Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 244 . mál.


283. Frumvarp til laga


um prestssetur.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)


1. gr.

    Í lögum þessum merkir orðið prestssetur lögboðinn aðsetursstað prests og er hluti af embætti hans.
    Prestssetur eru:
     Prestssetursjörð: Tiltekin jörð (lögbýli) ásamt mannvirkjum, þar með talið íbúðarhús sem að lögum er prestssetur.
     Prestsbústaður: Íbúðarhúsnæði án jarðnæðis í tilteknu sveitarfélagi eða á tiltekinni jörð eða nafngreindum stað þar sem lögboðið er að prestssetur skuli vera.

2. gr.

    Stofnsettur skal sérstakur sjóður, prestssetrasjóður.
    Stjórn sjóðsins, sbr. 3. gr., fer með yfirstjórn prestssetra og hefur fyrirsvar þeirra vegna.
    Prestssetrasjóður stendur straum af kostnaði við prestssetrin, sbr. 6. gr. laga þessara.

3. gr.

    Kirkjuráð kýs þriggja manna stjórn prestssetrasjóðs og varamenn þeirra og skiptir með þeim verkum. Kjörtímabil stjórnar er hið sama og kirkjuráðs.
    Kirkjuþing getur sett sjóðstjórn starfsreglur og gert ályktanir um hvaðeina er lýtur að stjórn og starfrækslu sjóðsins er bindur sjóðstjórn.

4. gr.

    Stjórn prestssetrasjóðs er heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim, en samningur verður ekki bindandi fyrir aðila nema kirkjuþing og dóms- og kirkjumálaráðherra hafi heimilað þá ráðstöfun.

5. gr.

    Prestum ber að gjalda prestssetrasjóði leigu fyrir prestssetur. Sjóðstjórn ákveður leigukjör, þar með talið leigugjald, og gerir leigusamninga við presta um prestssetur. Ákvæði húsaleigulaga og ábúðarlaga taka til réttarsambands aðila eftir því sem við getur átt.

6. gr.

    Prestssetrasjóður kostar:
    Nýbyggingar prestssetra.
    Kaup og sölu prestssetra.
    Viðhald prestssetra.
    Eignakaup á prestssetursjörðum við ábúðarlok prests ef því er að skipta.
    Lögboðnar vátryggingar prestssetra.
    Fasteignagjöld prestssetra.
    Annan rekstur prestssetranna sem greiðist ekki af presti.
    Rekstur sjóðsins.

7. gr.

    Tekjur prestssetrasjóðs eru sem hér segir:
    Fast framlag úr kirkjumálasjóði.
    Leigutekjur af prestssetrum.
    Álag greitt af presti við úttekt samkvæmt lögbundinni úttekt við ábúðarlok hans ef því er að skipta.
    Söluandvirði prestssetra.
    Framlög sem einstakar sóknir kunna að verja til tiltekinna verkefna.

8. gr.

    Við gildistöku laga þessara tekur stjórn prestssetrasjóðs við þeirri yfirstjórn prestssetra sem verið hefur í höndum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, svo og réttindum og skyldum sem þeim fylgja.

9. gr.

    Reikningshald prestssetrasjóðs skal vera í höndum biskupsstofu nema kirkjuþing geri aðra skipan þar á.
    Ríkisendurskoðun endurskoðar fjárreiður prestssetrajóðs.

10. gr.

    2. málsl. 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl., nr. 35 9. maí 1970, verður svohljóðandi: Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestssetur er að ræða.
    2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990, fellur úr gildi.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Kirkjuráð kýs svo fljótt sem auðið er þriggja manna stjórn prestssetrasjóðs og varamenn og skiptir með þeim verkum. Sú stjórn skal setja sér starfsreglur að fengnum tillögum Prestafélags Íslands og prófastafundar. Kjörtímabil þeirrar stjórnar skal vera hið sama og núverandi kirkjuráðsmanna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um kirkjumálasjóð.
    Verði frumvarp þetta að lögum felur það í sér að sérstök lög munu eftirleiðis gilda um prestssetur landsins. Tekin verða af öll tvímæli um að sérstakar reglur og sjónarmið gilda um þessar eignir. Fram að þessu hefur lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, nr. 27 25. apríl 1968, verið beitt gagnvart prestsbústöðum og einnig íbúðarhúsum á prestssetursjörðum að nokkru leyti, en svo verður ekki eftirleiðis hljóti frumvarp þetta lagagildi.
    Frumvarpið felur jafnframt í sér að stjórnsýsla prestssetra og tilsjón með þeim færist frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til þjóðkirkjunnar.
    Frumvarpið ráðgerir að stofnaður verði sérstakur sjóður, prestssetrasjóður, sem lúti þriggja manna stjórn sem fari með stjórnsýslu prestssetra og standi straum af kostnaði við stofn- og rekstrarkostnað prestssetranna. Engin afstaða er tekin til eignarréttar yfir prestssetrunum. Í því sambandi þykir rétt að vekja athygli á álitsgerð kirkjueignanefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 23. desember 1982. Í fyrri hluta álitsgerðar nefndarinnar frá 1984 er fjallað um stöðu jarðeigna kirkjunnar. Þar segir m.a. um prestssetrin: „Prestsseturshúsin voru óumdeilanleg eign prestakallanna (embættanna) og hlutverk þeirra var að gera starf kirkjunnar mögulegt á viðkomandi stað. Húsin voru hluti af þeirri heild sem embættunum tilheyrði og þeirri grundvallarstöðu hefur aldrei verið breytt með lögmætum hætti. Samhliða nytjarétti báru þeir (prestar) fulla ábyrgð á þeim og fjárhagsskyldur, en var líka gert að tryggja stöðu þeirra eins og annarra kirkjueigna fyrir eftirkomendur með launum sínum . . .  Þess vegna má leiða að því rök að bak við öll prestsseturshús á landinu, einnig þau sem aðeins eru orðin hús á lóð, standi sjálfseignarstofnun sem trygging fyrir rétti prestssetursins, sbr. það sem áður sagði um jarðeignirnar.“
    Sérstakar nefndir ríkis og kirkju eru í viðræðum um framtíðarskipan kirkjueigna. Frumvarp þetta hefur verið kynnt þeim nefndum. Frumvarp þetta hefur einnig verið kynnt kirkjuráði og kirkjuþingi. Kirkjuþing samþykkti frumvarp þetta fyrir sitt leyti en lagði til að smávægilegar breytingar yrðu gerðar á því. Breytingartillögur kirkjuþings hafa allar verið teknar til greina og færðar inn í frumvarpið.
    Frumvarp þetta hefur einungis helstu grundvallarreglur að geyma en að öðru leyti er gengið út frá því að nánari reglur mótist í framkvæmdinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er hugtakið prestssetur skilgreint. Prestssetrum í þessum skilningi má skipta í tvo flokka eftir því hvort um jörð (lögbýli) er að ræða eða ekki. Mismunandi reglur geta gilt um hvorn flokk um sig, t.d. um leigugjald. Sérstök ákvæði eru um stöðu presta á prestssetursjörðum í lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990. Ákvæði þessu er ætlað að taka af allan vafa um að frumvarp þetta nái til beggja flokkanna. Kveðið er á um að prestssetrið sé hluti af embætti prestsins, enda er presti skylt að hafa aðsetur og lögheimili á prestssetri, sbr. 8. gr. nefndra laga.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir stofnun sérstaks sjóðs, prestssetrasjóðs, er annist um stjórnsýslu og rekstur prestssetra. Með þeim hætti eru prestssetrin, stjórnsýsla þeirra og rekstur, afmörkuð og sjálfstæði málaflokksins tryggt. Mælt er fyrir um að sjóðurinn fari með fyrirsvar eigna þessara, svo sem gagnvart öðrum aðilum, stjórnvöldum og í dómsmálum.
    Stjórn prestssetrasjóðs er ekki bundin af fyrirmælum um það hvar og hverjum skuli lögð til prestssetur að öðru leyti en því er fram kemur í lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Sjóðstjórn getur því í sjálfu sér ákveðið að leggja fleirum til prestssetur en greinir í nefndum lögum.

Um 3. gr.

    Lagt er til að sjóðurinn lúti stjórn þriggja manna er kosnir séu af kirkjuráði. Kjörtímabil stjórnarinnar verði hið sama og kirkjuráðs eða fjögur ár.

Um 4. gr.

    Ákvæði þetta mælir fyrir um heimild sjóðstjórnar til kaupa og sölu á prestssetrum. Tryggilegra þykir að gera áskilnað um að kirkjuþing skuli heimila slíka ráðstöfun svo að hún öðlist gildi. Enn fremur þykir rétt að áskilja að samþykki dóms- og kirkjumálaráðherra þurfi til slíkra ráðstafana. Sú regla helgast m.a. af því að frumvarp þetta tekur ekki til eiginlegs eignarréttar yfir prestssetrunum eins og fyrr sagði. Þykir því rétt að tryggja ríkisvaldinu áfram vissan íhlutunarrétt með þessum hætti uns eignamál verða til lykta leidd.

Um 5. gr.

    Lagt er til að lögfest verði ein heildarregla um skyldu presta á prestssetrum til að inna af hendi endurgjald fyrir umráð og afnot sín af prestssetrum. Sjóðstjórn er ætlað að ákvarða fjárhæð leigugjalds og móta nánari reglur um leigugjald að öðru leyti.

Um 6. gr.

    Í ákvæði þessu eru helstu viðfangsefni og kostnaðarliðir sjóðsins talin upp.
    Með nýbyggingum er fyrst og fremst átt við íbúðarhúsnæði en ákvæðið getur einnig tekið til nýbygginga, t.d. útihúsa á jörð eða bifreiðageymslu.
    Prestssetrasjóður skal einnig standa straum af kostnaði við kaup prestssetra ef því er að skipta, t.d. ef keypt er notað íbúðarhúsnæði í þéttbýli til þeirra nota.
    Allur viðhaldskostnaður vegna prestssetranna greiðist af prestssetrasjóði. Þó verður að hafa í huga ákvæði 4. gr. sem segir að ábúðarlög og húsaleigulög taki til réttarsambands prests og prestssetrasjóðs, eftir því sem við getur átt. Ef skylda til eignakaupa á prestssetursjörð er fyrir hendi ber prestssetrasjóði að greiða fráfarandi presti sem úttekt mælir fyrir um í því sambandi, en prestssetrasjóður nýtur þó stöðu landsdrottins samkvæmt ábúðarlögum þannig að heimilt er að greiða með þeim skilmálum er þar greinir.
    Skylt er að kaupa brunatryggingar fyrir íbúðarhús, sbr. lög um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59 24. apríl 1954. Þá getur skylda til frekari trygginga stofnast ef um veðsetningu prestssetursjarðar er að ræða. Greiðsla fasteignagjalda hvílir á prestssetrasjóði.
    Ógerlegt er að segja nákvæmlega fyrir um annan kostnað sem falla kann á vegna prestssetra. Eðlilegt þykir að gera ráð fyrir að sjóðurinn greiði að meginstefnu til kostnað sem ósanngjarnt eða óeðlilegt er að viðkomandi prestur greiði. Sem dæmi má nefna kostnað við landskipti eða endurskoðun fasteignamats svo fátt eitt sé nefnt.
    Gert er ráð fyrir að sjóðurinn standi undir eigin rekstrarkostnaði. Er það eðlileg regla sem þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 7. gr.

    Hér er mælt fyrir um tekjur prestssetrasjóðs. Meginsjónarmiðin eru þau að svipað fjármagn sé til ráðstöfunar fyrir sjóðinn eins og veitt hefur verið til viðfangsefna hans á fjárlögum undanfarin ár, auk þess sem tekið er tillit til áætlaðs rekstrarkostnaðar sjóðsins, en mat á honum hefur verið unnið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í samráði við biskupsstofu.
    Megintekjustofninn er árlegt fjárframlag úr kirkjumálasjóði sem skal nema 52 millj. kr., sbr. 3. gr. frumvarps til laga um kirkjumálasjóð.
    Leigugjald það sem sóknarprestum ber að inna af hendi skv. 5. gr. frumvarpsins á að skila nokkrum tekjum í prestssetrasjóð. Núverandi leigugreiðslur presta fyrir prestssetur hafa skilað u.þ.b. 7 millj. kr. árlega. Þó þykir mega gera ráð fyrir að leiga fyrir nokkur prestssetur verði hækkuð, einkum þar sem leigugreiðslur hafa einungis numið nokkrum krónum á ári, svo og á jörðum með umtalsverð hlunnindi. Er því ætlandi að leigutekjur geti hækkað nokkuð. Erfitt er að áætla með nákvæmni um hversu miklar tekjur getur orðið að ræða fyrir sjóðinn. Kemur þar m.a. til að ekki liggur fyrir hver fjárhæð leigu verður, auk þess sem eitthvað getur verið um það að prestssetur séu ekki setin um lengri eða skemmri tíma og skili því ekki leigutekjum. Þó þykir mega gera ráð fyrir að árlegar leigutekjur verði ekki minni en 10 millj. kr.
    Eðlilegt er að gera ráð fyrir þeim möguleika að við úttekt vegna ábúðarloka prests sem situr prestssetursjörð sé kveðið á um greiðsluskyldu fráfarandi prests á sama hátt og gert er ráð fyrir eignakaupum í 6. gr. frumvarps þessa.
    Ákveði sjóðstjórn að selja prestssetur af einhverjum ástæðum rennur söluandvirði eignarinnar í sjóðinn og þá væntanlega jafnaðarlega til kaupa á fasteign í stað hinnar seldu.
    Sóknir, einkum hinar efnameiri, kunna að hafa hug á að leggja presti lið með því að veita fé til endurbóta á prestssetri eða eftir atvikum að leggja honum til nýtt húsnæði. Rétt þykir að girða ekki fyrir þann möguleika ef svo vill verkast og er því gert ráð fyrir að sóknir geti veitt prestssetrasjóði framlag til tiltekinna verkefna. Framlög sóknanna skapa þeim þó ekki nein réttindi yfir prestssetrunum. Ekki er litið til þessara hugsanlegu fjárframlaga við mat á fjárhagslegum forsendum prestssetrasjóðs. Framlög til sjóðsins frá sóknum yrðu því hrein viðbót við annað ráðstöfunarfé sjóðsins.

Um 8. gr.

    Í ákvæði þessu er mælt fyrir um að sú yfirstjórn sem verið hefur á hendi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í málefnum prestssetra færist til sjóðstjórnar um leið og lögin öðlast gildi, svo og réttindi og skyldur er varða prestssetrin. Þykir rétt að marka þessu glögg skil.

Um 9. gr.

    Ákvæði þetta er í samræmi við samsvarandi ákvæði í lögum um sóknargjöld og Kristnisjóð.

Um 10. gr.

    Ákvæði þetta er sett til að taka af allan vafa um að skylt sé, eins og verið hefur, að leggja öllum lögboðnum prestssetrum samkvæmt lögum nr. 62/1990 til ókeypis lóðir. Þykir rétt að haga orðalagi ákvæðisins með þessum hætti í samræmi við þá stöðu prestssetra sem frumvarp þetta mælir fyrir um.

Um 11. gr.

    Gildistökuákvæði frumvarps þessa er miðað við áramót og er það í samræmi við gildistökuákvæði í frumvarpi til laga um kirkjumálasjóð.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um prestssetur.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um kirkjumálasjóð og er nátengt því fjárhagslega. Gert er ráð fyrir (2. gr.) að stofnaður verði sérstakur sjóður, prestssetrasjóður, og fái hann fast framlag úr kirkjumálasjóði (1. tölul. 7. gr.). Gerð er grein fyrir því framlagi í 3. gr. frumvarps til laga um kirkjumálasjóð þar sem svo kveður á að framlag kirkjumálasjóðs til prestssetrasjóðs skuli eigi vera lægra en 52 m.kr. á ári og skuli sú fjárhæð vera bundin lánskjaravísitölu.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir að stjórn prestssetrasjóðs verði heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim. Þau viðskipti eru háð samþykki kirkjuþings og dóms- og kirkjumálaráðherra. Vakin skal athygli á eins og gert er í athugasemdum við lagafrumvarp þetta að kirkjunni eru ekki afhentar prestssetursjarðir og prestsbústaðir til eignar. Þær eignir verða áfram eign ríkissjóðs. Í 3. tölul. 7. gr. er gert ráð fyrir að söluandvirði prestssetra teljist prestssetrasjóði til tekna. Hér skal þess getið að ákveðnar prestssetursjarðir hafa að geyma verðmætan virkjunarrétt auk annarra hlunninda. Þá skal bent á að ákvæði 4. gr. ber að skoða í samhengi við 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem svo er kveðið á að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þá skal og bent á 5. gr. laga nr. 52/1987 og 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 63/1970 og loks á 6. gr. fjárlaga um heimildir fjármálaráðherra til kaupa og sölu eigna.
    Svo sem getið er í umsögn um frumvarp til laga um kirkjumálasjóð eru áhrif þessa frumvarps, verði það að lögum, að færa ákveðin verkefni frá ríkissjóði til kirkjuyfirvalda þannig að þau falli brott af fjárlögum. Þau verkefni, sem sjóðurinn á að kosta, eru talin upp í 6. gr. frumvarps til laga um prestssetur. Fyrir prestssetrasjóð eru þau sem hér segir: (1) Viðhald prestssetra. Til þessa viðfangsefnis er varið 44,6 m.kr. í fjárlagafrumvarpi 1994. (2) Prestaköll og prófastsdæmi, almennur rekstur. Í fjárlagafrumvarpi eru 5,1 m.kr. ætlaðar til þessa viðfangsefnis. (3) Prestssetur, nýbygging og kaup, 8,4 m.kr. Ekkert framlag er í fjárlagafrumvarpi til þessa viðfangsefnis heldur er það kostað skv. 2. og 3. gr. í frumvarpi til laga um kirkjumálasjóð. Er nánar vísað til töflu í umsögn með því frumvarpi þar sem grein er gerð fyrir ráðstöfun þeirrar heildarfjárhæðar sem ætlað er að muni renna til kirkjumálasjóðs skv. 2. gr. þess frumvarps.