Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 163 . mál.


296. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um samræmda framkvæmd á ákvæðum reglugerðar um löggæslu á skemmtunum.

    Hverjar eru tillögur starfshóps sem ráðherra skipaði í upphafi árs til þess að semja nýjar reglur um greiðslu kostnaðar við löggæslu á skemmtunum, sbr. svar ráðherra við fyrirspurn á þskj. 463 á 116. löggjafarþingi?
    Meðfylgjandi eru tillögur starfshóps um nýjar reglur um greiðslu kostnaðar vegna löggæslu á skemmtunum sem hópurinn skilaði dómsmálaráðherra 12. maí sl.

    Hvenær verður þessum tillögum starfshópsins eða öðrum, sem tryggja eiga samræmda framkvæmd um land allt, hrint í framkvæmd?
    Ráðuneytið hefur til skoðunar hvort hægt sé að heimta löggæslukostnað vegna skemmtana eftir einhverjum slíkum viðmiðunarreglum sem framangreindar tillögur gera ráð fyrir, enn fremur hvort slíkar reglur ættu ekki að taka beint til kostnaðar vegna löggæslu á útihátíðum þar sem sambærilegs ósamræmis gætir og jafnvel fleiri löggæsluverka sem gjald er heimt fyrir nú.
    Upphæð slíkra gjalda þyrfti væntanlega að miðast við að sú heildarupphæð sem innheimtist sé nálægt því að vera sú sama og nú er innheimt.
    Slíkar breytingar sem hér er lýst vekja upp ýmsar lögfræðilegar spurningar og væntanlega þarf að breyta lögum til að slík almenn gjaldtaka ætti nægilega lagastoð. Almenn gjaldtaka væri a.m.k. mun nær því að vera eðlislík ýmissi gjaldtöku eftir lögum um aukatekjur ríkissjóðs en nú er þegar við það er miðað að verið er að innheimta beinan sannanlegan kostnað við viðbótarlöggæslu í ákveðnu tilviki en það fyrirkomulag hefur aftur leitt til þess að sú upphæð sem krafist er getur verið mismunandi eftir aðstæðum lögregluliða þótt um sambærilegar skemmtanir sé að ræða.
    Ráðuneytið hefur fengið lögfræðing utan ráðuneytisins til að svara framangreindum álitaefnum um lagastoð til að flýta fyrir úrvinnslu tillagnanna og er reiknað með að ráðuneytið hafi um áramót mótað afstöðu til þess hvort þetta sé fær leið og ef það verður niðurstaðan mun ráðuneytið hafa tilbúnar tillögur að lagabreytingum á sama tíma.



(Repró 5 síður.)