis þess starfs við söfnun, skráningu og öflun almennra upplýsinga um dýralíf á Íslandi sem fram fer við Náttúrufræðistofnun Íslands er nauðsynlegt að stofnunin hafi heimild til þess að veiða fugla, friðaða sem ófriðaða, án sérstakra heimilda líkt og nú er skv. 2. mgr. 12. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966. Reynslan sýnir að þær aðstæður koma upp annað slagið að ekki er ráðrúm til að afla slíkra heimilda.
     Víða um heim eru þekkt dæmi þess að dýrategundir, sem menn hafa flutt til nýrra heimkynna, hafi valdið miklum usla á náttúrunni þar sem lífríki var ekki lagað að tilvist þeirra. Þrátt fyrir grundvallarsjónarmið frumvarpsins um vernd villtra fugla og villtra spendýra getur sú staða komið upp að rétt þyki að útrýma tegund eða stofni dýra á Íslandi, sem ekki teljist til íslenska dýraríkisins, vegna tjóns sem hún valdi á náttúru landsins eða heilsu manna og dýra. Síðasta málsgrein 7. gr. heimilar umhverfisráðherra að taka ákvörðun um að stefnt skuli að útrýmingu tegundar sem flust hefur til Íslands af mannavöldum, enda telji villidýranefnd það bæði æskilegt og gerlegt. Hugsanlegt er t.d. að villiminkur fylli þennan flokk síðar ef tekst að finna aðferð til þess að útrýma honum.

Um 8. gr.

    Ekki er talin ástæða til þess að breyta núgildandi reglum um aðgang almennings að veiðilendum eða veiðirétt landeigenda. Eignarréttarmál í almenningum og afréttum taka til mun fleiri þátta en nytjaréttar á dýrum. Taka þarf á þeim málum í heild, en til þess að nytjaréttarþátturinn verði ekki til þess að tefja framgang þessa frumvarps eru ákvæði greinarinnar efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966.
     Í greininni er einnig heimild fyrir umhverfisráðherra að setja reglugerð um veiðar erlendra ferðamanna. Það hefur færst í vöxt að útlendingar komi til Íslands í því skyni að stunda hér skotveiðar og því er tæplega verjandi annað en að settar verði skýrar reglur í þessum efnum.

Um 9. gr.

    Hér eru taldar upp þær veiðiaðferðir sem óheimilar eru og byggist upptalningin að mestu á ákvæðum Alþjóðasamþykktar um fuglaverndun (Parísarsáttmálans) sem Íslendingar hafa verið aðilar að síðan árið 1956 og Samnings Evrópuráðsins um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bernarsáttmálans) sem Ísland er aðili að. Gert er ráð fyrir að undanþágur megi veita vegna veiða í vísindaskyni eða ef dýr valda tjóni og er það í samræmi við þessa sáttmála.

Um 10. gr.

    Sú grundvallarregla er sett fram í þessari grein að veiðar á villtum fuglum og landspendýrum séu óheimilar á svæðum sem hafa verið friðlýst vegna dýralífs, sbr. lög um náttúruvernd, nr. 47/1971. Þó má aflétta tímabundið eða rifta þeirri friðun að fullu eða gagnvart tiltekinni tegund ef ráðgjafarnefnd ráðherra, villidýranefnd, mælir með því og Náttúruverndarráð samþykkir.
     Sú regla skal og gilda að veiðimenn hirði bráð sína hvort sem dýr hefur verið veitt vegna afurðanna eða til þess að koma í veg fyrir tjón. Það mannúðarsjónarmið skal einnig gilda að veiðimaður geri allt sem í hans valdi standi til þess að aflífa sært dýr, jafnvel þótt hann þurfi að fara af því tilefni inn á landareign þar sem hann hefur ekki heimild til þess að veiða. Til þess að ákvæði þetta verði ekki notað sem skálkaskjól til veiðiþjófnaðar er talið rétt að veiðiréttareigandi verði eigandi bráðarinnar í þeim tilvikum.

Um 11. gr.

    Íslendingar eru langt á eftir nágrannaþjóðum hvað varðar eftirlit með stofnum dýra sem veiðar eru stundaðar á. Hér á landi ætti að nægja að nefna dæmi af rjúpunni sem um árabil hefur verið tilefni deilna um áhrif veiða á stofnstærð. Vandinn er m.a. sá að engar upplýsingar eru fyrir hendi um árlega veiði eða fjölda þeirra veiðimanna sem stunda rjúpnaveiðar.
    Erlendis er eftirlit m.a. fólgið í því að þeir sem vilja stunda veiðar skuli árlega afla sér veiðikorts sem er sönnun þess að þeir hafi skilað skýrslu um veiðar síðasta árs og greitt gjald í veiðisjóð. Veiðiskýrslur veita upplýsingar um heildarveiði og breytingar á veiði milli ára. Veiðigjald yrði notað til þess að standa straum af kostnaði við rannsóknir á villtum dýrum og til stýringar stofnum villtra dýra.
     Rétt er að minna á að veiðidagbækur eru skylda við alla aðra veiði og ekki að ástæðulausu, sbr. lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, og lög og reglur um fiskveiðar í sjó.
    Brýnt er að útgáfu veiðikorta og veiðiskráningu verði komið á hér á landi hið allra fyrsta og því er ákvæði í þessari grein um að umhverfisráðherra skuli setja reglur þar að lútandi. Í reglugerð verði m.a. ákvæði um að veiðigjald geti verið mishátt eftir því hve víðtækt veiðikortið er, t.d. hvaða tegundir veiðimaður hyggst veiða á gildistímabili veiðikorts. Gert er ráð fyrir að hægt verði að gefa út takmarkaðri veiðikort til landeigenda sem nýta vilja hlunnindi á eigin landi eða þurfa að verjast tjóni af völdum villtra dýra með veiðum.
     Íslendingar hafa einnig dregist aftur úr að því er varðar kröfur til hæfni veiðimanna. Hér á landi hefur löngum verið litið svo á að menn séu fæddir veiðimenn og þurfi eingöngu lágmarkstilsögn í meðhöndlun skotvopna, en hæfni veiðimanna er fólgin í fleiri atriðum en því að kunna að skjóta af byssu.
     Árin 1990 og 1991 voru haldin í Reykjavík námskeið að tilstuðlan dómsmálaráðuneytisins þar sem tilsögn var m.a. veitt í vistfræði og náttúruvernd. Einnig hefur kennsla í meðferð skotvopna verið aukin. Hér hafa verið stigin skref í framfaraátt og námskeið af þessu tagi ber að efla enn frekar. Því er gert ráð fyrir heimild til handa umhverfisráðherra að gera kröfu um að allir þeir, sem heimild fái til að stunda veiðar, hafi sótt námskeið og lokið prófi er lýtur að þekkingu á villtum dýrum og umhverfi þeirra, sem og í hæfni til veiða.

Um VI. kafla.

    Vegna ólíkra lífshátta íslenskra spendýra og mismunandi hagsmuna mannsins gagnvart þeim er nauðsynlegt að hafa sérákvæði um einstakar tegundir. Gert er ráð fyrir að hægt sé að setja reglugerðir fyrir hverja tegund eða eina reglugerð fyrir tvær eða fleiri tegundir, sbr. ákvæði 7. gr. Einnig eru taldar upp þær fuglategundir sem heimilt er að aflétta friðun á.

Um 12. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er óheimilt að eyðileggja greni. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi má líta á eyðileggingu grenja sem náttúruspjöll, enda hafa mörg þeirra sennilega verið í notkun öldum eða jafnvel árþúsundum saman. Í öðru lagi gerir það grenjaskyttum erfitt um vik ef þekkt greni eru eyðilögð því að þá aukast líkur á að tófan notfæri sér óþekkt greni. Truflun af öllu tagi, sérstaklega með hundum, er einnig á allan hátt óæskileg og því er bann við truflun á grenjum sérstaklega áréttað hér. Þá er gert ráð fyrir að stjórnir sveitarfélaga haldi skrár um þekkt greni líkt og núgildandi lög um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957, mæla fyrir um.
     Samkvæmt 2. mgr. er það grundvallarregla að refir skuli friðaðir á grenjatíma þótt friðun hafi verið aflétt.
     Í 3. mgr. er fjallað um þau svæði þar sem hætta á tjóni af völdum refa er slík, að mati umhverfisráðherra, að refaveiðar eru taldar nauðsynlegar. Þar skal grenjavinnsla stunduð á líkan hátt og gert er samkvæmt gildandi lögum og endurgreiðir þá ríkissjóður helming kostnaðar við veiðarnar eftir viðmiðunartöxtum. Sums staðar háttar svo til að hægt er að ná sama árangri með miklu minni tilkostnaði með veiðum að vetrarlagi. Þetta á einkum við um heiðalönd og önnur svæði fjarri byggð þar sem refir hafa ekki aðgang að smálömbum og því tiltölulega lítil hætta á að refir bíti. Í þeim tilvikum er gert ráð fyrir að sveitarstjórn og veiðistjóri geti komið sér saman um að innan tiltekinnar fjarlægðar frá byggð verði stunduð grenjaleit og grenjavinnsla en fjær byggð verði skipulagðar vetrarveiðar.
    Þá er gert ráð fyrir að aðrir en veiðimenn, sem til þess séu ráðnir, fái ekki að veiða refi á grenjatíma. Ástæðan er m.a. sú að oft hefur orðið mikill kostnaður af því er menn skjóta dýr af grenjum án vitundar grenjaskyttna. Þó telur nefndin nauðsynlegt að sauðfjárbændur og æðarræktendur geti veitt hlauparefi sem þeir telja að stofni sauðfé eða æðarvarpi í hættu.

Um 13. gr.

    Ákvæði um minkaveiðar eru að mestu í samræmi við gildandi lög en þó sveigjanlegri. Þannig verður ekki lengur skylt að leita minka um allt land. Með því móti verður væntanlega hægt að beina mestu fjármagni þangað sem tjón af völdum minka er mest.
     Ákvæðum um ýmis framkvæmdaratriði er sleppt frá fyrri lögum og gert ráð fyrir að þau verði í reglugerð.

Um 14. gr.

    Hreindýr hafa nokkra sérstöðu í lífríki Íslands þar eð í upphafi voru þau gjöf til Íslendinga. Samkvæmt áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands, dags. 12. apríl 1991, sem unnið var að frumkvæði umhverfisráðuneytis, er hreindýrastofninn á Íslandi „ekki háður beinum eignarrétti í einkaréttarlegum skilningi, hvorki ríkisins né annarra“. Þá hefur löggjafinn „víðtækar heimildir til að setja reglur um meðferð og nýtingu hreindýrastofnsins, þar á meðal að kveða á um skipulag á veiðum. Réttur, sem sveitarfélög á Austurlandi hafa haft til nýtingar stofnsins í skjóli reglna sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 28/1940, sbr. lög nr. 75/1954, setur löggjafanum ekki skorður í því efni.“ Loks segir í ályktunum Lagastofnunar að samkvæmt íslenskum rétti verði „bótaskylda ríkisins af völdum hreindýra ekki reist á víðtækari eða strangari bótareglum en leiða má af sakarreglunni“.
     Sérstakar reglur þurfa að gilda um veiðar og rannsóknir á hreindýrum, sem og um tjón og arð af hreindýrum. Nauðsynlegt er talið að lögfesta ákvæði um sérstaka nefnd, hreindýraráð, sem hafi umsjón með hreindýraveiðum fyrir hönd umhverfisráðherra og verði honum til ráðgjafar við hvaðeina sem lýtur að friðun, vernd og nýtingu á hreindýrastofninum. Gert er ráð fyrir að rekstur ráðsins og rannsóknir á hreindýrastofninum verði fjármagnaðar með sérstöku gjaldi sem greiða skal af hverju felldu hreindýri og umhverfisráðherra ákveður.
     Í 1. mgr. er nytjaréttur á hreindýrum og eignarréttur lands aðskilinn og er það frávik frá meginreglu þeirri sem gildir um nytjarétt, sbr. 8. gr. Þetta er nauðsynlegt að gera m.a. í ljósi þess að tjón af völdum hreindýra er fyrst og fremst að vetrarlagi, en hreindýrin halda sig oft á öðrum svæðum þá en á haustin þegar æskilegt er að veiða þau.

Um 15. gr.

    Veiðar á rottum og músum með gildrum verða öllum heimilar eins og áður, en þó er gert ráð fyrir að villidýranefnd þurfi að samþykkja hvaða gerðir af gildrum sé heimilt að nota, sbr. 9. gr.
     Einnig er gert ráð fyrir að heilbrigðisnefnd sjái um skipulega fækkun á rottum og músum eins og áður en sú breyting gerð á að samráð verði haft við umhverfisráðherra um þau ákvæði heilbrigðisreglugerða er fjalla um notkun eiturs til þeirra verka.

Um 16. gr.

    Engin heildarlöggjöf er í gildi um seli og rostunga eða veiðar á þeim við Ísland. Samkvæmt frumvarpinu eru rostungar alfriðaðir en ráðherra getur samkvæmt tillögum sjávarútvegsráðherra sett reglugerð sem heimilar skotveiðar á fjórum tegundum sela. Ætlast er til að í reglugerð verði tilgreind þau svæði og árstímar þegar veiði er heimiluð á hverri tegund fyrir sig, að teknu tilliti til hefða og staða þar sem selur getur valdið tjóni í og við laxveiðiár. Um hefðbundna kópaveiði er fjallað í 19. gr.
     Sjávarútvegsráðherra er ætlað að hafa umsjón með og stjórna þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela eða tjón af þeirra völdum. Veiðistjóraembættið annast fyrir hönd umhverfisráðherra stýringu á stofnum annarra villtra dýra sem valdið geta tjóni og aflétta má friðun á skv. VI. kafla frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Eftirlit með veiðum á ísbjörnum í þeim löndum, þar sem þeir eiga heimkynni, er mjög strangt og gerðu Norðmenn, Danir (fyrir hönd Grænlendinga), Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Sovétmenn með sér samkomulag um vernd þeirra árið 1973. Ísbirnir slæðast stundum með hafís til Íslands þótt þeir gangi ekki alltaf á land. Rétt þykir að styrkja viðleitni fyrrgreindra þjóða með því að banna veiðar á ísbjörnum á hafís eða á sundi með tilliti til þess að í flestum tilvikum má gera ráð fyrir að þeir hverfi á braut án þess að valda hættu hér á landi.
    Gangi ísbirnir á land gegnir öðru máli. Þá er eðlilegt að heimilt sé að fella þá en áhersla er á það lögð að til veiðanna séu notuð heppileg vopn eftir því sem hægt er.
     Með tilliti til þess að þær aðstæður geta skapast að umhverfisráðherra telji heppilegra að fanga ísbjörn sem gengið hefur á land og flytja þangað sem mönnum og búfénaði stafar ekki hætta af honum er nauðsynlegt að hafa í frumvarpinu ákvæði um heimild til slíkra aðgerða.
     Ólíkt því sem gilt hefur til þessa er felldur ísbjörn eign þjóðarinnar og skal samkvæmt því færður Náttúrufræðistofnun til rannsóknar, enda beri ríkissjóður kostnað við veiðarnar og flutning dýrsins. Stofnunin getur hins vegar ráðstafað honum að rannsókn lokinni, t.d. til safns eða skóla í því byggðarlagi þar sem hann veiddist.

Um 18. gr.

    Tilgreindar eru þær fuglategundir sem aflétta má friðun á og setja allstranga ramma um þann tíma árs sem umhverfisráðherra er heimilt að aflétta friðun. Rammi þessi er að mestu sniðinn eftir gildandi lögum um veiðitíma fugla. Gert er ráð fyrir því að um þetta verði sett reglugerð þar sem í ýmsum tilvikum verði leyfður styttri veiðitími en heimilaður er samkvæmt frumvarpinu.
     Þá þykir rétt að ítreka að sýnd skuli varúð og nærgætni í grennd við fuglabjörg.

Um 19. gr.

    Hlunnindi ýmiss konar hafa frá alda öðli verið mikilvægur þáttur í lífsafkomu Íslendinga og skipt sköpum fyrir sum byggðarlög. Flest þessara hlunninda skipta litlu máli fyrir afkomu manna nú á tímum. Þrátt fyrir það er ekki ástæða til að afnema rétt veiðirétthafa til þeirra, enda er ekkert sem bendir til þess að hefðbundin nýting hafi stefnt umræddum stofnum í hættu sé litið til landsins í heild þótt staðbundin vandamál vegna ofnýtingar kunni að vera til staðar.
    Í 1. mgr. er fjallað um friðlýst æðarvarp. Áður var gert ráð fyrir þeirri breytingu frá 9. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966, að bannað væri, án leyfis varpeiganda, að leggja net nær friðlýstu æðarvarpi en ½ km frá stórstraumsfjörumáli en í lögunum er miðað við ¼ km. Í þessu frumvarpi er miðað við 250 m eins og áður. Í ljósi þeirra athugasemda, sem fram hafa komið, þykir rétt að láta ákvæði gildandi laga gilda áfram. Þá er ætlunin að í reglugerð verði ákvæði um framkvæmd friðlýsingar og skilgreiningu æðarvarps.
     Kveðið er skýrt á um að þar sem veiði fullvaxinna svartfugla í háf telst til hefðbundinna hlunninda, eins og í Vestmannaeyjum og Grímsey, skuli friðunarákvæði ekki vera þessari veiði til fyrirstöðu.
     Um töku andar- og gæsareggja gilda þau ákvæði að minnst skuli skilin eftir fjögur egg í andarhreiðri og tvö í gæsarhreiðri. Auk skeiðandar, skutulandar og straumandar, sem eru undanskildar þessu ákvæði samkvæmt gildandi lögum, eru samkvæmt frumvarpinu gargönd, hrafnsönd og gulönd einnig undanskildar þessu heimildarákvæði. Þá er heimilt að taka heiðagæsaregg samkvæmt þessari grein, en það er ekki heimilt samkvæmt lögum nr. 33/1966.
    Bann er lagt við því að veiðirétthafi dreifi andareggjum til annarra hvort sem er með sölu eða gjöfum. Þetta er breyting frá gildandi lögum en til þessa hefur fáeinum aðilum verið heimilt að flytja út andaregg en þó ekki æðaregg.
     Gert er ráð fyrir óbreyttum heimildum til hefðbundinnar nýtingar ýmissa fuglategunda, sem og til hefðbundinnar veiði landsels- og útselskópa, en eigandi veiðiréttar skal afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á rétti sínum.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að dómarar líti til skilgreininga í reglugerðum á því hvað teljist vera sjaldgæf eða fágæt tegund við ákvörðun refsingar fyrir brot á lögunum, en ákvæðið er nýtt.

Um 21. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.

    Æskilegt er að lögin taki gildi í ársbyrjun 1994. Þannig verður hjá því komist að ný lög taki gildi á helstu veiðitímum fugla eða á grenja- og hreindýraveiðitíma.
     Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vernd, friðun og veiðar á

villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum.

    Helstu breytingar frá gildandi lögum samkvæmt frumvarpinu felast í því að hér er á ferðinni heildarlöggjöf um stýringu á veiðum og eftirliti með villtum spendýrum og fuglum á Íslandi og að þannig falli niður ákvæði fjölmargra laga er varða ofangreint málefni.
    Kostnaðaráhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð eru af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða breytingar á skuldbindingum um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs vegna veiða á refum og minkum, aukin umsvif embættis veiðistjóra vegna aukinna rannsókna á villtum dýrum í samráði og samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og stofnun sjö manna nefndar, villidýranefndar, sem verði umhverfisráðherra til ráðuneytis um málefni er snerta framkvæmd laganna. Hins vegar er um að ræða tekjuöflun með sölu veiðileyfakorta og gjaldtöku fyrir veiðar á hreindýrum.
    Ákvæði 12. og 13. gr. frumvarpsins, sem fjalla um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við veiðar á refum og minkum, breytast þannig frá lögum nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, að hlutur ríkissjóðs í kostnaðinum lækkar úr 75% í 50%. Þá er gert ráð fyrir meiri stýringu á þessum veiðum í framtíðinni sem gæti leitt til frekari lækkunar á kostnaði. Með lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, voru sett sambærileg ákvæði, nema hlutdeild ríkissjóðs var áfram 75% hjá sveitarfélögum þar sem kostnaðurinn varð umfram 3.000 kr. á íbúa. Sú ráðstöfun lækkaði kostnað ríkissjóðs við veiðarnar úr um 40 m.kr. í um 30 m.kr. Ákvæðunum var breytt lítillega í lánsfjárlögum fyrir árið 1993 þannig að mörkin fyrir 75% hlutdeild ríkissjóðs voru dregin við sveitarfélög með kostnað umfram 4.000 kr. á íbúa, auk þess sem endurgreiðslur falla niður í sveitarfélögum þar sem íbúar eru fleiri en 2.000. Áætlað er að sú breyting lækki kostnaðinn um 2 m.kr. til viðbótar í ár.
    Ákvæði 4. gr. frumvarpsins um auknar rannsóknir á villtum dýrum og fuglum fela í sér að kostnaður við rekstur embættis veiðistjóra mun hækka á næstu árum.
    Ákvæði 3. gr. frumvarpsins um skipun sjö manna villidýranefndar hefur að líkindum allt að 0,5 m.kr. kostnað í för með sér, en á móti verður fuglafriðunarnefnd lögð niður.
    Ákvæði 11. gr. frumvarpsins um að allir sem ætli að stunda veiðar þurfi til þess tilskilið leyfi gegn greiðslu fyrir veiðikort felur í sér nýja tekjuöflun. Ef t.d. gert er ráð fyrir að 15.000 manns kaupi kort og að kortið kosti 1.000 kr. verða tekjur 15 m.kr. Á móti hlýst nokkur kostnaður við eftirlit með veiðum og skráningu og úrvinnslu upplýsinga sem skilað er inn vegna kvaða þar að lútandi við endurnýjun veiðikorts. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins skal verja tekjunum til að standa undir rannsóknum og stýringu á veiðum. Að mati fjármálaráðuneytisins er óráðlegt að marka tekjustofna með þessum hætti, fremur skuli ákvarða í fjárlögum hverju sinni framlag til tiltekinna verkefna.
    Að teknu tilliti til ofangreindra þátta má ætla að skuldbindingar ríkissjóðs vegna þessa málaflokks lækki um rúmlega 10 m.kr. miðað við þá löggjöf sem gilti á árinu 1991. Lækkunin skýrist að mestu af minni kostnaði ríkissjóðs vegna veiða á refum og minkum, en sú lækkun hefur raunar þegar átt sér stað með tímabundnum breytingum á gildandi lögum um veiðarnar.