Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 277 . mál.


352. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    5. gr. laganna orðast svo:
    Leggja skal 0,14% gjald, iðnlánasjóðsgjald, á allan iðnað í landinu eins og hann er skilgreindur í lögum um iðnaðarmálagjald. Skal gjaldstofn þess vera velta skv. 11. gr. laga um virðisaukaskatt að meðtalinni veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 12. gr. þeirra laga.
     Óheimilt er að leggja gjaldið við verð á vöru eða þjónustu iðnfyrirtækja.
     Um álagningu og innheimtu iðnlánasjóðsgjaldsins fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt eftir því sem við á.
     Í ríkissjóð skal renna 0,5% af innheimtu iðnlánasjóðsgjalds skv. 1. mgr. vegna kostnaðar ríkissjóðs við innheimtu þess.
     Iðnlánasjóðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn til þess myndaðist.
     Verja skal 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi til að greiða fyrir hagrannsóknum í þágu iðnaðarins og aðgerðum sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu. Stjórn sjóðsins ráðstafar þessu fé í samráði við Samtök iðnaðarins.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Skal í fyrsta sinn lagt á iðnlánasjóðsgjald samkvæmt þeim árið 1994 á gjaldstofn ársins 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Nauðsynlegt er að gera breytingar á 5. gr. laga um Iðnlánasjóð vegna þess að aðstöðugjald hefur verið fellt niður en það hefur verið notað sem gjaldstofn iðnlánasjóðsgjaldsins. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um iðnaðarmálagjald en aðstöðugjaldið hefur einnig verið gjaldstofn iðnaðarmálagjaldsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gjaldstofninn verður nú velta, sbr. skilgreiningu 11. og 12. gr. laga um virðisaukaskatt, í stað gamla aðstöðugjaldsstofnsins. Velta er í þessu sambandi óháð því hvort hún er undanþegin skattskyldu í skilningi laga um virðisaukaskatt. Gjaldhlutfallið verður 0,14%. Þessu hlutfalli er ætlað að tryggja svipaðar tekjur af þessu gjaldi og verið hafa undanfarin ár. Heildarvelta árið 1992 í þeim atvinnugreinum sem falla undir ákvæði frumvarpsins er áætluð 121,3 milljarðar króna. Þar af er velta ríkisfyrirtækja og annarra fyrirtækja í eigu opinberra aðila sem skulu vera undanþegin gjaldinu um 8,8% af heildarveltu. Nýi gjaldstofninn er því 110,6 milljarðar króna. Álagning iðnlánasjóðsgjalds á árinu 1993 nam 158 m.kr. Til að tryggja óbreyttar tekjur miðað við nýjan gjaldstofn þarf gjaldhlutfallið að vera 0,14%. Komi í ljós að tekjur verði verulega frábrugðnar því sem verið hefði miðað við aðstöðugjaldsstofninn mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið beita sér fyrir endurskoðun á gjaldhlutfallinu.
    Samsvarandi ákvæði og ákvæði 2. mgr. er að finna í lögum um iðnaðarmálagjald.
    Ákvæði 3. mgr. mælir fyrir um óbreytta framkvæmd álagningar og innheimtu gjaldsins.
    Ákvæði 4. mgr. er nýmæli en þarfnast ekki sérstakrar skýringar.
    Ákvæði 5. mgr. er efnislega samhljóða gildandi lögum.
    Lokamálsgreinin er samhljóða gildandi lögum.
    Að síðustu er lagt til að ákvæði gildandi laga um að vextir teljist til tekna Iðnlánasjóðs falli niður enda leiðir slíkt af eðli máls.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvörp til laga um iðnaðarmálagjald


og breytingar á lögum um Iðnlánasjóð.


    Í athugasemdum við frumvörpin kemur fram að nauðsynlegt sé að gera breytingar á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, vegna þess að aðstöðugjald hefur verið fellt niður en gjaldstofn þess hefur verið notaður sem gjaldstofn iðnlánasjóðsgjaldsins. Auk þess hafa orðið verulegar breytingar í starfsemi fyrirtækja og samtaka sem lögin taka til. Svipaðar skýringar liggja að baki breytingum á lögum um iðnaðarmálasjóðsgjald.
    Samkvæmt 1. gr. þessara frumvarpa skal leggja 0,14% gjald, iðnaðarmálasjóðsgjald, og 0,08% gjald, iðnaðarmálagjald, á allan iðnað í landinu eins og hann er skilgreindur í 2. gr. Skal gjaldstofn þess vera skv. 11. gr. laga um virðisaukaskatt að meðtalinni veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 12. gr. þeirra laga.
    Um álagningu og innheimtu iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds fer samkvæmt ákvæðum í VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt eftir því sem við á. Í ríkissjóð skal renna 0,5% af innheimtu gjaldanna vegna kostnaðar ríkissjóðs við framkvæmd hennar.
    Heildarvelta 1992 í þeim atvinnugreinum sem falla undir ákvæði frumvarpsins er áætluð 121,3 milljarðar kr. Að mati samtaka iðnaðarins er velta ríkisfyrirtækja og annarra fyrirtækja í eigu opinberra aðila sem skulu vera undanþegin gjaldinu um 8,8% af heildarveltu. Samkvæmt þessu er nýi gjaldstofninn 110,6 milljarðar kr. Álagning iðnaðarmálagjalds og iðnlánasjóðsgjalds 1993 á gjaldstofn 1992 nam samtals 247 m.kr. Þar af er iðnaðarmálagjaldið 88 m.kr. og iðnlánasjóðsgjaldið 159 m.kr. Þetta þýðir að miðað við nýjan gjaldstofn verður iðnaðarmálagjaldið 0,08% og iðnlánasjóðsgjaldið 0,14% eins og áður var komið fram. Ljóst er að þessi áætlun er nokkurri óvissu háð. Í athugasemdum við frumvarpið kemur hins vegar fram að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið mun beita sér fyrir endurskoðun á gjaldhlutfallinu komi í ljós að tekjur af þessum gjöldum verði verulega frábrugðnar því sem til stóð.
    Vegna ákvæðisins um 0,5% innheimtulaun er ekki ástæða til að ætla að samþykkt frumvarpanna feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.